Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 248  —  219. mál.




Fyrirspurn



til heilbrigðisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja
skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn.

Frá Guðbjarti Hannessyni.


     1.      Hefur verið komið á laggirnar samráðshópi barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds með þátttöku fulltrúa ríkissaksóknara undir sameiginlegri forustu innanríkis- og velferðarráðuneytis eins og samráðshópur forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn, lagði til í skýrslu forsætisráðuneytis í apríl 2013?
     2.      Hefur ráðherra gert samning sem skýrir skyldur Landspítala um framkvæmd læknisskoðana í Barnahúsi og verkaskiptingu við Neyðarmóttöku vegna nauðgana eins og samráðshópurinn lagði til í 6. tillögu samráðshópsins? Er gerð tillaga um fullnægjandi fjárveitingu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015?
     3.      Hefur Landspítali fengið fjármagn og ráðið sálfræðing á geðsvið til að veita fullorðnum brotaþolum kynferðisofbeldis meðferð við áfallastreituröskun og þunglyndi, eins og lagt er til í 7. tillögu hópsins?
     4.      Hefur í samræmi við 9. tillögu samráðshópsins verið tryggð fjármögnun, framhald og útvíkkun vinnu við vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum í samræmi við ákvæði samnings Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun á börnum? Hefur ráðherra tryggt að þessi vitundarvakning verði fest í sessi til frambúðar í þeim anda sem UNICEF og fleiri aðilar hafa lagt til, svo sem með ofbeldisvarnaráði? Hefur verið skipuð verkefnisstjórn og verkefnisstjóri?
     5.      Hefur verið stofnaður rannsóknarsjóður sem nýta má til mats á forvarnaverkefnum eða frekari rannsókna á umfangi og eðli ofbeldis, þ.m.t. kynferðisofbeldis, vanrækslu, heimilisofbeldis og kláms, sbr. 11. tillögu hópsins? Ef svo er, hefur fjármagn verið tryggt í slíkan sjóð?
     6.      Hefur ráðherra í samráði við ráðherra þeirra ráðuneyta sem mynduðu samráðshópinn gert tillögur vegna fræðslu um heimilisofbeldi, lagt á þær kostnaðarmat og gert tillögur til að tryggja þeim nægt fjármagn í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015, sbr. 12. tillögu hópsins?
     7.      Hefur ráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra skipulagt og ráðist í fræðslu um klám og kynheilbrigði, sbr. 13. tillögu hópsins? Ef svo er, liggur fyrir kostnaðarmat og áætlun um fjármögnun?
     8.      Hefur ráðherra í samráði við félags- og húsnæðismálaráðherra gert tillögu um fjárveitingu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 til að efla félagasamtök sem sinna þolendum kynferðisofbeldis, sbr. 15. tillögu hópsins?
     9.      Hversu hárri fjárhæð er áætlað að ráðstafa til framangreindra verkefna á þessu ári og á því næsta samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015?


Skriflegt svar óskast.