Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 506. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1173  —  506. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987,
með síðari breytingum (vörugjald á jarðstrengi).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið á fundi sínum. Eins og fram kemur í athugasemdum með lagafrumvarpi þessu er lögð til breyting á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum, sem felur það í sér að tollskrárnúmerið 8544.6000 fellur brott úr C-lið viðauka I við lögin. Breytingin felur það í sér að 15% vörugjald sem lagt er á vörur í umræddu tollskrárnúmeri fellur niður. Undir tollskrárnúmerið 8544.6000 falla einangraðir rafmagnsleiðarar fyrir meira en 1000 V spennu. Er hér um jarðstrengi til raforkuflutnings að ræða sem eru valkostur við loftlínur. Efni í loftlínur til raforkuflutnings ber ekki vörugjald og verður því 15% vörugjald sem lagt er á jarðstrengina til þess að bjaga forsendur vals á milli jarðstrengja og loftlína allverulega, en talið er að allt að 5% kostnaðar við lagningu jarðstrengja geti stafað af vörugjaldinu.
    Nefndin telur umræddar breytingar jákvæðar í ljósi framangreinds og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. maí 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Steingrímur J. Sigfússon,
frsm.
Árni Páll Árnason.
Willum Þór Þórsson. Pétur H. Blöndal. Vilhjálmur Bjarnason.
Guðmundur Steingrímsson. Haraldur Einarsson.