Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 317  —  161. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Karli Garðarssyni um greiðslur í tengslum við störf
rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008.


     1.      Hvaða greiðslur fengu nefndarmenn í rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir falls bankanna 2008 fyrir störf sín við skýrslugerðina, sundurliðað eftir einstaklingum? Hvaða tímafjöldi lá að baki greiðslum til hvers og eins og hvert var tímakaupið?
    Í 17. gr. laga nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, var kveðið á um að sá dómari Hæstaréttar sem gegndi starfi formanns rannsóknarnefndarinnar og umboðsmaður Alþingis skyldu meðan þeir sinntu starfi í nefndinni njóta þeirra lögkjara sem fylgdu embættum þeirra. Þá var tekið fram að forsætisnefnd Alþingis ákvæði að öðru leyti greiðslur til nefndarmanna og önnur starfskjör þeirra. Í samræmi við þetta ákvað forsætisnefnd Alþingis á fundi sínum 4. febrúar 2009 að formaður nefndarinnar Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson fengju greitt í samræmi við ákvarðanir kjararáðs um laun og starfskjör hæstaréttardómara í tilviki Páls og forsætisnefndar Alþingis í tilviki Tryggva. Þá ákvað forsætisnefnd að nefndarmaðurinn Sigríður Benediktsdóttir skyldi, þann tíma sem hún sinnti starfi nefndarinnar í fullu starfi, fá mánaðarlega greidd sömu laun og kjararáð ákvað fyrir hæstaréttardómara og sama gilti um starfstengdar greiðslur. Á sama fundi forsætisnefndar var jafnframt ákveðið að nefndarmenn skyldu fá greidda mánaðarlega þóknun fyrir setu í rannsóknarnefndinni og var þóknun formannsins ákveðin 200.000 kr. á mánuði og hinna 150.000 kr.
    Rannsóknarnefndin hóf störf í janúar 2009 og skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010 en frágangi á gögnum og öðru sem tengdist starfi nefndarinnar lauk í júní 2010. Starfstími nefndarmanna var mismunandi. Páll og Tryggvi voru að störfum allan tímann en Sigríður var í hlutastarfi fram til 1. maí 2009 og síðan í fullu starfi til apríl 2010. Inn í framangreindum tölum er uppgjör á orlofi en forsætisnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum 4. febrúar 2009 að þar sem ljóst væri að Páll og Tryggvi mundu sinna starfi nefndarinnar í fullu starfi frá og með 1. janúar 2009 og takmarkaðir möguleikar yrðu á hefðbundinni orlofstöku þeirra meðan nefndin væri að störfum, þ.m.t. vegna þegar áunnins orlofs, skyldu þeir eiga kost á orlofi og leyfi án starfsskyldna í tvo mánuði eftir að nefndin hefði lokið störfum og njóta á þeim tíma óbreyttra kjara. Áunnið orlof Sigríðar var greitt við lok starfs nefndarinnar. Á 16 mánaða starfstíma nefndarinnar voru laun Páls 24.228.972 kr., laun Sigríðar 15.698.095 kr. og laun Tryggva 24.009.291 kr.
    Rétt er að taka fram að í samræmi við ákvarðanir kjararáðs og forsætisnefndar voru laun nefndarmanna lækkuð frá og með 1. október 2009 með fækkun greiddra eininga. Í tilvikum Páls og Sigríðar fækkaði einingum úr 38 í 18 og verð hverrar einingar var lækkað úr 6.171 kr. í 5.058 kr. og hjá Tryggva fækkaði einingunum úr 30 í 9,5. Til viðbótar þessum greiðslum fengu nefndarmenn greiddar starfstengdar greiðslur, svo sem vegna síma, aksturs og ferðalaga, í samræmi við ákvarðanir kjararáðs og forsætisnefndar.
