Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 576  —  171. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni
um sparnað af sameiningu ráðuneyta.


     1.      Hver var heildarkostnaðurinn við sameiningu ráðuneyta á síðasta kjörtímabili?
    Á tímabilinu voru verulegar skipulagsbreytingar á ráðuneytum í Stjórnarráðinu. 1. október 2009 tók gildi breyting á reglugerð nr. 177/2007, um Stjórnarráð Íslands, en þá tóku gildi ýmsar breytingar á verkefnum og skipulagi ráðuneytanna. Hinn 1. janúar 2011 tóku gildi lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Þá tók innanríkisráðuneyti til starfa með samruna dómsmála- og mannréttindaráðuneytis annars vegar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis hins vegar. Á sama tíma tók velferðarráðuneyti til starfa með sameiningu heilbrigðisráðuneytis annars vegar og félags- og tryggingamálaráðuneytis hins vegar. Hinn 1. september 2012 tók gildi forsetaúrskurður nr. 99/2012, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti. Breytingarnar fólu í sér að í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
    Á síðasta kjörtímabili urðu þannig til þrjú ný ráðuneyti með sameiningu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti. Einnig voru ýmsar tilfærslur á verkefnum og málaflokkum á milli ráðuneyta sem leiddu til nafnabreytinga á öðrum ráðuneytum. Hver tilfærsla á málaflokki eða verkefnum á milli ráðuneyta er ekki talin vera sameining þó að nafnabreyting hafi átt sér stað. Litið er svo á að minni háttar tilfærslur hafi verið á verkefnum þriggja ráðuneyta, þ.e. forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í töflu 1 hér á eftir má sjá yfirlit yfir einskiptiskostnað vegna sameiningar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins auk annars kostnaðar sem varð vegna tilfærslu verkefna og málaflokka til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Tafla 1. Yfirlit yfir einskiptiskostnað vegna sameiningar
á síðasta kjörtímabili á verðlagi ársins 2013.

Verkefni 2009 2010 2011 2012 2013 Samtals
Ásýnd og kynning 1.748.266 3.145.434 4.893.699
Húsnæði 16.804.303 14.251.179 265.455.576 28.047 5.000.000 301.539.105
Tæki og búnaður 22.593.058 3.734.216 26.327.274
Annað 24.589.284 20.954.059 38.844.746 19.621.120 104.009.209
Samtals 16.804.303 38.840.463 310.750.958 45.752.442 24.621.120 436.769.287

    Hjá sumum ráðuneytum fóru starfsmenn á biðlaun. Í töflu 1 er ekki að finna kostnað vegna biðlauna þar sem óljóst er hvort slíkt hafi falið í sé kostnaðarauka í öllum tilvikum. Greiðsla biðlauna telst ekki til kostnaðar nema ráðinn sé annar starfsmaður í staðinn í sambærilegt starf. Sumt af því húsnæði sem lagfæra þurfti í tengslum við sameiningu ráðuneyta var vegna uppsafnaðrar viðhalds- og endurnýjunarþarfar. Fyrir vikið er ekki hægt að fullyrða að allur húsnæðiskostnaður sé vegna sameiningar ráðuneyta þar sem þörfin á viðhaldi var þegar til staðar og þurfti að ganga í lagfæringar óháð sameiningu.

     2.      Hvaða áhrif höfðu sameiningarnar á rekstrarkostnað Stjórnarráðsins og hversu mikið hefur sparast á ári síðan þær voru gerðar?
    Í töflu 2 hér á eftir má finna yfirlit yfir útgjöld aðalskrifstofa ráðuneyta sem sameinuðust á tímabilinu og þeirra sem fengu umfangsmeiri málaflokka og verkefni. Útgjaldatölur í töflunni miðast við fjárveitingar til aðalskrifstofa í fjárlögum og fjáraukalögum fyrir árin 2008– 2013 og fjárlög fyrir árið 2014. Á þessu tímabili hafa verkefni flust á milli ráðuneyta og jafnvel ráðuneyta og stofnana, breytingar verið gerðar á skipulagi ráðuneyta, ýmis tímabundin átaksverkefni verið unnin og þeim hætt o.s.frv.
    Til viðbótar við breytingar innan Stjórnarráðsins á þessu tímabili var farið í umtalsverðar hagræðingaraðgerðir innan ráðuneytanna óháð skipulagsbreytingum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 má finna í kafla 3.5 umfjöllun um þær sparnaðaraðgerðir sem gripið var til á árunum 2009–2013 og þær sundurliðaðar eftir málaflokkum og hagrænni skiptingu. Þar kemur fram að aðhaldsmarkmið í málaflokknum opinber stjórnsýsla var 31,9% á aðalskrifstofur ráðuneytanna í fjárlögum fyrir árin 2009–2013.

