Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 521  —  331. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur
um reglugerð um velferð alifugla.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra að drög að reglugerð um aðbúnað og velferð alifugla, sem ráðuneytið hefur óskað umsagna um, samræmist markmiðum laga nr. 55/2013, um velferð dýra, þ.e. að reglugerðin tryggi, sbr. 1. gr. laganna:
     a.      að dýrin verði laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma,
     b.      að dýrin geti sýnt eðlilegt atferli eins og frekast er unnt?


    Drög að reglugerð um velferð alifugla er enn í vinnslu og hafa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu borist þó nokkrar athugasemdir við drögin sem nú er unnið úr, en þeirri vinnu er ekki lokið. Þar af leiðandi liggur ekki ljóst fyrir á þessari stundu hvernig lokatexti reglugerðarinnar muni líta út.
    Markmiði 1. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, er m.a. getið í 1. gr. draga að reglugerð um velferð alifugla en þar segir: „Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði allra alifugla með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði. Leitast skal við að alifuglar geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur.“ Grunngildi 1. gr. laga nr. 55/2013, þ.e. að alifuglar séu lausir við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, endurspeglast í einstökum ákvæðum í drögum reglugerðarinnar. Þar er m.a. fjallað um þekkingu umráðamanna alifugla og hvernig meðferð og eftirliti með alifuglum skuli háttað. Þá er sérstaklega fjallað um reglur sem gilda um fóðrun og brynningu sem koma í veg fyrir að alifuglar þurfi að líða hungur eða þorsta. Einnig er fjallað sérstaklega um sýningar á alifuglum, handsömun og tínslu, heilbrigði og forvarnir, húsnæði og aðbúnað.
    Í drögum reglugerðarinnar eru settar fram ýmsar tillögur sem fela í sér að markmiði 1. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, sé fullnægt, þ.e. að alifuglar geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt. Í drögunum er m.a. gert ráð fyrir að alifuglar hafi aðgang að setprikum og klóslípibúnaði sem tryggi eðlilegt slit á klóm. Einnig er fjallað um lausagöngu varphænsna og fullorðinna stofnfugla. Þá eru í reglugerðinni ákvæði sem gera ráð fyrir að notkun hefðbundinna búra verði óheimil að loknum aðlögunartíma. Ákvæðin miða að því að alifuglar geti sýnt sitt eðlilega atferli í samræmi við 1. gr. laga nr. 55/2013.