Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 420  —  168. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um skoðun á lagningu sæstrengs.


     1.      Hvaða starfshópa hefur ráðherra sett á stofn í tengslum við hugsanlega lagningu sæstrengs til raforkuútflutnings í því skyni að „kanna ítarlegar afmarkaða þætti framkvæmdarinnar,“ sbr. flutningsræðu ráðherra fyrir 59. máli, skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu, á 143. löggjafarþingi?
    Í kjölfar nefndarálits atvinnuveganefndar, dags. 30. janúar 2014, um skýrslu ráðgjafarhóps um lagningu raforkustrengs til Evrópu hefur innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verið unnið að kortlagningu næstu skrefa til samræmis við ábendingar og niðurstöður atvinnuveganefndar. Í nefndarálitinu er ekki tekin afstaða til þess hvort ráðast eigi í verkefnið en lagt til að stjórnvöld vinni áfram að könnun á lagningu raforkusæstrengs frá Íslandi til Evrópu. Jafnframt er tekið fram að margir óvissuþættir séu uppi sem huga þarf að. Í nefndarálitinu eru tilgreind nokkur afmörkuð verkefni sem atvinnuveganefnd leggur til að farið verði í undir forræði stjórnvalda til að fá fram skýrari mynd.
    Það er mat ráðuneytisins að hluta þessara verkefna sé hægt að vinna innan stjórnsýslunnar en aðra hluta þeirra þarf að bjóða út í samræmi við lög um opinber innkaup.
    Innan stjórnsýslunnar er þegar hafin vinna við að kanna nánar ýmsa þætti sem tilgreindir eru í framangreindu nefndaráliti atvinnuveganefndar. Þannig er í fyrsta lagi verið að meta raforkuþörf innlendra fyrirtækja, bæði almennra og stóriðju, sem og til nýrrar atvinnusköpunar á næstu árum, í öðru lagi að meta hvað byggja þurfi af virkjunum og gera úttekt á mögulegri bættri nýtingu virkjana sem og til hvaða virkjunarkosta kæmi vegna sölu á raforku um sæstreng og í þriðja lagi að gera úttekt á sviðsmyndum um þróun orkumarkaðar í Evrópu og úttekt á reynslu Noregs af lagningu sæstrengs.
    Framangreind atriði verða könnuð í samráði við orkufyrirtækin í landinu og aðra hagsmunaaðila.
    Í samráði við Ríkiskaup er síðan unnið að undirbúningi útboðs varðandi aðra þætti sem tilgreindir eru í nefndaráliti atvinnuveganefndar og eru metnir sem útboðsskyldir. Þar undir er frekara mat á efnahagslegum áhrifum sæstrengs á atvinnulíf og iðnað, bæði stóriðju og annan iðnað, og mat á umhverfiskostnaði á grundvelli kostnaðar- og nytjagreiningar. Ráðgert er að slíkt útboð verði auglýst á næstu vikum.

     2.      Hverjir stýra starfshópunum, hverjir aðrir eiga þar sæti, hvaða erindi eru hópunum falin í erindisbréfum, hvenær voru þeir formlega settir á stofn og hve marga fundi hafa þeir haldið?
    Til að hafa yfirumsjón með framgangi framangreindra verkefna verður á næstu dögum skipuð verkefnisstjórn. Hlutverk verkefnisstjórnar verður að sjá til þess að unnið sé að framangreindum verkefnum og að upplýsa ráðherra reglulega um stöðu mála.

     3.      Hefur verkefnum vegna hugsanlegs sæstrengs verið útvistað, sbr. ávarp ráðherra á fundi VÍB um arðsemi orkuútflutnings 10. september sl.? Ef ekki, hvað veldur töf á því? Af hvaða fjárlagalið eru þeir greiddir?
    Eins og fram kemur í svari við fyrsta tölulið fyrirspurnarinnar þá er unnið að undirbúningi útboðs vegna ákveðinna þátta sem fram koma í nefndaráliti atvinnuveganefndar. Sérstakur fjárlagaliður fyrir verkefnið er ekki tilgreindur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015, enda liggur ekki fyrir hver kostnaður vegna framangreindra verkefna verður fyrr en að loknu útboði.

     4.      Hvaða tímamörk hyggst ráðherra setja á lok þeirra verka sem varða framangreinda töluliði?
    Slík tímamörk hafa ekki verið sett.