Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 592. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1072  —  592. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012,
með síðari breytingum (EES-reglur).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd .


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Frestur flugrekenda til að skila skýrslu fyrir árið 2013 samkvæmt ákvæði 21. gr. framlengist um eitt ár, til 31. mars 2015, og skylda flugrekenda til að standa skil á losunarheimildum skv. 17. gr. vegna losunar árið 2013 framlengist til 30. apríl 2015. Ekki verður breyting á skyldu flugrekenda til að vakta losun sína skv. 21. gr.
    Ráðherra skal setja reglugerð til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 421/2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hinn 30. apríl sl. var reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 421/2014 frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi um beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020 tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 62/2014 frá 30. apríl 2014. Alþingi samþykkti þingsályktun um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn án stjórnskipulegs fyrirvara 29. apríl sl. því að mikilvægt var að reglugerðin tæki gildi á sama tíma á öllu EES-svæðinu.
    Í umræðum á Alþingi komu fram þau sjónarmið að rétt væri að setja bráðabirgðaákvæði í lög nr. 70/2012 strax á vorþingi en með því móti verður reglugerð til innleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 421/2014 sett fullnægjandi lagastoð auk þess sem það verður engum vafa undirorpið hvaða skyldur hvíla á flugrekendum varðandi skýrsluskil og skil á losunarheimildum samkvæmt lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi. Gert er ráð fyrir að ráðherra leggi fram frumvarp á Alþingi til fullnaðarinnleiðingar á reglugerð nr. 421/2014 í haust.