Ferill 220. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 452  —  220. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði
fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn.


     1.      Hefur verið komið á laggirnar samráðshópi barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds með þátttöku fulltrúa ríkissaksóknara undir sameiginlegri forustu innanríkis- og velferðarráðuneytis eins og samráðshópur forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn, lagði til í skýrslu forsætisráðuneytis í apríl 2013?
    Félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra eru einhuga um að vinna saman að aðgerðum gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnastarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Munu ráðherrarnir undirrita samstarfsyfirlýsingu um þetta við fyrsta tækifæri. Í samstarfsyfirlýsingunni er m.a. fjallað um samráð um þessi mál með aðkomu Barnaverndarstofu, Barnahúss, ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra með það að markmiði að tryggja samhæfða framkvæmd stjórnvalda á þessu sviði.

     2.      Hver er staða mála varðandi opnun nýs Barnahúss með bættri aðstöðu fyrir þá sem erindi eiga í Barnahús, sbr. 3. tillögu samráðshópsins?
    Barnahúsið hefur verið opnað í nýjum húsakynnum. Meðal breytinga er að biðstofa er nú aðskilin fyrir yngri börn og eldri börn og sérstakt meðferðarherbergi hefur verið útbúið þar sem unnið verður með leikmeðferð og sandmeðferð (play therapy) fyrir yngstu börnin. Starfsmenn hafa eigin skrifstofur og læknar hafa séraðstöðu. Sérfræðingum hefur verið fjölgað um tvo og í lok sumars voru engin börn á biðlista eftir meðferð.

     3.      Hefur stuðningur verið efldur við foreldra og aðra nána aðstandendur barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðisofbeldi í samræmi við 5. tillögu samráðshópsins? Ef svo er, á hvaða hátt?
    Í ráðuneytinu er, í samræmi við stjórnarsáttmálann, unnið að fjölskyldustefnu í samstarfi við innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Við mótun stefnunnar hefur sjónarhornið verið á börn og réttindi þeirra með áherslu á heildstæða þjónustu. Er meðal annars lagt til í drögum að stefnunni að í hverju sveitarfélagi verði gerð áætlun um fyrirkomulag samþættingar og samstarfs grunnþjónustu, þ.e. barnaverndar, félagsþjónustu og heilsugæslu. Þá eru fram undan stjórnsýslubreytingar á sviði félagsþjónustu og barnaverndar með það að markmiði að efla heildstæða velferðarþjónustu bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Gera má ráð fyrir að þessar aðgerðir styrki bæði aðgerðir gagnvart ofbeldi almennt og ekki síður ráðgjafarhlutverk velferðarþjónustu sveitarfélaganna þannig að þau verði betur í stakk búin til að takast á við flókin verkefni eins og stuðning við foreldra og aðra nána aðstandendur í þessari stöðu. Ráðuneytið ráðgerir samstarf við Barnaverndarstofu í samráði við barnaverndarnefndir þar sem farið yrði yfir forgangsverkefni til viðbótar þeirri þjónustu sem Barnahús hefur veitt fram að þessu, m.a. stuðning við foreldra og aðra nána aðstandendur barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðisofbeldi. Rétt er þó í þessu samhengi að benda á að í raun er þjónusta Barnahússins lögbundið verkefni barnaverndarnefndanna.

     4.      Hefur verið tryggð fjármögnun, framhald og útvíkkun vinnu við vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum í samræmi við ákvæði samnings Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun barna, sbr. 9. tillögu hópsins? Hefur ráðherra gripið til aðgerða til að tryggja að þessi vitundarvakning verði fest í sessi til frambúðar í þeim anda sem UNICEF og fleiri aðilar hafa lagt til, svo sem með ofbeldisvarnaráði? Hefur verið skipuð verkefnisstjórn og verkefnisstjóri vegna þessa verkefnis?
    Vitundarvakningin er enn starfandi með verkefnisstjórn. Í verkefnisstjórn eru fulltrúar innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis og er verkefnisstjóri með aðsetur í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Fjármagn til starfsemi Vitundarvakningarinnar á árinu 2015 hefur verið tryggt með 9 millj. kr. framlagi frá framangreindum ráðuneytum.

