Ferill 87. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 358  —  87. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um ráðningar starfsmanna ráðuneytisins.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða aðstoðarmenn, ráðgjafar eða starfsmenn í sérverkefnum, í fullu starfi eða hlutastarfi, hafa verið ráðnir til starfa í innanríkisráðuneytinu frá og með 1. júní 2013 án þess að störfin væru auglýst? Óskað er eftir upplýsingum um nöfn starfsmanna, verkefni sem þeir eru ráðnir til að sinna og lengd ráðningartíma.

    Ríkisstjórnin samþykkti 12. mars 2013 tillögu innanríkisráðherra um tímabundna fjárveitingu á árinu 2013 til að styrkja stjórnsýsluþátt hælismála vegna mikillar aukningar hælisumsókna. Vegna þessa átaks voru eftirfarandi starfsmenn ráðnir tímabundið: Erna Kristín Blöndal, lögfræðingur og doktorsnemi í málefnum útlendinga, frá apríl til desember 2013, Katrín Þórðardóttir lögfræðingur, ráðin frá apríl til nóvember 2013, og Valgerður Guðmundsdóttir lögfræðingur, ráðin frá maí til desember 2013. Í fjárlögum fyrir árið 2014 fékkst einnig tímabundin fjárveiting til þessa málaflokks og voru því tímabundnar ráðningar framlengdar um eitt ár. Ívar Már Ottason lögfræðingur var þá ráðinn tímabundið, frá mars til desember 2014, í staðinn fyrir Katrínu sem hætti. Með þessari tímabundnu aðgerð hefur til viðbótar við styttri málsmeðferðartíma verið unnt að vinna að innleiðingu nýs verklags og staðlaðra vinnubragða við vinnslu hælisumsókna í stjórnsýslunni út frá straumlínustjórnun þar sem unnið er með stöðugar umbætur og árangur að markmiði. Samhliða þessu er einnig fram undan kerfisbreyting með tilkomu kærunefndar útlendingamála sem tekur við að úrskurða á æðra stjórnsýslustigi nú um áramótin. Liður í undirbúningi stofnunar kærunefndar útlendingamála er að greiða úr uppsöfnuðum vanda fyrri ára og gera nefndinni mögulegt að hefja störf við sem bestar aðstæður. Vegna þessa var tekin ákvörðun um að fá til tímabundinna starfa starfsnema í útlendingamálum sem unnið höfðu með ráðuneytinu þann vetur, þær Kristjönu Fenger, ráðin í júní 2014 til tveggja mánaða, Kristel Finnbogadóttur og Áslaugu Magnúsdóttur, ráðnar í júní 2014 til fjögurra mánaða.