Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 298  —  70. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um eftirlitsstjórnvöld/eftirlitsaðila.


     1.      Hvaða ríkisstofnanir, sem heyra undir ráðherra, gegna hlutverki eftirlitsstjórnvalda/ eftirlitsaðila? Svar óskast sundurliðað eftir málaflokkum og tegundum eftirlits.
    Eftirfarandi eftirlitsstofnanir eða eftirlitsaðilar heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
          Fiskistofa starfar samkvæmt lögum nr. 36/1992. Fiskistofa annast framkvæmd laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum, einnig annast Fiskistofa stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögum nr. 61/2006 og lögum nr. 58/2006, um fiskrækt o.fl.
          Matvælastofnun starfar samkvæmt lögum nr. 80/2005. Hlutverk hennar er meðal annars að sinna matvæla-, fóður- og áburðareftirliti, heilbrigðiseftirliti með dýrum og dýraafurðum auk eftirlits með dýravelferð.
          Verðlagsstofa skiptaverðs starfar samkvæmt lögum nr. 13/1998. Hlutverk hennar er að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna.

     2.      Telur ráðherra þörf á því að yfirfara athugunar- og rannsóknarheimildir með það fyrir augum að samræma og bæta efni þeirra? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti að samræma eða bæta?
    Athugunar- og rannsóknarheimildir eftirlitsaðila eru sífellt til skoðunar í ráðuneytinu. Starfsumhverfi framangreindra eftirlitsstofnana er síbreytilegt og þess vegna mikilvægt að lagaumhverfi um eftirlit lagi sig að þörfum á hverjum tíma.
    Hvað varðar Matvælastofnun er þó rétt að taka fram að hún starfar að mestu leyti samkvæmt EES-löggjöf sem innleidd hefur verið hér á landi. Í þessu regluverki eru almennt gerðar kröfur um nokkuð víðtækar heimildir fyrir opinbera eftirlitsaðila til að sinna eftirlits- og athugunarskyldum sínum og breytingar á eftirlitshlutverki stofnunarinnar eru því að miklu leyti háðar breytingum á EES-löggjöf.
    Ráðuneytið hefur til skoðunar að einfalda löggjöf um matvæli með því m.a. að leggja til samþættingu laga nr. 93/1995, laga nr. 55/1998, laga nr. 96/1997 og laga nr. 22/1994. Framangreind lög varða heilbrigði matvæla og fóðurs og það væri til einföldunar fallið að hafa ákvæði þeirra í einni löggjöf.
    Hvað varðar eftirlit Fiskistofu eru eftirfarandi breytingar til skoðunar innan ráðuneytisins:
          Breytingar á reglum um vigtun og skráningu sjávarafla til að tryggja sem best að vigtun og skráning fari rétt fram og eftirlit verði skilvirkara.
          Að Fiskistofu verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir, en ýmsar eftirlitsstofnanir hafa nú þegar slíkar heimildir.
          Að í reglugerð verði heimilt að kveða á um nákvæmari skráningu aflamagns hverrar fisktegundar í afladagbók.
          Að innleiða áhættumiðað eftirlit í starfi stofnunarinnar.
          Að aðlaga lagaumhverfi eftirlits þannig að hægt verði að beita nýjustu tækni á hverjum tíma.

     3.      Telur ráðherra þörf á að samræma og bæta framkvæmd eftirlits af hálfu eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila betur en nú er? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti helst að samræma eða bæta?
    Í samræmi við 1. og 2. tölul. hér að framan er eftirlit þeirra stofnana, sem undir ráðherra heyra, til stöðugrar skoðunar. Meginmarkmið þeirrar vinnu er að gera skipulag og framkvæmd opinbers eftirlits enn skilvirkara og hagkvæmara en nú er.
    Ákveðin skörun er á matvælaeftirliti sem framkvæmt er af Matvælastofnun og tíu heilbrigðisnefndum. Komið hafa upp tilvik þar sem báðir aðilar hafa haft eftirlitsskyldur samkvæmt matvælalögum með einum og sama eftirlitsþeganum og ekki er alltaf ljóst hver eigi að sinna eftirlitinu. Því hafa komið upp hugmyndir um samþættingu á matvælaeftirliti með það að markmiði að gera eftirlitið skilvirkara, hagkvæmara og árangursríkara.

     4.      Hafa einhver mistök átt sér stað við framkvæmd eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila síðustu ár? Ef svo er, hvers konar mistök var þá um að ræða?
    Samkvæmt þeirri löggjöf sem Matvælastofnun starfar eftir eru ýmis ákvæði sem kveða á um úttektir á störfum stofnunarinnar. Þannig má nefna að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerir árlega nokkrar úttektir á því hvernig Ísland uppfyllir reglur EES-samningsins hvað varðar matvæla- og fóðuröryggi. Niðurstaða þessara úttekta er birt í skýrslum sem birtar eru á vefsíðu ESA. Þar eru tiltekin þau atriði sem koma til skoðunar og þær úrbætur sem íslensk stjórnvöld (þ.m.t. Matvælastofnun) hyggjast grípa til í þeim tilvikum þar sem framkvæmd uppfyllir ekki reglurnar.
    Rétt er því að benda á vefsíðu ESA varðandi nánari athugasemdir um framkvæmd eftirlits hérlendis. *
    Þá hefur Ríkisendurskoðun tvívegis gert úttekt sem tengist starfsemi Matvælastofnunar, annars vegar var gerð stjórnsýsluúttekt á starfseminni (2012–2013) og birti Ríkisendurskoðun lokaskýrslu sína í nóvember 2013 og hins vegar framkvæmdi Ríkisendurskoðun úttekt á opinberum verkefnum sem unnin voru hjá Bændasamtökum Íslands. Um niðurstöður og ábendingar er vísað til skýrslna Ríkisendurskoðunar sem finna má á vefsíðu embættisins.
    Meta má árangur í starfsemi eftirlitsaðila með ýmsum hætti. Einn mælikvarðinn er að skoða niðurstöður úrskurða ráðuneytisins vegna kærðra ákvarðana stofnana. Ákvarðanir Fiskistofu og Matvælastofnunar er hægt að kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eða bera undir dómstóla. Almennt lítur ráðuneytið ekki á það sem mistök hjá eftirlitsaðila þó að ákvörðun stofnunar sé felld úr gildi. Ýmsar ástæður geta legið að baki niðurstöðu úrskurðar. Þannig getur verið vafi uppi um lagatúlkun eða að málsmeðferð eftirlitsaðila hafi í einhverjum tilfellum verið ábótavant. Þess má geta að af 49 uppkveðnum úrskurðum ráðuneytisins, vegna ákvarðana Fiskistofu, á tímabilinu frá 1. september 2012 til dagsins í dag, hafa 34 ákvarðanir verið staðfestar, 8 felldar úr gildi og 7 stjórnsýslukærum vísað frá. Sambærilegar upplýsingar vegna Matvælastofnunar er að finna í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá nóvember 2013.
Neðanmálsgrein: 1
*     www.eftasurv.int/internal-market-affairs/areas-of-competence/food-safety/veterinary-inspections/