Ferill 299. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 550  —  299. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni
um fjölda opinberra starfa.


     1.      Hafa fjárlög fyrir árið 2014 haft áhrif á fjölda starfa sem undir ráðherra heyra í ráðuneytinu eða stofnunum þess? Ef svo er, hverjar eru breytingarnar og um hve mörg störf er að ræða?

Velferðarráðuneyti, aðalskrifstofa.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að stöðugildum hjá ráðuneytinu fækkar um samtals 6,9 á árinu 2014. Um er að ræða 3,4 stöðugildi kvenna og 3,5 stöðugildi karla.

Sjúkratryggingar Íslands.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá stofnuninni.

Landlæknir.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá embættinu.

Lyfjastofnun.
    Stofnunin er fjármögnuð með gjöldum frá lyfjafyrirtækjum sem greiða veltuskatt (markaðar tekjur), önnur þjónustugjöld (aðrar rekstrartekjur) og síðan með sértekjum (vísindaráðgjöf o.fl.). Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá stofnuninni.

Geislavarnir ríkisins.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá stofnuninni.

Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að hægt hefur verið að bæta við 8,5 stöðugildum. Um er að ræða 8,1 stöðugildi kvenna og 0,4 stöðugildi karla.

Landspítali.
    Tvær meiri háttar breytingar voru gerðar á fjárlagagrunni Landspítala 2014 sem áhrif höfðu á fjölda stöðugilda. Annars vegar var inngjöf í rekstrargrunn sem m.a. var ráðstafað til að styrkja mönnun á bráðalegudeildum og völdum göngudeildum, auk þess að styrkja mönnun í lækningum og í framlínu á bráðamóttöku. Hins vegar fékk Landspítali það hlutverk að reka hjúkrunarbiðdeild á Vífilsstöðum. Áhrif þessa sjást í fjölgun starfsmanna og dagvinnustöðugilda milli áranna 2013 og 2014 í meðfylgjandi töflu.

Fjölgun dagvinnustöðugilda á Landspítala 2014 (m.v. 2013)
Stöðugildi alls Þar af konur Þar af karlar
Vífilsstaðir 29 27 3
Styrking í mönnum 55 46 9
Samtals fjölgun 84 73 12

Lyfjagreiðslunefnd.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá nefndinni.

Vísindasiðanefnd.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá nefndinni.

Sólvangur, Hafnarfirði.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá stofnuninni. Á miðju ári 2013 varð fækkun um 4,5 stöðugildi á grundvelli samkomulags við velferðarráðuneytið og var það viðmið notað áfram í fjárlögum ársins 2014.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að stöðugildum hjá heilsugæslunni fækkar um samtals fimm á árinu 2014. Ekki kom fram í svari heilsugæslunnar af hvaða kyni þeir starfsmenn eru sem hættu.

Heilsugæslustöðin á Dalvík.
    Upplýsingar bárust ekki frá heilsugæslustöðinni. Heilsugæslustöðin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Norðurlands þann 1. október sl.

Heilsugæslan á Akureyri.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá heilsugæslustöðinni. Heilsugæslustöðin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Norðurlands 1. október sl. en hún var áður rekin af Akureyrarbæ samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
    Í svari frá heilbrigðisstofnuninni kom ekki fram hvort fjárlög fyrir árið 2014 hefðu haft áhrif á fjölda starfa hjá heilbrigðisstofnuninni.

Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði.
    Upplýsingar bárust ekki frá heilbrigðisstofnuninni. Heilbrigðisstofnunin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þann 1. október sl.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
    Í svari frá heilbrigðisstofnuninni kom ekki fram hvort fjárlög fyrir árið 2014 hefðu haft áhrif á fjölda starfa hjá heilbrigðisstofnuninni. Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði varð hluti af heilbrigðisstofnun Vestfjarða þann 1. október sl.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
    Heilbrigðisstofnunin tók til starfa 1. október 2014 en hún varð til við sameiningu nokkura stofnana á Norðurlandi.

Heilbrigðisstofnunin Blönduósi.
    Upplýsingar bárust ekki frá heilbrigðisstofnuninni. Heilbrigðisstofnunin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Norðurlands 1. október sl.

Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að stöðugildum hjá heilbrigðisstofnuninni fækkaði um samtals 3,9. Um var að ræða störf sem konur sinntu. Heilbrigðisstofnunin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Norðurlands 1. október sl.

Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda starfa hjá stofnuninni. Heilbrigðisstofnunin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Norðurlands 1. október sl.

Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að stöðugildum hjá heilbrigðisstofnuninni fjölgaði um 1,0 (tvær 50% stöður). Um var að ræða störf sem konur sinna. Heilbrigðisstofnunin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Norðurlands 1. október sl.

Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Upplýsingar bárust ekki frá heilbrigðisstofnuninni.

Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum.
    Upplýsingar bárust ekki frá heilbrigðisstofnuninni. Heilbrigðisstofnunin varð hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands 1. október sl.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Upplýsingar bárust ekki í svari frá heilbrigðisstofnuninni. Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og heilsugæslu- og sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands urðu hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands 1. október sl.

Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.
    Upplýsingar bárust ekki frá heilbrigðisstofnuninni. Heilsugæslu- og sjúkrasvið heilbrigðisstofnunarinnar varð hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands 1. október sl. en stofnunin var áður rekin af Hornarfjarðarbæ samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Fjárlög fyrir árið 2014 hafa haft þau áhrif að stöðugildum hjá heilbrigðisstofnuninni fækkaði um samtals 12,5. Í öllum tilfellum var um að ræða konur. Verkefnaflutningur varð við opnun nýs hjúkrunarheimilis (Nesvellir) og skýrir það þessa fækkun starfsmanna

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
    Í svari frá stofnuninni kom ekki fram hvort fjárlög fyrir árið 2014 hefðu haft áhrif á fjölda starfa hjá stofnuninni.

     2.      Hvaða áhrif er áætlað að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015, verði það samþykkt óbreytt, hafi á fjölda starfa sem undir ráðherra heyra í ráðuneytinu eða stofnunum þess? Hverjar eru áætlaðar breytingar og um hve mörg störf er að ræða?
    Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum, landshlutum og kyni starfsmanna sem breytingarnar snerta.


Velferðarráðuneyti, aðalskrifstofa.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er gert ráð fyrir að fækka þurfi starfsmönnum um sem nemur 1,5 stöðugildi.

Sjúkratryggingar Íslands.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni.

Landlæknir.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá embættinu.

Lyfjastofnun.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni.

Geislavarnir ríkisins.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni.

Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er gert ráð fyrir að það hafi þau áhrif að hægt verði að fjölga um eitt stöðugildi hjá sjúkrahúsinu og er þá væntanlega um að ræða konu.

Landspítali.
    Bregðast þarf við núverandi halla í rekstri Landspítala á árinu 2015 ef ekki fæst frekari styrking á rekstrargrunni spítalans í fjárlögum 2015. Hagræðingaraðgerðir eru í undirbúningi sem miða að því að draga saman rekstrarkostnað um allt að 1.500 millj. kr. Í því felast ýmsar breytingar á verkefnum innan spítalans sem nauðsynlegt verður að grípa til ef frumvarpið verður samþykkt í núverandi mynd. Slíkt mun óhjákvæmilega hafa í för með sér fækkun dagvinnustöðugilda, en útfærslu hagræðingaraðgerða er ekki að fullu lokið. Miðað við þá vinnu sem nú er í gangi má gera ráð fyrir fækkun stöðugilda á bilinu 70–100 sem gæti skipst eftir kynjum miðað við núverandi kynjahlutföll meðal starfsmanna eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Spá um fækkun dagvinnustöðugilda á Landspítala 2015
ef hagræðingaraðgerðir ganga eftir.
Stöðugildi Þar af konur Þar af karlar
Alls 70–100 56–80 14–20
Lyfjagreiðslunefnd.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá nefndinni.

Vísindasiðanefnd.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er gert ráð að starfsmönnum nefndarinnar fjölgi um einn. Gert er ráð fyrir að ráða einn starfsmenn í fullt starf laust eftir mitt næsta ár.

Sólvangur, Hafnarfirði.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni.

Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.
    Ekki liggur enn þá fyrir hvort eða hversu mikið þarf að fækka stöðum ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt. Vinna við mannahaldsáætlun fyrir árið 2015 er byrjuð og það liggur ekki fyrir fyrr en hún er tilbúin hvort fækka þurfi störfum.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er gert ráð að starfsmönnum heilbrigðisstofnunarinnar gæti fækkað um sem nemur 3–5 stöðugildum til að ná jöfnuði í rekstri ársins 2015.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt má búast við að það fækki í yfirstjórn stofnunarinnar um 5 störf. Um er að ræða fjögur störf sem sinnt hafa verið af karlmönnum og eitt af konu.

Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Upplýsingar bárust ekki frá heilbrigðisstofnuninni.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á starfsmannafjölda hjá stofnuninni.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt má búast við að það hafi í för með sér fækkun um 1,5 stöðugildi og væntanlega yrði þar um að ræða konur. Hafa ber þó í huga að þessi mál eru í vinnslu og því ekki tímabært að fullyrða neitt á þessu stigi.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.
    Ef frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 verður samþykkt óbreytt er líklegt að það muni leiða til þess að stofnunin þurfi að draga saman um a.m.k. eitt stöðugildi.