    Í fyrirspurninni er spurt um hvaða tímafjöldi hafi legið að baki greiðslum til hvers og eins og hvert hafi verið tímakaupið. Greiðslur til nefndarmanna voru ákveðnar sem föst fjárhæð á mánuði og samanstóð af mánaðarlaunum, tilteknum fjölda eininga og þóknun. Með þessu var greitt fyrir alla vinnu nefndarmanna en ljóst er að stærstan hluta starfstíma þeirra hjá nefndinni var vinnutími þeirra verulega umfram hefðbundna vinnuviku, jafnt virka daga og um helgar. Ekki var því um það að ræða að miðað væri við þann tímafjölda sem í raun lá að baki greiðslum til hvers og eins eða að gerðir væru sérstakir útreikningar á tímakaupi.

     2.      Hvert var fyrirkomulag greiðslna til nefndarmanna og annarra sem tengdust nefndinni? Voru þetta verktakagreiðslur eða var þeim greitt með öðrum hætti? Fengu nefndarmenn eða aðrir greitt orlof eða í lífeyrissjóð eða aðrar launatengdar greiðslur? Ef svo var, af hverju?
    Í svari við 1. lið var gerð grein fyrir fyrirkomulagi á greiðslum til nefndarmanna. Ekki var um að ræða greiðslur til „annarra sem tengdust nefndinni“, þ.e. ef með spurningunni er átt er við tengsl við nefndarmenn. Um aðra sem störfuðu með eða í þágu nefndarinnar verður fjallað í svari við 4. lið.
    Rétt eins og í tilvikum annarra launþega bar samkvæmt lögum að greiða nefndarmönnum orlof og iðgjald af launum þeirra í lífeyrissjóð, sem og aðrar lögbundnar greiðslur eða greiðslur sem leiddi af ákvörðunum forseta Alþingis miðað við upphaflegar forsendur. Hér má að öðru leyti vísa til 11. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, fyrirmæla kjarasamninga opinberra starfsmanna, einkum 4. kafla, þeirra, lög nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir.

     3.      Var lögaðilum í eigu nefndarmanna, eða tengdum þeim, greitt fyrir störf fyrir nefndina? Ef svo var, hver voru tengsl lögaðilanna við nefndarmenn, fyrir hvaða vinnu var greitt, hvert var tímakaupið og hversu háar fjárhæðir var um að ræða?
    Nei.

     4.      Hverjir aðrir en nefndarmenn, og þeir sem nefndir eru að framan, fengu greitt fyrir störf í tengslum við störf rannsóknarnefndarinnar? Um hvers konar störf var að ræða, hvaða upphæð var um að ræða í hverju tilviki fyrir sig (átt er við bæði einstaklinga og lögaðila) og hvert var tímakaupið?
    Í 1. bindi skýrslu rannsóknarnefndarinnar til Alþingis, bls. 21–23, sbr. fylgiskjal, er gerð grein fyrir því hverjir unnu fyrir nefndina, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi, eða veittu henni ráðgjöf og aðstoð og þar eru birt nöfn þeirra erlendu sérfræðinga sem unnu með nefndinni. Þeir síðarnefndu, og aðrir sérfræðingar sem störfuðu með nefndinni eða veittu henni ráðgjöf, unnu ýmist ákveðin verkefni eða störfuðu tímabundið með nefndinni. Þarna er jafnframt gerð grein fyrir því hverja forsætisnefnd Alþingis skipaði í sérstakan vinnuhóp til að leggja mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði og hverjir veittu vinnuhópnum aðstoð. Í yfirlitinu koma einnig fram upplýsingar um menntun og/eða starfsheiti viðkomandi einstaklinga, og þar með á hvaða grundvelli viðkomandi voru fengnir til starfa eða ráðgjafar og hvers konar störf var um að ræða.