Tafla 2. Útgjöld aðalskrifstofa ráðuneyta sem voru sameinaðar eða urðu fyrir umtalsverðum breytingum á tímabilinu 2008–2013 á verðlagi* ársins 2013
auk fjárheimilda 2014 samkvæmt fjárlögum þess árs.

Ráðuneyti 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti** -40,6 818,7 737,1
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 610,7 564,9 518,7 501,3 489,7
     Iðnaðarráðuneyti 296,8 269,3 243,5 219,3 224,2
     Efnahags- og viðskiptaráðuneyti 258,7 337,4 319,3 308,6 296,6
Fjármála- og efnahagsráðuneyti*** 826,5 971,4 707,6 635,5 743,3 896 878,7
Innanríkisráðuneyti**** 778,7 731,3 734,8 710,5
     Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti 457,5 433,4 384,3
     Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti 428,5 466,5 436,6
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti 391,4 372,1 341 321,8 369,4 407,5 398,2
Velferðarráðuneyti***** 906,8 889,8 919 914,2
     Heilbrigðisráðuneyti 651 654,9 680,6
     Félags- og tryggingamálaráðuneyti 399,2 399,9 366,8
Samtals 4.320,3 4.469,8 3.998,4 3.672 3.703,7 3.776 3.638,7
* Miðað er við meðaltal vísitölu neysluverðs hvers árs.
** Verður til við sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í september 2012.
*** Fjármálaráðuneytið tók við efnahagsmálum efnahags- og viðskiptaráðuneytis og jarðaskrifstofu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í september 2012.
**** Verður til við sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í janúar 2011.
***** Velferðarráðuneyti verður til við sameiningu heilbrigðisráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis í janúar 2011.

    Ekki er hægt að greina á milli árangurs af sameiningu ráðuneyta og almennrar hagræðingar sem átti sér stað á tímabilinu. Þegar tafla 2 er skoðuð nánar má sjá að útgjöld eru um 16% lægri árið 2014 en þau voru árið 2008 á verðlagi ársins 2013. Fjárveitingar til ráðuneyta voru 681,6 millj. kr. lægri árið 2014 en árið 2008.
    Í töflu 3 hér á eftir má finna yfirlit yfir útgjöld allra ráðuneyta. Útgjaldatölur í töflunni miðast við fjárveitingar til aðalskrifstofa í fjárlögum og fjáraukalögum fyrir árin 2008–2013 og fjárlögum fyrir árið 2014. Þegar tafla 3 er skoðuð nánar má sjá að útgjöld eru um 11% lægri árið 2014 en þau voru árið 2008 á verðlagi ársins 2013. Fjárveitingar til ráðuneyta voru 717,8 millj. kr. lægri árið 2014 en þau voru árið 2008.

Tafla 3. Útgjöld aðalskrifstofa ráðuneyta 2008–2013 á verðlagi* ársins 2013
auk fjárheimilda 2014 samkvæmt fjárlögum þess árs.

2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014
Aðalskrifstofur ráðuneyta 6.675 6.937 6.280,1 5.730,3 6.119,4 6.099,3 5.957,2
* Miðað er við meðaltal vísitölu neysluverðs hvers árs.

    Áhrif sameiningar ráðuneyta og almennra hagræðingaraðgerða hafa haft þau áhrif að rekstrarkostnaður ráðuneytanna hefur almennt lækkað. Launakostnaður hefur lækkað, stöðugildum fækkað, þar á meðal skrifstofustjórum án skrifstofu. Með sameiningunni varð ýmis stoðþjónusta hagkvæmari, svo sem símaþjónusta, móttaka, skjalavistun, rekstur bókasafns og mötuneytis þar sem það á við. Hagræðingin hefur þannig komið fram í fækkun starfsmanna sem sinna símsvörun, ritarastörfum, skjalavörslu og bókhaldi. Það hefur leitt til þess að hlutfall sérfræðinga hefur hækkað. Ekki þarf að halda úti jafnmörgum vefjum á netinu og áður. Þá má benda á ýmis samlegðaráhrif sem tengjast rekstrar- og starfsmannamálum, svo sem innkaup og afleysingar.
    Með stærri skipulagsheildum hefur skipulag ráðuneyta verið einfaldað og skrifstofum fækkað. Ráðuneytin geta nýtt betur sérhæfingu starfsmanna, styrkt faglegt starf og komið í veg fyrir óskýra verkaskiptingu eða tvíverknað. Stærri ráðuneyti hafa þannig burði til að takast á við fleiri verkefni sem tengjast málefnasviði þess.

