Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 533. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1013  —  533. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Bjarnasyni
um framkvæmd á úrskurðum kjararáðs vegna laga nr. 87/2009.


     1.      Hver var framkvæmd á úrskurðum kjararáðs dagsettum 23. febrúar 2010 vegna laga nr. 87/2009, um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum, varðandi laun og önnur starfskjör útvarpsstjóra (sjá kjararáð 2010.4.001 og kjararáð 2010.4.020)?
    Launum útvarpsstjóra var breytt frá 1. mars 2010 í samræmi við greindar ákvarðanir kjararáðs.

     2.      Fól úrskurður í sér lækkun á launum viðkomandi og þá hve mikla í krónum og prósentum talið?
    Laun útvarpsstjóra lækkuðu um 386.270 kr. á mánuði eða um 26,3%.

     3.      Aflaði stjórn lögfræðiálits um framkvæmd úrskurðarins og ef svo var, hver var niðurstaða álitsins?
    Stjórn Ríkisútvarpsins aflaði lögfræðiálits 22. nóvember 2011. Í niðurstöðu þess segir:
    „Af framanröktu er ljóst að vart verður það öðrum augum litið en að brotinn hafi verið réttur á þeim fyrirsvarsmönnum ríkisfyrirtækja, sem ekki fengu aðlögunartíma að launalækkun til jafnlengdar við uppsagnarfrest sinn. Á því hefur ekki fengist skýring, hvers vegna kjararáð í úrskurði sínum mælti ekki fyrir um að þessi regla skyldi virt, svo sem telja verður að borið hefði. Tekið er fram í úrskurði kjararáðs að uppsagnarfrestur þeirra sem í hlut eigi, sé mislangur. En það getur með engu móti réttlætt að lögvarinn réttur sé ekki virtur í þessu tilliti og er vart innlegg í þá umræðu. Það er því afdráttarlaus skoðun mín að þeir sem ekki nutu þessa réttar eigi lögvarða kröfu til þess að bættur verði mismunur umsaminna og skertra launa frá upphafi skerðingartímabilsins til þess dags sem uppsagnarfresti hefði lokið.“

     4.      Fór viðkomandi stjórn eftir niðurstöðu álitsins? Ef ekki, hvaða ástæður lágu að baki þeirri afgreiðslu?
    Stjórn Ríkisútvarpsins fylgdi niðurstöðu álitsins.

     5.      Kom úrskurður kjararáðs til framkvæmda strax gagnvart viðkomandi í framhaldi af efnislegri umfjöllun stjórnar um hvernig hann skyldi framkvæmdur eða var framkvæmd frestað, t.d. vegna uppsagnarfrests eða annarra sjónarmiða, og þá í hvað langan tíma?
    Úrskurður kjararáðs kom strax til framkvæmda en útvarpsstjóri fékk uppbætur síðar.

     6.      Ef framkvæmd var ekki frestað, kom til leiðréttinga á framkvæmdinni síðar, t.d. vegna uppsagnarfrests eða annarra sjónarmiða?
    Stjórn ákvað að í desember 2011 skyldi útvarpsstjóra greiddur mismunur á laununum samkvæmt gildandi ráðningarsamningi í febrúar 2010 og launum samkvæmt ákvörðun kjararáðs sem gildi tók 1. mars 2010. Í ráðningarsamningi var kveðið á um 12 mánaða uppsagnarfrest og mismunurinn greiddur, alls 4.635.240 kr. (12 x mismunarfjárhæðin, 386.270 kr.). Þessi niðurstaða er tilgreind í ársskýrslu Ríkisútvarpsins fyrir rekstrarárið 2011–2012, sbr. lið 5, Launamál, í skýringum á bls. 84.

     7.      Ef framkvæmd var frestað eða framkvæmd leiðrétt eftir á, hvað munar miklu á heildarlaunagreiðslum á frestunartímabili miðað við að úrskurður hefði komið til framkvæmda strax?
    Vísað er til svars við 6. tölul. fyrirspurnarinnar.

     8.      Var viðkomandi bættur sá munur að hluta eða öllu leyti sem var á upphaflegum kjörum og þeim sem kjararáð ákvarðaði með úrskurði sínum, t.d. með eingreiðslu, hlunnindum, launuðum aukastörfum eða með öðrum hætti? Hver var sú fjárhæð eða hlunnindi?

    Vísað er til svars við 6. tölul. fyrirspurnarinnar.