Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 21  —  21. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um aðgerðir til að draga úr matarsóun.


Flm.: Brynhildur Pétursdóttir, Brynhildur S. Björnsdóttir, Björt Ólafsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Páll Valur Björnsson, Óttarr Proppé,
Svandís Svavarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Elín Hirst,
Frosti Sigurjónsson, Birgitta Jónsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp sem hafi það markmið að mæla og greina umfang matarsóunar á Íslandi og leggja fram tillögur um aðgerðir til að draga úr matarsóun. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir framgangi verkefnisins með munnlegri skýrslu á haustþingi 2015. Áætlun um aðgerðir til að draga úr matarsóun liggi fyrir á haustþingi 2016.

Greinargerð.

    Áætlað er að einn þriðji, jafnvel hátt í helmingur, þeirra matvæla sem eru ræktuð og framleidd í heiminum endi með einum eða öðrum hætti sem úrgangur. Þessi sóun á sér stað á öllum stigum; á akrinum, strax eftir uppskeru, við flutning, hjá framleiðendum, í verslunum, í mötuneytum, á veitingastöðum og hjá neytendum. Mat er hent vegna þess að hans er ekki neytt fyrir síðasta söludag, hefur skemmst, lítur illa út eða afgangar ekki nýttir svo að dæmi séu tekin. Þegar talað er um matarsóun er miðað við að mat sé hent sem hefði annars getað nýst. Þessi matarsóun er óumhverfisvæn í alla staði því að framleiðsla, flutningur og urðun á matvælum krefst orku, vatns og landnýtingar. Eftirspurn eftir mat í einum heimshluta þrýstir á um aukna landnýtingu hinum megin á hnettinum og gerir það að verkum að stórum landsvæðum er breytt í ræktunarland, oft á kostnað mikilvægra vistkerfa, svo sem regnskóga. Í ljósi þess hversu mikil og neikvæð umhverfisáhrif eru af matvælaframleiðslu er ólíðandi hversu miklu magni af matvælum er hent. Á sama tíma býr milljarður jarðarbúa við hungurmörk en með litlu broti af þeim matvælum sem er hent væri hægt að fæða þá sem svelta. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, „Food Wastage Footprint: Impacts on Natural Resources“, kemur m.a. fram að 28% ræktunarlands í heiminum (1,4 milljarðar hektara) séu nýtt til að rækta mat sem skemmist eða sé sóað og að framleiðsla á mat sem er ekki neytt losi árlega 3,3 milljörðum tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið. 1

Aðgerðir til að draga úr matarsóun.
    Víða um heim eru þjóðir farnar að gera sér grein fyrir því að leita þarf allra leiða til að draga úr matarsóun. Í Danmörku er talið að 540.000 tonnum af mat sé hent á ári eða um 100 kílóum á hvern íbúa. Bretum telst til að matvælasóun kosti hefðbundna breska barnafjölskyldu um 150.000 kr. á ári. Í báðum þessum löndum hefur verið gripið til aðgerða til að draga markvisst úr matarsóun. Í Danmörku heitir herferðin Stop spild af mad og á Bretlandi Love food hate waste. Í báðum tilfellum er um að ræða herferðir sem grasrótarsamtök standa fyrir. Á Bretlandi má einnig nefna herferðina Feeding the 5000 sem m.a. gengur út á að halda viðburði þar sem fjöldi manns gæðir sér á mat sem átti að henda. 2
    Þá má nefna að markmið Evrópusambandsins er að minnka það magn sem er hent af ætilegum mat um helming fram til ársins 2020. 3

Sóun á Íslandi.
    Ekki er ástæða til að ætla að sóunin á Íslandi sé neitt minni en annars staðar á Vesturlöndum. Athyglin beinist oft að heimilunum þegar rætt er um matarsóun og víst er þörf á vitundarvakningu meðal neytenda. Til dæmis kemur fram á heimasíðu Love food hate waste- herferðarinnar að neytendur telja að umbúðamagnið sé stærra umhverfisvandamál en matarsóunin. En heimilin eru langt í frá ein um að sóa nýtilegum mat. Framleiðendur, verslanir, veitingahús og mötuneyti bera jafnvel meiri ábyrgð. Ekki er að finna neinar áreiðanlegar tölur um matarsóun á Íslandi né upplýsingar um það hvar sóunin er mest. Ef miðað er við tölur frá nágrannalöndunum má gera ráð fyrir að árlega sé 30.000 tonnum af mat hent á Íslandi sem hefði getað nýst.
    Þingsályktunartillagan mælir ekki fyrir um sérstakar aðgerðir sem ráðherra er falið að ráðast í heldur þarf að meta það víðtækt hvaða aðgerðir séu líklegar til árangurs.
    Ef vinna á markvisst að því að draga úr matarsóun þarf hið opinbera að hafa áreiðanlegar tölur og gögn til að vinna út frá. Safna þarf upplýsingum um það hversu mikið af mat er hent og hvar sóunin á sér stað til að hægt sé að grípa til hnitmiðaðra aðgerða. Aðgerðirnar geta verið margvíslegar og beinst að ólíkum hópum og er rétt að horfa til reynslu annarra þjóða sem þegar eru komnar nokkuð á veg í baráttunni við matarsóun. Dæmi eru um vel heppnaðar aðgerðir hér á landi svo sem í mötuneyti Landspítalans þar sem markvisst hefur tekist að minnka sóun á mat. Þá má nefna að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur gefið út leiðbeiningar um það hvernig hægt er að draga úr matarsóun. 4
    Í bókinni Waste – Uncovering the Global Food Scandal eftir baráttumanninn Tristram Stuart, eru neikvæð áhrif matarsóunar rakin á ítarlegan hátt og bent á leiðir til úrbóta. 5
    Vitundarvakning hefur orðið hér á landi á undanförnum árum og í september 2014 var haldið málþing í Hörpu þar sem gestir og gangandi voru fræddir um matarsóun. Grasrótar- og félagasamtök hafa látið sig matarsóun varða og kominn er tími til að stjórnvöld taki málið alvarlega, afli gagna um umfang sóunarinnar, hvar hún eigi sér stað, og móti stefnu um það hvernig draga megi úr matarsóun hér á landi. Rétt er að starfshópurinn leiti víðtæks samráðs í sinni vinnu hjá hagsmunaaðilum, svo sem opinberum stofnunum, grasrótarsamtökum og frjálsum félagasamtökum.
Neðanmálsgrein: 1
1     www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=45816#.VA180PmB2ac
Neðanmálsgrein: 2
2     www.stopspildafmad.dkengland.lovefoodhatewaste.com/node/2472www.feeding5k.org/about.php
Neðanmálsgrein: 3
3     ec.europa.eu/environment/eussd/food.htm
Neðanmálsgrein: 4
4     www.fao.org/docrep/018/i3342e/i3342e.pdf
Neðanmálsgrein: 5
5     ns.is/sites/default/files/pdfskjol/grein_waste.pdf