Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 203  —  111. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Bjarnadóttur um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.


     1.      Hve margir höfðu 31. ágúst sl. sótt um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum nr. 9/2014?
    31. ágúst sl. höfðu umboðsmanni skuldara borist 293 umsóknir um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

     2.      Hve margar umsóknir höfðu þá verið afgreiddar, hve margar verið samþykktar og hve mörgum verið hafnað?
    31. ágúst sl. hafði umboðsmaður skuldara afgreitt 231 umsókn. Þar af voru 94 umsóknir samþykktar en 137 var synjað.

     3.      Hvernig skiptast ástæður þess að umsóknum var hafnað, sbr. a–f-lið 2. mgr. 3. gr. laganna?
    Í eftirfarandi töflu gefur að líta skiptingu synjunarástæðna á grundvelli a–c-liðar 1. mgr. 3. gr. og c–f-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 9/2014, um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

Ástæða synjunar

Hlutfall

1. mgr. 3. gr. laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.
a-liður 1. mgr. 3. gr.
–    Ekki hefur verið sýnt fram á að umsækjandi eigi í verulegum greiðsluörðugleikum og að ekki verði talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.


2%
b-liður 1. mgr. 3. gr.
–    Ekki hefur verið sýnt fram á að umsækjandi geti ekki staðið skil á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr. 67. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., að teknu tilliti til eigna- og skuldastöðu, sem og ráðstöfunartekna hans og framfærslubyrði.



12%
c-liður 1. mgr. 3. gr.
–    Ekki hefur verið sýnt fram á að önnur greiðsluvandaúrræði hafi verið reynd eða umboðsmaður skuldara metur það svo að önnur greiðsluvandaúrræði séu til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda.



54%
2. mgr. 3. gr. laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.
c-liður 2. mgr. 3. gr.
–    Skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.


21%
d-liður 2. mgr. 3. gr.
–    Skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.


1%
e-liður 2. mgr. 3. gr.
–    Skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.


3%
f-liður 2. mgr. 3. gr.
–    Greiðsluaðlögunarumleitanir hafa verið felldar niður skv. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. c- og d-lið 1. mgr. og d–g-lið 2. mgr. 6. gr. og 12. gr. sömu laga.


7%
*Miðað við 31. júlí sl.

     4.      Hvers vegna hefur reglugerð um framkvæmd laganna skv. 8. gr. þeirra ekki verið sett?
    Lögin tóku gildi 1. febrúar 2014 og hófst þá undirbúningur að setningu reglugerðar um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Áætlað er að reglugerðin verði sett fyrir lok árs 2014.