     5.      Hefur verið stofnaður rannsóknarsjóður sem nýta má til mats á forvarnaverkefnum eða frekari rannsókna á umfangi og eðli ofbeldis, þ.m.t. kynferðisofbeldis, vanrækslu, heimilisofbeldis og kláms, sbr. 11. tillögu hópsins? Ef svo er, hefur fjármagn verið tryggt í slíkan sjóð?
    Ekki hefur verið stofnaður sérstakur rannsóknarsjóður til að meta forvarnaverkefni eða til frekari rannsókna á þessu sviði.

     6.      Hefur ráðherra í samráði við ráðherra þeirra ráðuneyta sem mynduðu samráðshópinn gert tillögur vegna fræðslu um heimilisofbeldi, lagt á þær kostnaðarmat og gert tillögur til að tryggja þeim nægt fjármagn í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015, sbr. 12. tillögu hópsins?
    Eins og áður er fram komið er vinna við mótun fjölskyldustefnu með áherslu á velferð barna langt komin. Í drögum að stefnunni eru settar fram aðgerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum, þ.m.t. heimilisofbeldi, og lagðar fram tillögur um fræðslu um áhættuþætti, einkenni og úrræði.

     7.      Hefur ráðherra í samráði við heilbrigðisráðherra gert tillögu um fjárveitingu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 til að efla félagasamtök sem sinna þolendum kynferðisofbeldis, sbr. 15. tillögu hópsins?
    Í fjárlögum 2014 var 5 millj. kr. sérstaklega ráðstafað til þriggja félagasamtaka sem veita þolendum kynferðisofbeldis aðstoð og fræðslu í samræmi við tillögur starfshópsins. Styrki fengu Drekaslóð, Aflið og Sólstafir. Þá fékk Drekaslóð 5 millj. kr. og Aflið 2,5 millj. kr styrki af safnliðum fjárlaga 2014. Stígamót og Kvennaathvarf fá árleg framlög úr ríkissjóði til að sinna þolendum kynferðisofbeldis. Hefur framlag til Stígamóta verið aukið með það að markmiði að styðja við fatlaða einstaklinga sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi og karla sem eru fórnarlömb kynferðisofbeldis. Kvennaathvarfið fékk 10 millj. kr. tímabundna aukningu 2014 sem lagt er til að verði varanleg í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 auk 7,5 millj. kr. viðbótar, samtals varanleg aukning um 17,5 millj. kr. Þá verður horft sérstaklega til umsókna frá félagasamtökum sem sinna þolendum ofbeldis, þ.m.t. kynferðisofbeldis, við meðferð umsókna um styrki til félagasamtaka sem veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu. Styrkjum verður úthlutað eigi síðar en í lok janúar 2015 af safnliðum fjárlaga. Þá verður á þessu ári gerður sérstakur samningur við Kvennaathvarfið um að veita fórnarlömbum og meintum fórnarlömbum mansals þjónustu.

     8.      Hversu hárri fjárhæð er áætlað að ráðstafa til framangreindra verkefna á þessu ári og á því næsta samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015?
    Á árinu 2014 var 105 millj. kr. ráðstafað til kaupa á nýju Barnahúsi og til breytinga á því. Þá voru Barnaverndarstofu veittar 20 millj. kr. á þessu ári til að sinna rannsóknarviðtölum, greiningu og meðferð í nýju Barnahúsi, sem gerði húsinu kleift að ráða tvo nýja starfsmenn. Gert er ráð fyrir að þessir fjármunir verði varanlegir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015. Í svari við 4. tölul. hér að framan er greint frá framlögum til Vitundarvakningarinnar 2015. Í svari við 7. tölul. er greint frá auknu framlagi til Kvennaathvarfs 2014 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 auk styrkveitinga af safnliðum til félagasamtaka.