Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 431  —  341. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, og lögum
um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013 (útvarpsgjald).

Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Birgitta Jónsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Árni Páll Árnason.


Breyting á lögum um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007,
með síðari breytingum.

1. gr.

    1. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 11. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu,
nr. 23/2013, með síðari breytingum.

3. gr.

    4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Gjaldið skal nema 19.400 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila og skal gjaldið renna óskipt til Ríkisútvarpsins.

4. gr.

    2. málsl. 19. gr. laganna orðast svo: Þó öðlast 4. gr. og 4. mgr. 7. gr. gildi 1. janúar 2016 og 1. og 2. mgr. 14. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 1. gr. gildi 1. janúar 2015.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að útvarpsgjald haldist óbreytt 19.400 kr. en fari ekki lækkandi á árunum 2015 og 2016 eins og kveðið er á um í lögum nr. 140/2013, um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Lagðar eru til breytingar þess efnis á lögum um Ríkisútvarpið ohf. þar sem fellt er brott bráðabirgðaákvæði þess efnis að lækka gjaldið í 17.800 kr. á árinu 2015 á hvern einstakling og lögaðila. Gert er ráð fyrir óbreyttu gjaldi að fjárhæð 19.400 kr. árið 2015. Þá er lögð til breyting á fjárhæð sem tiltekin er í 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þar er gert ráð fyrir að gjaldið haldist óbreytt í 19.400 kr. en verði ekki lækkað í 16.400 kr. árið 2016 eins og lögin gera ráð fyrir.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sem samþykkt voru vorið 2013, verða tekjur af sérstöku gjaldi, sem leggja skal á samhliða álagningu opinberra gjalda á tekjuskattsskylda einstaklinga og lögaðila, markaðar Ríkisútvarpinu frá og með 1. janúar 2014 í stað þess að tekjurnar renni í ríkissjóð og að greitt sé framlag til starfseminnar samkvæmt þjónustusamningi um útvarp í almannaþágu. Áætlað er að á árinu 2014 hafi álagðar tekjur af þessu sérstaka gjaldi verið um 4.210 millj. kr. en að þar af innheimtist um 3.910 millj. kr. Sem liður í ráðstöfunum til að falla frá nýjum og óhöfnum útgjöldum var gert ráð fyrir að gildistöku fyrrgreindra ákvæða yrði frestað til 1. janúar 2016 en að eftir það yrði útvarpsgjaldið markaður tekjustofn til Ríkisútvarpsins. Í frumvarpi þessu er lagt til að fallið verði frá því að fresta gildistöku fyrrgreindra ákvæða til 1. janúar 2016 en lögð til sú breyting að útvarpsgjaldið renni óskert til Ríkisútvarpsins frá og með 1. janúar 2015. Taka þarf mið af þessum breytingum við vinnslu fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár.
    Þessar aðgerðir eru lagðar til með það að markmiði að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Ljóst er að tekjur Ríkisútvarpsins duga ekki til að standa undir rekstri stofnunarinnar eins og hún er núna þrátt fyrir miklar og sársaukafullar sparnaðaraðgerðir undanfarin ár. Frekari niðurskurður mundi bitna á kjarnastarfsemi Ríkisútvarpsins og gera því ókleift að sinna öllum þeim hlutverkum sem því eru ætluð samkvæmt lögum. Fram hefur komið í máli útvarpsstjóra að ef útvarpsgjaldið rynni óskert til Ríkisútvarpsins dygði það til að brúa það bil sem upp á vantar. * Hér er því komin einföld og sanngjörn lausn á bágri fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins sem samstaða ætti að vera um.
    Auk þessa er það mikilvægt grundvallaratriði að útvarpsgjald renni óskipt til Ríkisútvarpsins út frá fjárhagslegu sjálfstæði stofnunarinnar, sem svo er grundvöllurinn að ritstjórnarlegu og menningarlegu sjálfstæði þess gagnvart hinu pólitíska og efnahagslega valdi. Verði sjálfstæði Ríkisútvarpsins ekki tryggt er vegið að getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu sem á að vera fær um að veita nauðsynlegt aðhald stjórnvöldum á hverjum tíma, vera vettvangur skoðanaskipta, vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða öðrum aðilum mislíkar. Til þess að svo verði þarf aðaltekjustofn Ríkisútvarpsins, útvarpsgjaldið, að vera eins óháður hinu pólitíska valdi og mögulegt er. Af þessum sökum er mikilvægt að tekjustofn Ríkisútvarpsins sé skýr, fyrirsjáanlegur og samsvari innheimtu útvarpsgjaldsins.
Neðanmálsgrein: 1
*     www.visir.is/utvarpsgjald-laekkar-a-naesta-ari/article/2014140909006