Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 1235  —  579. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um upplýsingagjöf til Alþingis samkvæmt þingsályktun nr. 23/138.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvenær hyggst ráðherra upplýsa Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins samkvæmt ályktun Alþingis nr. 23/138, um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, eins og ráðherra er falið að gera skv. 5. mgr. ályktunarinnar?

    Hinn 16. júní 2010 var samþykkt þingsályktun á Alþingi þess efnis að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis. Í greinargerð með tillögunni er framtíðarsýn fyrir Ísland lýst sem framsæknum vettvangi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Enn fremur að leitað verði leiða hér á landi til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð. Rétt er að geta þess að það hefur tafist að hefja framfylgd þessa verkefnis innan ráðuneytisins þar sem engin fjárveiting fylgdi með þingsályktunni þegar hún var samþykkt. Það var ekki fyrr en í byrjun árs 2011 að þáverandi ríkisstjórn fjallaði um tillögu um að veita 8 millj. kr. til ráðuneytisins til að vinna nauðsynlega úttekt á íslensku lagaumhverfi og eftir atvikum löggjöf annarra ríkja á þessu sviði. Í lok árs 2011 var svo samþykkt að veita umræddar 8 millj. kr. til ráðuneytisins til vinnslu verkefnisins. Var síðar veitt fjárheimild á fjárlögum, 6 millj. kr., sem ætlaðar voru sem tímabundið framlag í tilefni af þingsályktuninni. Þessu til viðbótar var gert ráð fyrir að 2 millj. kr. væri varið til verkefnisins á árinu 2011.
    Um meðferð þingsályktunarinnar er það að segja að 3. maí 2012 skipaði þáverandi ráðherra stýrihóp og er honum ætlað að leiða vinnu ráðuneytisins við greiningu og úttekt á lagaumhverfinu hér á landi og erlendis með tilliti til efnis þingsályktunarinnar með hliðsjón af þjóðréttarskuldbindingum Íslands. Í stýrihópnum sátu m.a. sérfræðingar úr mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, innanríkisráðuneyti, fjölmiðlanefnd og IMMI-stofnuninni með sérþekkingu á sviði tjáningarfrelsis og á sviði tækni og alþjóðlegra skuldbindinga. Ása Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, var skipuð formaður stýrihópsins.
    Gert var ráð fyrir að stýrihópurinn skilaði tillögum sínum í formi greinargerðar um helstu álitaefni og stefnumörkun fyrir efnisþætti nauðsynlegra lagabreytinga í maí 2013. Í bréfi formanns stýrihópsins til ráðherra 22. maí 2013 var upplýst að stýrihópnum mundi ekki reynast unnt að standa við framangreind tímamörk. Kemur þá bæði til að verkefni stýrihópsins hefur reynst talsvert umfangsmeira en gert hafði verið ráð fyrir og m.a. kallað á viðamikla gagnaöflun og nokkra rannsóknarvinnu.
    Hinn 2. júlí 2013 átti stýrihópurinn fund með núverandi ráðherra þar sem farið var yfir starf stýrihópsins og efni þingsályktunarinnar. Í kjölfar fundarins var haldinn samráðsfundur 27. ágúst 2013 að frumkvæði ráðherra með fulltrúum innanríksráðuneytis og forsætisráðuneytis um framhald verkefnisins og tilnefningu nýs fulltrúa beggja ráðuneyta í stýrihópinn. Til þess að tryggja góða samvinnu og að tillögum stýrihópsins yrði komið í réttan farveg innan Stjórnarráðsins ákvað ráðherra jafnframt að óskað yrði eftir tilnefningu í stýrihópinn frá forsætisráðuneyti sem hafði áður ekki átt fulltrúa í hópnum.
    Hinn 18. október 2013 voru send út bréf til forsætisráðuneytis, innanríkisráðuneytis, IMMI-stofnunarinnar og fjölmiðlanefndar og óskað eftir tilnefningu nýs fulltrúa í stýrihóp um framkvæmd þingsályktunar. Eftir að tilnefningar bárust ráðuneytinu voru send út skipunarbréf 10. janúar 2014.
    Við skipun nýs stýrihóps lagði ráðherra áherslu á að unnið væri eftir tiltekinni forgangsröðun verkefna vegna umfangs verkefnisins og yrði sú forgangsröðun endurskoðuð innan sex mánaða frá skipun stýrihópsins. Voru eftirtalin verkefni sett í forgang:
     1.      Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum (þagnarskylda opinberra starfsmanna).
             Samskipti og samráð við forsætisráðuneyti vegna fyrirhugaðs frumvarps til laga um breytingu á stjórnsýslulögum.
     2.      Afnám refsingar vegna ærumeiðinga, þ.e. hvort afnema skuli refsingar vegna ærumeiðinga í XXV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og jafnframt hvort rétt sé að réttarúrræði vegna ærumeiðinga verði alfarið færð af sviði refsiréttar yfir á svið einkaréttar, eftir atvikum með nánari útfærslu á 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.
             Gerð skýrslu um kosti og galla á færum leiðum og gera grein fyrir þeirri meginútfærslu sem lögð verði til við endurskoðun XXV. kafla almennra hegningarlaga.
    Stýrihópurinn hefur fundað fjórum sinnum á þessu ári, 10. og 13. febrúar, 10. mars og 6. maí og er næsti fundur boðaður þann 22. maí nk.
    Þess má geta að fyrirhuguð skýrsla um hvort afnema skuli refsingar vegna ærumeiðinga XXV. kafla almennra hegningarlaga mun verða kynnt opinberlega í júní nk. og almenningi boðið að koma ábendingum á framfæri til stýrihópsins. Ráðherra hyggst svo upplýsa nánar um framfylgd verkefnisins innan Stjórnarráðsins í byrjun næsta haustþings þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir sumarleyfi.
    Þá ber að geta þess að verulega hefur hægt á vinnslu þeirra verkefna sem kveðið er á um í þingsályktuninni í kjölfar þess að Alþingi ákvað lækkun fjárveitinga til ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands um 331 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2014 miðað við upphaflegar forsendur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014. Ráðuneytin hafa í kjölfarið þurft að forgangsraða verkefnum, draga úr sumum verkefnum og hætta öðrum, auk þess sem sömu verkefnum er nú sinnt af færri starfsmönnum en áður.