Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 330  —  66. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um eftirlitsstjórnvöld/eftirlitsaðila.


     1.      Hvaða ríkisstofnanir, sem heyra undir ráðherra, gegna hlutverki eftirlitsstjórnvalda/ eftirlitsaðila? Svar óskast sundurliðað eftir málaflokkum og tegundum eftirlits.
    Stofnanirnar eru fjölmiðlanefnd, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Kvikmyndasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands sem starfa allar á sviði menningarmála.

Fjölmiðlanefnd.
    Fjölmiðlanefnd hefur samkvæmt lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, eftirlit með:
    –        skráningarskyldu og innihaldi og framsetningu hljóð- og myndsendinga í viðskiptaskyni, sbr. 10. gr.,
    –        framkvæmd fjölmiðlaveitna skv. VIII. kafla,
    –        fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun, sbr. 62. gr. a,
    –        eignarhaldi og samruna fjölmiðlaveita, sbr. 62. gr. b og
    –        getur lagt stjórnvaldssektir á fjölmiðlaveitur, sbr. 54. gr.
    Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með framkvæmd laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, nr. 62/2006, sbr. 5. gr. laganna um stöðvunarúrræði og rétt til endurmats.
    Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með eftirtöldum þáttum í starfsemi Ríkisútvarpsins ohf., í samræmi við lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013:
    –        framkvæmd almannaþjónustu, sbr. 15. gr.,
    –        mati á nýrri þjónustu skv. 16. gr. og
    –        getur lagt stjórnvaldssektir á Ríkisútvarpið, sbr. 17. gr.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur eftirlit með skilum skilaskyldra aðila skv. 4., 5., 6., 7., og 9. gr. laga um skylduskil til safna, nr. 20/2002.

Kvikmyndasafn Íslands.
    Kvikmyndasafn Íslands hefur eftirlit með skilum skilaskyldra aðila skv. 10. og 11. gr. laga um skylduskil til safna, nr. 20/2002.

Þjóðskjalasafn Íslands.
    Þjóðskjalasafn Íslands hefur samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, eftirlit með:
    –        starfsemi héraðsskjalasafna og annarra skjalavörslustofnana sem varðveita opinber skjöl, sbr. 4. tölul. 8. gr.,
    –        rekstri héraðsskjalasafna, sbr. 12. gr. og
    –        skjalasöfnum afhendingarskyldra aðila, sbr. 2. tölul. 8. gr.


     2.      Telur ráðherra þörf á því að yfirfara athugunar- og rannsóknarheimildir með það fyrir augum að samræma og bæta efni þeirra? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti að samræma eða bæta?
    Í ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, er mælt fyrir um að endurskoða skuli lögin innan þriggja ára frá setningu þeirra. Ráðgert var að byrja endurskoðun laganna í byrjun þessa árs en í kjölfar þess að Alþingi ákvað lækkun fjárveitinga til ráðuneytisins um 42 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2014, miðað við upphaflegar forsendur í fjárlagafrumvarpi, hefur í kjölfarið þurft að forgangsraða verkefnum, draga úr sumum verkefnum og hætta öðrum, auk þess sem sömu verkefnum er nú sinnt af færri starfsmönnum en áður. Með hliðsjón af framansögðu hefur tafist að hrinda endurskoðun fjölmiðlalaga í framkvæmd. Gera má ráð fyrir að í fyrirhugaðri endurskoðun laganna verði sjónum beint að því að einfalda eftirlitið frá því sem nú er.

     3.      Telur ráðherra þörf á að samræma og bæta framkvæmd eftirlits af hálfu eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila betur en nú er? Ef svo er, hvaða atriði eða þætti þyrfti helst að samræma eða bæta?
    Vinnubrögð við eftirlit eru sífellt í skoðun af hálfu ráðuneytisins og undirstofnana þess með það að markmiði að einfalda eftirlit. Framkvæmd opinbers eftirlits þarf sífellt að vera í skoðun og eru vinnubrögð alltaf til endurskoðunar í ráðuneytinu.

     4.      Hafa einhver mistök átt sér stað við framkvæmd eftirlitsstjórnvalda/eftirlitsaðila síðustu ár? Ef svo er, hvers konar mistök var þá um að ræða?

    Eitt af hlutverkum Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis er að benda stjórnvöldum á meinbugi á lögum og það sem betur má fara í framkvæmd laga. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa ekki borist neinar slíkar ábendingar sem varða framkvæmd eftirlits af hálfu undirstofnana þess og þekkir ekki til þess að nein mistök hafi verð gerð við eftirlit af hálfu undirstofnana þess.