Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 283. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1057  —  283. mál.




Nefndarálit


um skýrslu innanríkisráðherra um skipulag og tilhögun
rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Sigurð Tómas Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík, Pál Gunnar Pálsson og Sonju Bjarnadóttur frá Samkeppniseftirlitinu, Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur, Birgi Ottó Hillers og Jónas Gauta Friðjónsson frá Fjármálaeftirlitinu, Helga M. Gunnarsson frá embætti ríkissaksóknara, Boga Nilsson, Snorra Örn Árnason, Hólmstein Gauta Sigurðsson frá embætti sérstaks saksóknara, Skúla Magnússon frá Dómarafélagi Íslands og Símon Sigvaldason frá dómstólaráði. Umsagnir bárust frá Boga Nilssyni, Dómarafélagi Íslands, embætti sérstaks saksóknara, Fjármálaeftirlitinu, Persónuvernd, ríkissaksóknara, Samkeppniseftirlitinu, skattrannsóknarstjóra ríkisins og Snorra Erni Snorrasyni.
    Í lögum nr. 82/2011, um breyting á lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, með síðari breytingum, var að finna ákvæði til bráðabirgða sem kvað á um að skipuð yrði nefnd að frumkvæði innanríkisráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti til þess að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og gera tillögur að heildarskipulagi slíkra rannsókna innan einnar stofnunar í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni. Nefndinni bar í störfum sínum að hafa hliðsjón af skipan efnahagsbrotarannsókna annars staðar á Norðurlöndunum. Þáverandi innanríkisráðherra skipaði nefnd í samræmi við framangreint bráðabirgðaákvæði sem skilaði af sér skýrslu í október síðastliðnum.
    Í skýrslunni eru tillögunum skipt í tvennt. Annars vegar eru tillögur að breyttri stofnanaskipan á sviði rannsókna og ákæruvalds í skattalaga- og efnahagsbrotum. Hins vegar eru ýmsar almennari tillögur nefndarinnar sem hún telur til þess fallnar að stuðla að aukinni skilvirkni á þessu sviði. Nefndin gerir í skýrslu sinni tillögu að nýrri stofnanaskipan þannig að komið verði á fót nýrri stofnun rannsókna og ákæru á sviði efnahagsbrota með svipuðum hætti og gert hefur verið á Norðurlöndunum. Þá er lagt til að peningaþvættisskrifstofa sem nú er hjá embætti ríkislögreglustjóra verði færð til hinnar nýju stofnunar og að sett verði upp sérstök deild er sinni endurheimtu ólögmæts ávinnings af brotum.
    Að mati skýrsluhöfunda voru tvær leiðir færar hvað varðar umfang hinnar nýju stofnunar. Önnur leiðin felur í sér að sett verði á stofn ný rannsókna- og ákærustofnun til að taka við verkefnum embættis sérstaks saksóknara. Þessi leið byggir á grunni embættis sérstaks saksóknara sem annist rannsóknir alvarlegra efnahagsbrota og fari jafnframt með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi í þeim málaflokkum sem þar eru rannsökuð. Embætti þetta fari að lágmarki með rannsókn efnahagsbrotamála og ákæruvald í skattalaga- og efnahagsbrotamálum. Síðari leiðin sem lögð er til í skýrslunni gengur lengra í sameiningu stofnana. Þar er lagt til að sett verði á stofn ný rannsókna- og ákærustofnun til að taka við verkefnum embættis sérstaks saksóknara, skattrannsóknarstjóra og eftir atvikum verkefnum er varða málshöfðanir ríkissaksóknara. Hér yrði um að ræða tveggja eða eftir atvikum þriggja stoða stofnun sem færi með rannsóknir og ákæruvald í öllum skattalaga- og efnahagsbrotum. Undir þriðju stoð þessarar stofnunar mundu eftir atvikum heyra málshöfðun í sakamálum sem ríkissaksóknari annast nú. Þessi stofnun færi með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi eða á milliákæruvaldsstigi allt eftir því hvaða ákvörðun verður tekin um fyrirkomulag ákæruvalds.
    Nefndin fór yfir þessar tillögur og tekur undir þau sjónarmið að efla þurfi rannsóknir og saksókn efnahagsbrota en við setningu laga um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, kemur fram að ráðherra getur eftir 1. janúar 2013 lagt til, að fengnu áliti ríkissaksóknara, að embættið verði lagt niður. Verkefni embættisins skulu þá hverfa til lögreglu eða ákærenda eftir almennum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála, sbr. 7. gr. laganna. Fram kemur í skýrslunni að rannsóknir efnahagsbrota séu á höndum margra stofnana og þar af leiðandi geti grunur um brot í starfsemi sama aðila verið til rannsóknar á sama tíma hjá fleiri en einni stofnun án þess að vitneskja berist um það milli stofnana. Nefndin bendir á að það er sameiginlegt einkenni á skipan efnahagsbrota á Norðurlöndunum að rannsókn og saksókn í efnahagsbrotamálum sé í meginatriðum á vegum einnar stofnunnar. Hins vegar er formlegur grundvöllur stofnana og samspil eða samvinna ákæruvalds og lögreglu innan þeirra mismunandi.
    Það er álit nefndarinnar að skýrslan sé vönduð og hugmyndir sem settar eru fram um sameiningu stofnana séu áhugaverðar. Hins vegar telur nefndin að áður en afstaða er tekin til þess hvaða leið sé besti kosturinn til framtíðar þurfi að útfæra tillögurnar nánar, undirbúa lagafrumvörp sem nauðsynleg eru til að koma þessum breytingum í kring sem og leggja fram fullmótaðar tillögur um hvernig slík stofnun geti starfað. Jafnframt þarf að kostnaðarmeta áhrif fyrirhugaðra breytinga.
    Það er vilji nefndarinnar að fylgjast náið með framvindu skipulags og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum sem og að koma að endurmati á þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru. Fram að þeim tíma að nýtt fyrirkomulag verði lögfest og breytingar komnar til framkvæmda ber ráðherra að tryggja að saksókn og rannsókn efnahagsbrota sé komið fyrir innan núverandi kerfis á þann hátt að verkefnunum sé sinnt á fullnægjandi hátt og að réttaröryggi borgaranna sé tryggt. Mikilvægt er að sú reynsla og þekking sem byggst hefur upp hjá embætti sérstaks saksóknara nýtist áfram til að ljúka rannsóknum og eftirfylgni þeirra stóru mála, sem tengjast efnahagshruninu, allt til enda fyrir dómstólum.

Alþingi, 6. maí 2014.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


form., frsm.


Páll Valur Björnsson.


Líneik Anna Sævarsdóttir.



Elsa Lára Arnardóttir.


Guðbjartur Hannesson.


Helgi Hrafn Gunnarsson.



Jóhanna María Sigmundsdóttir.


Svandís Svavarsdóttir.


Vilhjálmur Árnason.