    Til viðbótar þeim starfsmönnum sem nefndir eru í skýrslunni naut nefndin aðstoðar og starfskrafta starfsmanna ákveðinna stofnana og fyrirtækja við verkefni sem nefndin þurfti að sinna. Þetta átti t.d. við um Alþingi vegna skráningar á skýrslutökum, yfirlesturs prófarka og handrita og undirbúnings starfsaðstöðu, Seðlabanka Íslands vegna aðstoðar við úrvinnslu upplýsinga um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði og uppsetningu á skýrslu nefndarinnar, Kauphöllina vegna úrvinnslu á upplýsingum, embætti umboðsmanns Alþingis vegna umsýslu með fjármál nefndarinnar og tiltekinnar heimildaöflunar og úrvinnslu og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vegna tiltekinna athugana. Framangreind störf voru unnin á vegum rannsóknarnefndarinnar og á ábyrgð hennar og nefndin birti því ekki nánari upplýsingar um störf hvers og eins en fram koma í skýrslunni.
    Þær greiðslur til verktaka og lögaðila sem báru virðisaukaskatt eru hér á eftir tilgreindar án hans þar sem hann fékkst endurgreiddur af vinnu sérfræðinga. Við framsetningu upplýsinga hér á eftir hefur verið leitast við að gæta samræmis við framsetningu á svörum við fyrirspurnum á þingskjölum 165 og 167. Vegna umfangs þessara fyrirspurna og þeirrar sem hér er til umfjöllunar, takmarkaðs tíma sem er til þess að svara þeim og þess tíma sem liðinn er frá því að nefndin skilaði skýrslu sinni er framsetning á upplýsingum ekki að öllu leyti eins. Á það einkum við um það hvernig þeir eru tilgreindir sem fengu umsamdar verktakagreiðslur. Almennt er þó við það miðað að birta ekki upplýsingar um nöfn þeirra sérfræðinga sem fengu verktakagreiðslur undir 1,5 millj. kr.

Greiðslur til starfsmanna og sérfræðinga.
    Greiðslur fyrir störf þeirra einstaklinga sem unnu í þágu rannsóknarnefndarinnar og starfshóps um siðferði tóku, að undanskildum greiðslum til hinna erlendu sérfræðinga, eins og í tilviki nefndarmanna í rannsóknarnefndinni, mið af því hvað greitt var fyrir sambærileg störf hjá ríkinu og þá í samræmi við kjarasamning starfsmanna Alþingis og stofnana þess. Jafnframt þurfti að taka mið af því að viðkomandi aðilar voru almennt fengnir til sérhæfðra starfa með stuttum fyrirvara í skamman tíma og því þurfti að taka sanngjarnt tillit til þess hvaða laun hefðu verið í þeim störfum sem viðkomandi hafði sinnt en þó innan þeirra marka sem áðurnefnt viðmið um greiðslur fyrir störf hjá ríkinu setti. Gagnvart þeim sem störfuðu beint hjá nefndinni var samið um föst mánaðarlaun og ákveðinn einingafjölda til að mæta yfirvinnu og álagi en ekki var greitt fyrir tímamælda yfirvinnu. Einu undantekningarnar frá því voru greiðslur sem inntar voru af hendi vegna viðbótarvinnu sem starfsmenn annarra stofnana unnu í þágu nefndarinnar og vinnu starfsmanns nefndarinnar við umsjón skrifstofu og frágang á gögnum við lok starfs nefndarinnar.
    Starfstími þeirra sem komu að störfum hjá nefndinni var mjög mismunandi og það eitt hvaða upphæð var um að ræða í hverju tilviki fyrir sig gefur takmarkaða mynd af því hvert tímakaupið var í raun. Samkvæmt upplýsingum frá nefndarmönnum í rannsóknarnefndinni var ljóst að vinnuframlag einstakra starfsmanna var það mikið á álagstímum í starfi nefndarinnar að það hefði kallað á mun hærri greiðslur ef greitt hefði verið fyrir tímamælda yfirvinnu samkvæmt kjarasamningum.
