Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 489  —  172. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um eftirlit með hvalveiðum.


     1.      Hvernig var háttað eftirliti með hvalveiðum sem fara átti fram sumarið 2014 samkvæmt svari ráðherra við fyrirspurn á þskj. 1303 á 143. löggjafarþingi?
    Eftirlit Fiskistofu með hvalveiðum fór fram með skoðun á skipum og veiðibúnaði, veiðiaðferðum, mælingaraðferðum, sýnatöku og athugun á því hvort veiðarnar væru stundaðar á leyfilegum svæðum. Auk þess var gengið úr skugga um að tilskilin leyfi væru fyrir hendi.
    Þá starfaði hér á landi norskur dýralæknir við mælingar og rannsóknir á dauðatíma langreyðar og hrefnu. Mælingar á dauðatíma hrefnu tókust ekki í sumar þar sem veiðar lágu að verulegu leyti niðri vegna veðurs á þeim tíma sem þær voru fyrirhugaðar. Mælingum á hrefnu er því ólokið. Mælingar á langreyði gengu hins vegar vel.

     2.      Hvað skýrir þá afstöðubreytingu ráðherra að samkvæmt svarinu yrðu upplýsingar um dauðatíma hvala sem aflað yrði sumarið 2014 ekki gerðar opinberar en áður hafði ráðherra hins vegar í svari við óundirbúinni fyrirspurn 7. apríl 2014 fullyrt að upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar?
    Skýrsla með niðurstöðum mælinga og rannsókna frá því í sumar verður kynnt í vinnunefnd sérfræðinga í veiðiaðferðum hvala sem starfar á vegum Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO). Eftir umfjöllun NAMMCO verður skýrslan aðgengileg almenningi í samræmi við upplýsingalög, nr. 140/2012.

     3.      Telur ráðherra það vera í samræmi við upplýsingalög að veita almenningi ekki aðgang að niðurstöðum eftirlits á vegum Fiskistofu, sem er opinber stofnun og fellur því undir gildissvið upplýsingalaga?
    Fiskistofa metur það hvaða eftirlitsgögn verða gerð opinber. Í öllum tilvikum birtir Fiskistofa niðurstöður eftirlits í ársskýrslu sinni og veitir aðgang að ákvörðunum sem teknar hafa verið eftir því sem upplýsingalög heimila. Hvað varðar aðgang að öðrum eftirlitsgögnum, svo sem einstökum eftirlitsskýrslum, verður að hafa í huga að birting á þeim getur verið háð takmörkunum skv. 6. og 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

     4.      Verða upplýsingar sem aflað hefur verið um hvalveiðar, bæði sumarið 2014 og í öðru eftirliti, kynntar Alþjóðahvalveiðiráðinu eins og sáttmáli ráðsins kveður á um, þar á meðal upplýsingar um lýsi, mjöl og þess háttar?
    Ísland mun að venju leggja fram öll þau gögn um hvalveiðar sem tilskilin eru samkvæmt sáttmála Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC), svo sem um tíma, staðsetningu, lengd og kyn fyrir hvert veitt dýr. Engar reglur eru um skyldu til skila á upplýsingum um einstakar afurðateg­undir eins og lýsi og mjöl í sáttmála IWC.

     5.      Hver var samanlagður kostn­aður af áðurnefndu eftirliti og hvernig var fjármögnun þess háttað?

    Kostn­aður Fiskistofu vegna eftirlits með hvalveiðum var 408.286 kr. og var hann greiddur af útgerðum hvalveiðiskipa.
    Kostn­aður vegna mælinga og rannsókna á dauðatíma hvala var 2.472.403 kr. og var hann greiddur með tekjum af leyfisgjöldum.