Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 200  —  84. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um ráðningar starfsmanna ráðuneytisins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða aðstoðarmenn, ráðgjafar eða starfsmenn í sérverkefnum, í fullu starfi eða hlutastarfi, hafa verið ráðnir til starfa í ráðuneytinu frá og með 1. júní 2013 án þess að störfin væru auglýst? Óskað er eftir upplýsingum um nöfn starfsmanna, verkefni sem þeir eru ráðnir til að sinna og lengd ráðningartíma.

    Aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar eru ráðnir samkvæmt heimild í 22. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins heyra aðstoðarmenn beint undir ráðherra og er meginhlutverk þeirra að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra. Þá kemur fram í lokamálslið 1. mgr. ákvæðisins að aðstoðarmenn gegni störfum fyrir ráðherra svo lengi sem ráðherra ákveður, þó ekki lengur en ráðherra sjálfur.
    Eftirtaldir tveir aðstoðarmenn eru starfandi í forsætisráðuneytinu sem aðstoðarmenn forsætisráðherra:
    Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður ráðherra,
    Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður og aðstoðarmaður ráðherra.
    Að auki eru eftirtaldir tveir aðstoðarmenn starfandi sem aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar og hafa þeir aðsetur í forsætisráðuneytinu:
    Benedikt Árnason, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar,
    Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.
    Engir ráðgjafar eða starfsmenn í sérverkefnum hafa verið ráðnir til starfa í ráðuneytinu á tímabilinu.