    Alls fengu 20 einstaklingar greidd full mánaðarlaun eða að hluta fyrir störf sín í tengslum við störf rannsóknarnefndarinnar að viðbættum nefndarmönnum og þeim sem skipuðu vinnuhóp um siðferði í gegnum launakerfi ríkisins og samkvæmt kjarasamningi starfsmanna Alþingis og stofnana þess. Einn starfsmaður fékk greitt samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands. Mánaðarlaun samkvæmt þeirri launatöflu sem fylgdi kjarasamningi starfsmanna Alþingis og stofnana þess, og greiðslur til þeirra sem störfuðu fyrir nefndina voru miðaðar við, voru í tilvikum tólf starfsmanna á bilinu 360.000–420.000 kr. Hjá einum starfsmanni voru mánaðarlaun á bilinu 420.000–500.000 kr. Hjá fjórum starfsmönnum voru mánaðarlaun á bilinu 500.000–580.000 kr. og hjá þremur einstaklingum voru mánaðarlaun á bilinu 580.000–660.000 kr.
    Til viðbótar fengu þessir einstaklingar greiddar mánaðarlega á bilinu 5–48 einingar vegna yfirvinnu og álags sem skiptist þannig: Tveir fengu greiddar 5 einingar, sex fengu 15 einingar, einn 20 einingar, einn 23 einingar, einn 24 einingar, fjórir 25 einingar, tveir 29 einingar, einn 28 einingar og tveir 48 einingar. Hver greidd eining var 4.201 kr. en til samanburðar skal þess getið að yfirvinna samkvæmt þeim launaflokkum sem þessir einstaklingar fengu greitt eftir var að meðaltali nær 5.000 kr. á klukkustund.
    Auk þessara 20 einstaklinga fengu fjórir starfsmenn annarra opinberra stofnana greitt í gegnum launakerfi ríkisins fyrir viðbótarvinnu sem þeir inntu af hendi í þágu nefndarinnar við umsýslu fjármála og umbrot á skýrslu nefndarinnar en þær greiðslur tóku mið af unnum tímafjölda og kjarasamningum um laun viðkomandi hjá þeirri stofnun sem þeir unnu hjá. Greiðslur til hvers af þessum einstaklingum voru samtals á bilinu 1,1–1,5 millj. kr. á starfstíma nefndarinnar og greiðslur til þess starfsmanns sem fékk greitt samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambandsins vegna þrifa á húsnæði nefndarinnar voru að meðaltali um 100.000 kr. á mánuði.
    Í tilvikum tveggja löggiltra endurskoðenda sem unnu með nefndinni, umsjónarmanns tölvukerfis nefndarinnar og fjögurra íslenskra lögfræðinga sem unnu að einstökum verkefnum fyrir nefndina voru greiðslur fyrir störf þeirra inntar af hendi í formi verktakagreiðslna, ýmist til þeirra sem einstaklinga eða lögaðila í þeirra eigu. Við ákvörðun á endurgjaldi fyrir vinnu þessara aðila var eins og í tilvikum þeirra sem voru á launaskrá tekið mið af sömu forsendum um laun hjá ríkinu fyrir sambærileg störf að viðbættum þeim kostnaði sem annars hefði fallið á ríkið sem launagreiðanda en þeir báru sjálfir sem verktakar. Þau viðmið tóku mið af mánaðarlaunum og einingafjölda þeirra sem miðað var við og tilteknu starfshlutfalli vegna umræddra verkefna. Þannig var við samkomulag um endurgjald fyrir vinnu endurskoðendanna tekið mið af ákvörðun kjararáðs um kjör ríkisendurskoðanda og hjá lögfræðingunum höfð sömu viðmið og hjá þeim lögfræðingum sem unnu fyrir nefndina að öðru leyti. Annar endurskoðandinn starfaði fyrir nefndina í alls 15 mánuði og námu mánaðarlegar greiðslur til hans að frádregnum virðisaukaskatti að meðaltali 1.091.668 kr. fyrir fullt starf en hinn starfaði fyrir nefndina í átta mánuði og mánaðarlegar greiðslur til hans voru að meðaltali 916.589 kr. án virðisaukaskatts.
