Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 428  —  203. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Björt Ólafsdóttur um rekstur sjúkrahótels.


     1.      Hver var kostnaður ríkissjóðs við rekstur sjúkrahótels við Ármúla sl. fimm ár, sundurgreint eftir árum á verðlagi ársins 2014?
    Á því tímabili sem spurt er um var sjúkrahótel rekið á tveimur stöðum. Frá upphafi tímabilsins til loka febrúar 2011 var starfsemin á Fosshóteli, Rauðarárstíg 18, eftir þann tíma fór starfsemin fram í Ármúla 9. Ástæða flutnings var nýr samningur um þjónustuna, gerður í kjölfar útboðs.
    Í töflu 1 hér á eftir kemur fram kostnaður samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands við verksala um hótelþátt starfseminnar 2009–2014. Til viðbótar veitir Landspítali heilbrigðisþjónustu á sjúkrahótelinu fyrir um 50 millj. kr. á ári, aðallega hjúkrunarþjónustu en einnig sjúkraþjálfun. Fjárhæðir í svarinu eru færðar til meðalverðlags fyrstu níu mánaða 2014.

Tafla 1. Greiðslur samkvæmt samningi um rekstur sjúkrahótels 2009–2014.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hvert var verð á hverja gistinótt á sjúkrahótelinu framangreind ár, sundurgreint eftir árum á verðlagi ársins 2014?
    Greiðslur Sjúkratrygginga Íslands til rekstraraðila sjúkrahótels 2009–2014 miðast við fjölda gistinátta sem tilgreindur er í samningi. Gistinætur eru til ráðstöfunar fyrir sjúkratryggða, fylgdarmenn þeirra og ósjúkratryggða. Tafla 2 hér á eftir sýnir gjald sem Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir gistinótt, annars vegar miðað við fulla nýtingu og hins vegar miðað við raunverulega nýtingu. Til viðbótar innheimtir verksali 1.200 kr. gjald af sjúkratryggðum í samræmi við reglugerð nr. 207/2010 um gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli, gjaldið hefur staðið óbreytt frá 2010. Gjald sem fylgdarmenn greiða er 4.000 kr. og almennt gjald fyrir ósjúkratryggða er 18.000 kr.

Tafla 2. Verð á gistinótt á sjúkrahóteli 2009–2014.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hver er áætlaður sparnaður vegna útboðs Ríkiskaupa á rekstri sjúkrahótels á höfuðborgarsvæðinu?
    Með útboði er leitast við að ná samningi sem tryggir ávinning af sjúkrahóteli sem felst í hagkvæmum rekstri, góðri þjónustu, bættu aðgengi að heilbrigðiskerfinu og bættri nýtingu dýrra sjúkrahúsrýma. Vegna mismunandi forsendna milli útboða er erfitt að meta hvort nýtt útboð feli í sér sparnað. Þá verður hagkvæmni reksturs samkvæmt nýju útboði ekki endanlega ljós fyrr en með framkvæmd samnings á grundvelli þess.

     4.      Hvert er áætlað verð á hverja gistinótt miðað við breytt rekstrarform og útboðsgögn?
    Ekki voru gerðar breytingar á rekstrarformi sjúkrahótelsins í nýju útboði. Innritunarferli var einfaldað og fært í hendur rekstraraðila sjúkrahótels.
    Eitt tilboð barst vegna útboðs á rekstri sjúkrahótels næsta samningstímabils sem hefst eftir að núgildandi samningur rennur út 1. mars 2015. Hljóðaði tilboðið upp á 11.468 kr. á gistinótt. Af þessari fjárhæð greiða sjúkratryggðir einstaklingar nú 1.200 kr. í samræmi við reglugerð um gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli. Greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands er því 10.268 kr. fyrir hverja gistinótt sjúkratryggðs einstaklings.

     5.      Hve mikið er áætlað að þjónustan aukist eða dragist saman með breyttu rekstrarformi?
    Eins og fram hefur komið verða ekki gerðar breytingar á rekstrarformi. Ekki er áætlað að breyting verði á fjölda sjúkratryggðra sem njóta þjónustu sjúkrahótels vegna forsendna í útboði og samningi á grundvelli þess.