Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 199  —  61. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um eftirlitsstjórnvöld/eftirlitsaðila.


    Forsætisráðherra skipaði 27. júní sl. vinnuhóp sem hefur það hlutverk að fara yfir lög, reglur og stjórnsýslu mikilvægra eftirlitsstofnana og meta hvernig viðmið um vandað regluverk og stjórnsýslu séu uppfyllt, með einföldun, samræmi og skilvirkni að markmiði. Vinnuhópurinn hefur tekið til starfa og er von á fyrstu áfangaskýrslu hópsins bráðlega.
    Eftirfarandi eru svör ráðuneytisins við fyrirspurninni.

     1.      Hvaða ríkisstofnanir, sem heyra undir ráðherra, gegna hlutverki eftirlitsstjórnvalda/ eftirlitsaðila? Svar óskast sundurliðað eftir málaflokkum og tegundum eftirlits.
    Eina ríkisstofnunin sem gegnir hlutverki eftirlitsstjórnvalds og heyrir undir forsætisráðuneytið er Minjastofnun Íslands.

     2.      Telur ráðherra þörf á því að yfirfara athugunar- og rannsóknarheimildir með það fyrir augum að samræma og bæta efni þeirra? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti að samræma eða bæta?
    Forsætisráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun laga um menningarminjar, nr. 80/ 2012. Hefur ráðuneytið sent öllum helstu hagsmunaaðilum, sem með einum eða öðrum hætti starfa á grundvelli laganna, erindi og óskað eftir athugasemdum um framkvæmd laganna. Mun ráðuneytið í framhaldinu taka saman yfirlit yfir þær athugasemdir sem berast og hafa til hliðsjónar við endurskoðun laganna. Munu heimildir stjórnvalda til eftirlits og annarra úrræða koma til skoðunar við þá endurskoðun eins og aðrir efnisþættir laganna með hliðsjón af þeim athugasemdum hagsmunaaðila sem berast munu.

     3.      Telur ráðherra þörf á að samræma og bæta framkvæmd eftirlits af hálfu eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila betur en nú er? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti helst að samræma eða bæta?
    Við þá endurskoðun sem nefnd er í 2. tölul. fyrirspurnarinnar mun samræming og framkvæmd eftirlits koma til skoðunar eins og aðrir efnisþættir laganna.

     4.      Hafa einhver mistök átt sér stað við framkvæmd eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila síðustu ár? Ef svo er, hvers konar mistök var þá um að ræða?

    Stutt er síðan Minjastofnun Íslands féll undir valdsvið forsætisráðuneytisins og á þeim tíma er ráðuneytinu ekki kunnugt um mistök í starfsemi stofnunarinnar. Þá hafa engar kærur borist ráðuneytinu vegna ákvarðana stofnunarinnar.