    Meðan nefndin starfaði var komið upp sérstöku tölvukerfi til að hýsa og halda utan um öll þau rafrænu gögn sem nefndin aflaði frá fjármálafyrirtækjum og fleirum og til þess að framkvæma rannsóknir nefndarinnar og vinnu við skýrslu nefndarinnar. Greiðslur til þess einstaklings sem annaðist uppbyggingu og rekstur tölvukerfisins voru miðaðar við 900.000 kr. á mánuði fyrir alla vinnu en greitt var til lögaðila í eigu þessa einstaklings auk þess sem greitt var fyrir ákveðinn tölvubúnað sem hann lagði nefndinni til. Heildargreiðslur til þessa aðila án virðisaukaskatts á starfstíma nefndarinnar voru 12.167.311 kr. Heildargreiðslur til áðurnefndra fjögurra lögfræðinga hvers um sig að frádregnum virðisaukaskatti voru 4.228.582 kr., 3.044.146 kr., 2.593.526 kr. og 1.867.687 kr.
    Auk þeirra greiðslna sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan voru í tveimur tilvikum inntar af hendi verktakagreiðslur til einstaklinga sem veittu nefndinni ráðgjöf og aðstoð og eru tilgreindir í yfirliti á bls. 21–22 í 1. bindi skýrslu nefndarinnar, sbr. fylgiskjal. Samið var um upphæðir þessara greiðslna í hverju tilviki með tilliti til umfangs verkefnisins og námu þær greiðslur 1.090.000 og 330.000 kr.

Greiðslur til erlendra sérfræðinga.
    Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar til Alþingis eru í 1. bindi, bls. 22, sbr. fylgiskjal, birt nöfn þeirra erlendu sérfræðinga sem unnu með nefndinni. Greiðslur vegna erlendra sérfræðinga og að hluta vegna vinnu við sérstaka samantekt um krosseignatengsl sem unnin var í nafni erlends félags námu alls 17.910.856 kr. Samið var sérstaklega fyrir fram um fjárhæðir greiðslna í hverju tilviki fyrir sig og tóku þær mið af eðli verkefnisins, sérfræðiþekkingu viðkomandi og þeim tíma sem þurfti að ljúka verkefninu á. Hæsta greiðslan, 8.485.075 kr., var greidd vegna vinnu við rannsóknir bandarísks prófessors í fjármálum sem dvaldist hér á landi á vegum nefndarinnar og aðstoðaði hana. Tvær samantektir eftir prófessorinn voru birtar sem viðaukar við skýrslu rannsóknarnefndarinnar til Alþingis, þ.e. viðauki 3 í 9. bindi skýrslunnar og viðauki 8 sem birtur er í vefútgáfu skýrslunnar. Þá voru greiddar 2.478.700 kr. til dansks lagaprófessors sem gerði úttekt og samanburð á tilteknum lagareglum um fjármálafyrirtæki og fjármálagerninga með tilliti til íslensks og dansks réttar með hliðsjón af reglum í Evrópurétti. Greiðsla til dansks fyrrverandi bankamanns sem dvaldi hér á landi á vegum nefndarinnar og veitti henni aðstoð, m.a. við athugun á útlánum, nam 1.688.022 kr. en sérstök samantekt sem hann vann var birt sem viðauki 7 í vefútgáfu skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þá greiddi nefndin alls 1.634.236 kr. til félags í Bandaríkjunum vegna vinnu og hugbúnaðar við rannsókn á krosseignatengslum og útlánum bankanna til tengdra aðila en samantekt um þá rannsókn var birt sem viðauki 2 í 9. bindi skýrslu nefndarinnar. Greiddar voru 1.003.950 kr. til prófessors í Bretlandi fyrir ráðgjöf og greiningu á tilteknum atriðum fyrir nefndina. Til viðbótar var í tveimur tilvikum greitt fyrir erlenda sérfræðiaðstoð og í hvoru tilviki námu greiðslur innan við 200.000 kr. Í framangreindri heildartölu um kostnað við erlenda sérfræðinga er einnig eftir atvikum kostnaður vegna tímabundinnar dvalar þeirra hér á landi á vegum nefndarinnar.

