Ferill 24. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 24  —  24. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um rannsóknarklasa á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma.


Flm.: Sigrún Magnúsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir stofnun rannsóknarklasa á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma á Íslandi, svo sem á sviði ALS/MND-sjúkdómsins. Ríkisstjórnin hlutist til um að vísindasamfélagið á Íslandi fái nauðsynlega aðstoð við að afla styrkja til að fjármagna rannsóknir á taugasjúkdómum, einnig frá alþjóðasamfélaginu.

Greinargerð.

    Ísland hentar sérstaklega vel sem miðstöð rannsókna á sviði taugavísinda þar sem þjóðin er fámenn, ættartengsl ljósari en hjá flestum öðrum þjóðum og veruleg vísindaþekking er til staðar.
    Rannsóknum á taugasjúkdómum hefur fleygt mjög fram á allra síðustu árum og gefa taugavísindamenn vonir um lækningar á ýmsum hrörnunarsjúkdómum sem hrjá mannkynið. Ný tækni og framfarir í rannsóknum á stofnfrumum gefur von um lækningu á gölluðum heilafrumum.
    Um allan heim beinist athygli manna um þessar mundir að hinum banvæna hreyfitaugungahrörnunarsjúkdómi ALS/MND. Mikill fjöldi fólks er reiðubúinn að leggja baráttunni gegn sjúkdómnum lið. Telja verður því líklegt að nú sé lag til að útvega alþjóðlegt fjármagn til eflingar rannsókna hér á landi, t.d. á ættgengi sjúkdómsins. Aðrir taugasjúkdómar, eins og MS, alzheimersjúkdómur og parkinsonsjúkdómur yrðu vitaskuld einnig rannsakaðir.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að efla rannsóknar- og þróunarstarf í landinu. Þá fellur tillagan mjög vel að stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014– 2016. Fyrsti kafli hennar fjallar um sókn og verðmætasköpun. Undirkaflar 1.9, 1.10 og 1.11 fjalla um árangursríka alþjóðlega sókn, að efla sókn í samkeppnissjóði og markaði á alþjóðlegum vettvangi, auka stuðning og ráðgjöf við nýsköpunarfyrirtæki sem stefna á alþjóðlegan markað og mótun aðgerðaáætlunar um þátttöku Íslands í alþjóðlegum rannsóknaráætlunum, einkum þar sem fjármagna þarf íslenska þátttöku með opinberu framlagi.
    Á Íslandi er starfandi öflugt félag áhugamanna um MND-sjúkdóminn. Rannsóknir hér á landi hafa leitt í ljós aðra hegðun sjúkdómsins á Íslandi en t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er mjög athyglisvert. Loftur Altice Þorsteinsson sendi öllum þingmönnum tölvupóst 20. ágúst sl. þar sem hann skoraði á þingmenn að veita rannsóknum á MND-sjúkdómnum liðsinni, ekki síst vegna fyrrnefndrar sérstöðu Íslands. Í þessu samhengi fer ágætlega á því að benda á að Kári Stefánsson, stofnandi Íslenskrar erfðagreiningar, hlaut nýverið viðurkenningu bandarísku Alzheimerssamtakanna fyrir rannsóknir á alzheimersjúkdómnum. Sú viðurkenning er vitnisburður þess að hér á landi er að finna dýrmæta þekkingu og reynslu á sviði rannsókna á taugasjúkdómum.
    Einstakt tækifæri er til að efla vísindastarf á Íslandi. Íslenskt samfélag býr yfir ótrúlega mörgum tækifærum til verðmætasköpunar þrátt fyrir smæð sína. Við þurfum að nýta þau tækifæri sem okkur standa til boða í samvinnu við öfluga alþjóðlega samstarfsaðila. Að grípa þessi tækifæri mun ekki aðeins færa okkur efnahagslegan ábata heldur hvetja okkur til að leggja okkar af mörkum við lausn þeirra áskorana sem mannkynið stendur frammi fyrir.
    Mikilvægt er að tillaga þessi hljóti almennan stuðning á Alþingi og samþykkt hennar hafi í för með sér að komið verði á fót metnaðarfullum rannsóknarklasa sem geri okkur betur í stakk búin til að ráða gáturnar að baki taugasjúkdómum eins og ALS/MND, MS o.fl.