Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 198  —  80. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um veiðirétt í Þingvallavatni.


     1.      Hvaða lönd eða jarðir fara með veiðirétt að Þingvallavatni, að meðtöldu Efra-Sogi?
     2.      Hversu stórt hlutfall tilheyrir hverju landi?
     3.      Hvaða lönd eða jarðir eru í einkaeigu og hverjar eru í eigu opinberra aðila?

    Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Veiðifélagi Þingvallavatns með bréfi, dags. 18. september 2014, og eru eftirfarandi svör byggð á upplýsingum sem bárust ráðuneytinu frá veiðifélaginu með tölvubréfi frá 25. september 2014.
    Veiðirétti í Þingvallavatni er skipt samkvæmt samþykkt sem hefur verið í gildi óbreytt frá aðalfundi félagsins 28. apríl 1973. Um veiðirétt í Þingvallavatni gildir samþykkt fyrir Veiðifélag Þingvallavatns nr. 65 frá 23. febrúar 1973 og arðskrá Veiðifélags Þingvallavatns nr. 332 frá 13. nóvember 1973. Heildarveiðiréttur er 100 veiðieiningar. Hér á eftir fylgir listi yfir þær jarðir sem hafa veiðirétt, veiðieiningafjölda og eignarhald jarðanna:

Veiðiréttur, veiðieiningafjöldi og eignarhald jarða.

Þingvellir 17,5 ein. Ríkiseign, þjóðgarður fer með veiðirétt
Arnarfell 5,5 ein. Ríkiseign, þjóðgarður fer með veiðirétt
Mjóanes 10,5 ein. Einkaeign
Miðfell 9,0 ein. Einkaeign
Kaldárhöfði 3,0 ein. Einkaeign
Steingrímsstöð 0,5 ein. Landsvirkjun
Villingavatn 3,5 ein. Einkaeign
Ölfusvatn 5,5 ein. Í eigu Orkuveitu Reykjavíkur
Krókur 2,5 ein. Einkaeign
Hagavík 4,5 ein. Einkaeign
Nesjavellir 4,5 ein. Í eigu Orkuveitu Reykjavíkur
Nesjar 8,0 ein. Einkaeign
Heiðarbær I 5,5 ein. Ríkisjörð, ábúendur fara með veiðirétt
Heiðarbær II 5,5 ein. Ríkisjörð, ábúendur fara með veiðirétt
Skálabrekka 5,0 ein. Einkaeign
Kárastaðir 5,5 ein. Ríkisjörð, ábúendur fara með veiðirétt
Brúsastaðir 1,5 ein. Ríkisjörð, ábúendur fara með veiðirétt
Sandey 2,5 ein. Einkaeign

     4.      Hafa einhverjir eigendur veiðiréttar fyrir löndum í opinberri eigu framselt hann?

    Orkuveita Reykjavíkur hefur framselt veiðirétt á jörðum sínum til ION Hotel á Nesjavöllum en í tölvubréfi Veiðifélags Þingvallavatns frá 25. september 2014 til ráðuneytisins kemur fram að veiðifélagið hafi ekki nákvæmar upplýsingar um samninga á milli þessara aðila.

    Þingvallaþjóðgarður er aðili að Veiðikortinu, sjá www.veidikortid.is. Að öðru leyti fara veiðiréttarhafar með veiði hver fyrir sínu landi. Nýting er breytileg eftir jörðum, sums staðar er eingöngu stunduð stangveiði, á öðrum stöðum bæði stangveiði og netaveiði. Um þann veiðirétt sem fylgir hverri veiðieiningu er í gildi samþykkt aðalfundar frá árinu 1978 sem kveður á um að hverri veiðieiningu fylgi réttur til að ráðstafa þremur bleikjunetum (40 mlöngum) eða fimm stangveiðileyfum á dag.