Greiðslur til annarra.
    Auk þeirra greiðsla sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan greiddi nefndin alls 12 aðilum, einstaklingum eða lögaðilum, sem ekki er getið í áðurnefndu yfirliti í 1. bindi skýrslu nefndarinnar, umsamdar verktakagreiðslur fyrir vinnu að tilteknum verkefnum:
    Greiddar voru 6.297.500 kr. auk virðisaukaskatts til einstaklings fyrir yfirlestur og samræmingu á texta skýrslu nefndarinnar fyrir prentun. Fyrir annan yfirlestur á handriti og próförkum að skýrslu nefndarinnar voru 1.456.747 kr. greiddar til einstaklings og 327.504 kr. til lögaðila í eigu annars yfirlesara. Jafnframt voru samtals greiddar 787.946 kr. án virðisaukaskatts til fjögurra einstaklinga og fyrirtækja vegna þýðinga.
    Þá voru greiddar 990.400 kr. án virðisaukaskatts til endurskoðunarfyrirtækis sem gerði tiltekna úttekt fyrir nefndina.
    Tveimur einstaklingum voru greiddar verktakagreiðslur vegna þjónustu við tölvukerfi, forritunar og gagnavinnslu sem námu 659.612 kr. og 380.000 kr. Þá voru tveimur fyrirtækjum í hugbúnaðargerð og gagnavinnslu greiddar 1.373.400 kr. og 54.000 kr. vegna athugunar á gerð sérhæfðs hugbúnaðar. Þá greiddi nefndin 360.001 kr. til lögaðila sem veitti ráðgjöf við uppsetningu á skýrslu nefndarinnar. Greiddar voru 390.390 kr. til kynningarfyrirtækis vegna aðstoðar og búnaðar við kynningu á skýrslu nefndarinnar. Þá fengu sex aðilar greiddar samtals 587.250 kr. fyrir ýmiss konar aðstoð, einkum gagnöflun og úrvinnslu.
    Þar sem fyrirspurnin tekur til þeirra sem fengu greitt fyrir störf í tengslum við störf rannsóknarnefndarinnar er ekki fjallað hér sérstaklega um aðkeypta þjónustu eða leigu, svo sem vegna hugbúnaðar, tölvubúnaðar, upptökubúnaðar, öryggisgæslu, prentunar á skýrslu nefndarinnar og dreifingar.