     3.      Hvernig hefur fjöldi stöðugilda þróast á sama tíma?
    Samkvæmt launakerfi ríkisins voru 504 stöðugildi á aðalskrifstofum ráðuneytanna í maí 2009 en þau voru 477 í maí 2014. Í töflu 4 hér á eftir er yfirlit yfir fjölda stöðugilda sundurliðað eftir aðalskrifstofum ráðuneyta. Lítil breyting er á fjölda stöðugilda í ráðuneytunum á árunum 2009–2011. Frá maí 2011 til maí 2013 fjölgar stöðugildum í Stjórnarráðinu um 4,5% en svo fækkar þeim aftur og voru orðin 477 talsins í maí 2014. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar þá var á þessu tímabili þónokkuð um að verkefni og málaflokkar væru að færast á milli ráðuneyta sem kann að skýra fjölgun og fækkun milli ára. Óljóst er hverju fjölgunin árin 2012–2013 sætir en fækkunina 2014, um rúm 10%, má rekja bæði til 5% hagræðingarkröfu í síðustu fjárlögum á aðalskrifstofur ráðuneyta og til þeirra forsendna sem sameiningin skapaði fyrir fækkun starfa.

Tafla 4. Þróun fjölda stöðugilda* í Stjórnarráðinu
á tímabilinu 2009–2014.

Ráðuneyti maí 2009 maí 2010 maí 2011 maí 2012 maí 2013 maí 2014
Forsætisráðuneyti 27 24 27 27 29 30
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 63 54
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 33 33 34 32
     Iðnaðarráðuneyti 21 20 20 17
     Efnahags- og viðskiptaráðuneyti 20 23 24 24
Fjármála- og efnahagsráðuneyti 71 61 59 63 77 74
Innanríkisráðuneyti 64 68 74 66
     Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti 34 34
     Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti 32 32
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 70 70 70 77 71 68
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti 30 31 31 31 35 35
Utanríkisráðuneyti 87 95 89 95 97 73
Velferðarráðuneyti 89 84 84 77
     Heilbrigðisráðuneyti 46 50
     Félags- og tryggingamálaráðuneyti 33 37
Samtals 504 510 507 518 530 477
* Tekið er tillit til gjaldfallinna orlofsgreiðslna og biðlauna.
    
     4.      Hvað eru skrifstofustjórar án skrifstofu margir? Hvernig hefur fjöldi þeirra þróast frá árinu 2009?

    Í töflu 5 hér á eftir má sjá þróun skrifstofustjóra eftir flokkum á tímabilinu 2009–2014 samkvæmt launakerfi ríkisins. Skrifstofustjórar eru í eftirfarandi þremur flokkum:
    –        Skrifstofustjóri I er skrifstofustjóri sem ekki stýrir skrifstofu eða heyrir undir annan skrifstofustjóra eða sviðsstjóra.
    –        Skrifstofustjóri II er skrifstofustjóri sem stýrir skrifstofu og hefur mannaforráð.
    –        Skrifstofustjóri III er skrifstofustjóri sem stýrir skrifstofu og hefur mannaforráð og er jafnframt staðgengill ráðuneytisstjóra.
    Sjá má að veruleg fækkun hefur orðið meðal skrifstofustjóra án skrifstofu á tímabilinu. Einnig hefur skrifstofustjórum sem skilgreindir eru í flokk III fækkað samkvæmt upplýsingum frá kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Um er að ræða flokkun, sbr. launatöflu, sem gefur til kynna að í einhverjum ráðuneytum kunna að vera skrifstofustjórar sem gegna stöðu staðgengils ráðuneytisstjóra án þess að fá laun í samræmi við það. Mögulegt er að staðgenglar hafi verið skipaðir án þess að upplýsingar hafi borist inn í launakerfið.

Tafla 5. Fjöldi skrifstofustjóra í flokkum I–III á tímabilinu 2009–2014.

Dagsetning Skrifstofustjóri I Skrifstofustjóri II Skrifstofustjóri III Samtals
ágúst 2009* 22 39 13 74
maí 2010 17 41 9 68
maí 2011 11 39 9 59
maí 2012 7 39 8 54
maí 2013 4 42 6 52
maí 2014 4 43 5 52
* Tók gildi 1. ágúst 2009 samkvæmt úrskurði kjararáðs #2009.4.004 um laun og starfskjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands.