Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 560  —  301. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá
Birni Val Gíslasyni um fjölda opinberra starfa.


     1.      Hafa fjárlög fyrir árið 2014 haft áhrif á fjölda starfa sem undir ráðherra heyra í ráðuneytinu eða stofnunum þess? Ef svo er, hverjar eru breytingarnar og um hve mörg störf er að ræða?

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
    Bein áhrif fjárlaga 2014 á starfsmannafjölda stofnunarinnar er samdráttur um alls sjö stöðugildi. Þar af eru fjögur á höfuðborgarsvæðinu, tvö á Norðurlandi og eitt á Austurlandi. Um er að ræða fimm karla og tvær konur.

Samkeppniseftirlitið.
    Fjárlög 2014 fólu í sér viðbótarfjárveitingu sem nam 30 millj. kr. raunhækkun. Virk stöðugildi á árinu voru 24 eða um tveimur fleiri en verið hefði ef ekki hefði komið til fjárveitingarinnar.

Ferðamálastofa.
    Fjárlög 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda stöðugilda hjá stofnuninni á árinu 2014.

Orkustofnun.
    Fjárlög 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda stöðugilda hjá stofnuninni á árinu 2014.

Einkaleyfastofan.
    Fjárlög 2014 hafa ekki haft áhrif á fjölda stöðugilda hjá Einkaleyfastofunni.

     2.      Hvaða áhrif er áætlað að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015, verði það samþykkt óbreytt, hafi á fjölda starfa sem undir ráðherra heyra í ráðuneytinu eða stofnunum þess? Hverjar eru áætlaðar breytingar og um hve mörg störf er að ræða?
    Svar óskast sundurliðað eftir stofnunum, landshlutum og kyni starfsmanna sem breytingarnar snerta.


Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
    Stöðugildum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands mun fækka um tvö á árinu 2015, eitt á Norðurlandi og eitt á höfuðborgarsvæðinu. Báðum stöðum er í dag sinnt af körlum.

Samkeppniseftirlitið.
    
Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir lækkun sem jafngildir 25,5 millj. kr. að raungildi frá fjárlögum fyrir árið 2014. Sú fjárhæð svarar til 2–2,5 stöðugilda. Samkeppniseftirlitið mun freista þess að mæta þeirri lækkun að hluta til með öðrum hætti en fækkun stöðugilda. Endanleg niðurstaða liggur þó ekki fyrir.

Ferðamálastofa.
    Engar breytingar á stöðugildum eru fyrirhugaðar á árinu 2015 hjá Ferðamálastofu.

Orkustofnun.
    Ekki liggur ljóst fyrir hvort breytingar verða á stöðugildum Orkustofnunar á árinu 2015.

Einkaleyfastofan.
    Ekki er fyrirsjáanlegt að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015, verði það óbreytt að lögum, muni hafa áhrif á fjölda starfa hjá Einkaleyfastofunni.