    Hins vegar naut nefndin eins og fram kemur í skýrslu nefndarinnar til Alþingis, 1. bindi, bls. 23, sbr. fylgiskjal, aðstoðar starfsmanna ýmissa stofnana, fyrirtækja og einstaklinga við að leysa tiltekin verkefni fyrir nefndina þótt þeir sem ynnu slík verk væru ekki tilgreindir sem starfsmenn eða meðal þeirra sem veittu nefndinni ráðgjöf. Uppgjör vegna þessarar vinnu af hálfu nefndarinnar fór fram með þeim hætti að nefndin endurgreiddi viðkomandi stofnun eða fyrirtæki þann launakostnað sem fallið hafði til við þau verkefni sem unnin voru í þágu rannsóknarnefndarinnar. Þannig voru millifærðar af reikningi nefndarinnar 10.483.120 kr. til Alþingis til að mæta kostnaði vegna vinnu starfsmanna Alþingis við að skrifa upp skýrslutökur hjá nefndinni (7.668.000 kr.) og prófarkalestur (975.120 kr.) auk launatengdra gjalda (1.840.000 kr.). Greiddar voru 1.667.724 kr. til embættis umboðsmanns Alþingis vegna aðstoðar starfsmanna embættisins við tiltekna heimildaleit og úrvinnslu þeirra. Greiddar voru 690.250 kr. til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands vegna vinnu starfsmanna stofnunarinnar við verkefni fyrir nefndina. Þá greiddi nefndin 846.960 kr. til Kauphallarinnar vegna aðstoðar starfsmanna hennar við tiltekin verkefni og 397.752 kr. til Verðbréfaskráningar Íslands vegna úrvinnslu upplýsinga. Eftir að rannsóknarnefndin lét af störfum voru 4.400.000 kr. greiddar til utanríkisráðuneytisins vegna þýðinga á efni úr skýrslu nefndarinnar og 26.795.000 kr. til Þjóðskjalasafns Íslands vegna móttöku og frágangs á rafrænum gögnum frá rannsóknarnefndinni.

Greiðslur vegna siðfræðihóps.

    Samkvæmt lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 skyldi forsætisnefnd Alþingis skipa sérstakan vinnuhóp til að leggja mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Tekið var fram í lögunum að forsætisnefndin ákvæði þóknun til þeirra sem hún skipaði í vinnuhópinn. Forsætisnefnd skipaði þau Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, Salvöru Nordal, forstöðumann Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Kristínu Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, í vinnuhópinn. Nefndin ákvað á fundi sínum 16. mars 2009 að þóknun fulltrúa í vinnuhópnum skyldi vera 50.000 kr. á mánuði og formannsins 75.000 kr. Fyrir vinnuframlag skyldu greidd laun prófessors, miðað við laun formannsins, eftir að samið hefði verið um starfshlutfall og starfstíma milli vinnuhópsins og formanns rannsóknarnefndarinnar. Tekið var fram að um fyrirkomulag greiðslna skyldi samið sérstaklega við hvern nefndarmann, svo og vinnuveitanda hans þar sem það ætti við vegna tímabundins leyfis eða lækkaðs starfshlutfalls. Um starfskjör og starfstíma annarra sem kynnu að vinna fyrir vinnuhópinn skyldi samið milli formannanna og þeirra starfsmanna sem hlut ættu að máli. Í tilvikum tveggja sem voru í vinnuhópnum og voru jafnframt starfsmenn Háskóla Íslands var greitt fyrir vinnuframlag þeirra annars vegar með endurgreiðslu á launum þeirra og launatengdum gjöldum til Háskóla Íslands vegna þess tíma sem þau voru í leyfi frá daglegum störfum sínum þar og hins vegar með greiðslum frá nefndinni vegna viðbótarvinnu.
    Greiðslur til fulltrúa í vinnuhópnum og/eða endurgreiðslur til vinnuveitenda þeirra voru samtals (í kr.):
    Vilhjálmur Árnason     5.224.710 (endurgreitt til HÍ) + 2.694.904 = 7.919.614
    Kristín Ástgeirsdóttir     2.776.686
    Salvör Nordal     3.483.140 (endurgreitt til HÍ) + 2.255.893 = 5.739.033
    Þá voru greiddar 400.000 kr. til höfundar greinargerðar á sviði félagslegrar sálfræði sem birt var sem viðauki II í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Greiddar voru 400.000 kr. til Rannsóknaseturs um fjölmiðlun og boðskipti vegna úttektar sem unnin var fyrir vinnuhópinn. Auk þess fengu þrír einstaklingar greiddar verktakagreiðslur vegna yfirlesturs á drögum að skýrslu, aðstoð við athuganir vinnuhópsins og úrvinnslu á fjölmiðlaefni en þar var um að ræða 785.000 kr., 250.000 kr. og 70.000 kr.

Fylgiskjal.


