Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 246  —  217. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um strandveiðiferðamennsku.


Flm.: Guðlaugur Þór Þórðarson, Haraldur Benediktsson, Elín Hirst, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson, Valgerður Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa viðeigandi breytingar á lögum eða reglum í því skyni að heimila ferðamönnum að vera um borð við veiðar á bátum sem hafa strandveiðileyfi.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er ríkisstjórninni falið að undirbúa viðeigandi breytingar á lögum eða reglum í því skyni að ferðamönnum verði heimilt að vera um borð í bátum sem stunda strandveiðar.
    Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða hefur ráðherra ákveðið magn til ráðstöfunar af óslægðum botnfiski sem nýta skal til strandveiða á tímabilinu 1. maí til 31. ágúst, þ.e. við veiðar með handfærum. Strandveiðar eru háðar leyfi Fiskistofu og er þeim heimildum sem ráðstafað er til strandveiða skipt á fjögur landsvæði. Í sömu lögum eru ákvæði um frístundaveiðar og skulu aðilar sem reka ferðaþjónustu og hyggjast nýta við reksturinn báta til frístundaveiða sækja um leyfi til Fiskistofu. Aðeins er heimilt að stunda slíkar veiðar með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar.
    Hugmyndin að baki tillögunni lýtur að því að boðið verði upp á nýja tegund afþreyingar fyrir ferðamenn þar sem tveir undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar tengjast saman, þ.e. ferðamennska og sjávarútvegur. Um yrði að ræða sérstaka tegund ferðamennsku sem gerði ferðamanninum kleift að kynnast landi og þjóð betur og upplifa og komast í návígi við eiginlega atvinnustarfsemi hér á landi. Ferðamennska af þessu tagi getur styrkt dreifðari sjávarbyggðir og opnað frekari möguleika til tekjuöflunar. Ferðamennsku af þessu tagi er að finna t.d. á Ítalíu og í Suður-Frakklandi og gengur þar undir nafninu pescaturismo.
    Ljóst er að huga þarf að ýmsum atriðum, svo sem leyfisveitingum, gjaldtöku og öryggismálum. Flutningsmenn telja rétt að ríkisstjórnin kanni framangreint sem og hafi samráð við hagsmunaaðila og stofnanir, t.d. Landssamband smábátaeigenda, Samgöngustofu og Samtök ferðaþjónustunnar. Rétt er að benda á að nýjung sem þessi gæti byrjað sem tilraunaverkefni til ákveðins tíma, til þriggja ára til dæmis.