Starfsfólk nefndarinnar.


          Aðalsteinn E. Jónasson, hæstaréttarlögmaður og dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
          Agnar R. Agnarsson, B.Sc. í tölvunarfræði.
          Anna Sigríður Guðfinnsdóttir, verkefnastjóri, CPMA.
          Arna Varðardóttir, doktorsnemi í hagfræði.
          Arnaldur Hjartarson, lögfræðingur.
          Ástríður Þórðardóttir, viðskiptafræðingur, MBA.
          Baldur Thorlacius, M.Sc. í hagfræði.
          Bjarni Kristinn Torfason, B.S. í stærðfræði og iðnaðarverkfræði og doktorsnemi í fjármálafræði við Columbia-háskóla.
          Eiríkur Jónsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands.
          Elín Jónsdóttir, lögfræðingur, LL.M.
          Finnur Þór Vilhjálmsson, lögfræðingur.
          Esther Finnbogadóttir, viðskiptafræðingur, MBA.
          Eyvindur G. Gunnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands.
          Guðmundur Axel Hansen, B.S. í véla- og iðnaðarverkfræði.
          Guðrún Aradóttir, B.Sc. í viðskiptafræði.
          Guðrún Johnsen, MA.E. í hagfræði, M.A. í tölfræði og lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.
          Gunnar Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi.
          Gunnar Þór Pétursson, sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík og nú doktorsnemi.
          Heiðar Þór Guðnason, kerfisstjóri.
          Héðinn Eyjólfsson, M.Sc. í viðskiptafræði.
          Inga Sigrún Þórarinsdóttir, rekstrarstjóri.
          Lúðvík Elíasson, Ph.D. í hagfræði, lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands.
          Magnús Sveinn Helgason, hagsögufræðingur.
          Magnús Stefánsson, B.Sc. í stærðfræði, M.Sc. í hagnýtri stærðfræði og M.Sc. í hagfræði.
          Margrét V. Bjarnadóttir, lektor við Stanford Graduate School of Business, Ph.D. frá MIT í aðgerðarannsóknum.
          Edward McGehee, laganemi við Harvard-háskóla.
          Ólafur Guðmundsson, M.Sc. í rafmagnsverkfræði.
          Sigurður Þórðarson, löggiltur endurskoðandi.
          Snæbjörn Gunnsteinsson, B.Sc. í stærðfræði, M.Sc. í tölfræði, Ph.D. Cand. í hagfræði.
          Þuríður B. Sigurjónsdóttir, lögfræðingur.

    Þeir sem veittu starfshópi um siðferði aðstoð:
          Friðrik Þór Guðmundsson, stundakennari í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.
          Hlynur Orri Stefánsson, M.A. í heimspeki.
          Hulda Þórisdóttir, Ph.D. í félagssálfræði.
          Kjartan Ólafsson, lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.
          Valgerður Anna Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri og aðjunkt í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.
          Þorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

    Erlendir sérfræðingar:
          Kern Alexander, Ph.D. og prófessor við lagadeild Queen Mary, University of London í Bretlandi. Forstöðumaður „Law and Finance Programme at the center for Commercial Law Studies“.
          Mark J. Flannery, Ph.D. og prófessor í fjármálum við University of Florida í Flórída Bandaríkjunum.
          Frøystein Gjesdal, Ph.D. og prófessor við verslunarháskólann í Bergen í Noregi.
          Lars Gorton, prófessor við lagadeild Háskólans í Lundi í Svíþjóð.
          Jørn Astrup Hansen, cand. oecon. og formaður stjórnar EBH bank A/S í Danmörku.
          Nina Dietz Legind, Ph.D. og prófessor við lagadeild Syddansk Universitet í Óðinsvéum í Danmörku.
          Eric Talley, Ph.D. prófessor og aðstoðarforstöðumaður laga-, viðskipta- og hagfræðistofnunar Berkeley-háskóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum.