Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 583  —  178. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni
um störf bresks lögreglumanns á Íslandi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Var lögreglan eða önnur stjórnvöld með einhverjum hætti, á árunum 2003–2011, upplýst um að hingað kynni að koma eða hefði komið flugumaður, breskur lögreglumaður, að nafni Mark Kennedy, einnig þekktur sem Mark Stone eða Flash, sem væri eða hefði verið ætlað að afla upplýsinga um aðgerðir aðgerðasinna og/eða umhverfissamtaka? Ef svo er, hvernig og við hvaða tilefni gerðist það?
     2.      Hafði lögregla eða önnur stjórnvöld, á árunum 2005–2010, upplýsingar um að lögreglumaðurinn dveldi eða hefði dvalið á Íslandi?
     3.      Hafði lögreglan vitneskju sumarið 2005 um að flugumaður væri í hópi aðgerðasinna og/eða umhverfissamtaka sem þá störfuðu á Íslandi?
     4.      Fékk lögreglan upplýsingar um íslenska aðgerðasinna og aðgerðir sem aflað hafði verið af flugumanni árið 2005?
     5.      Starfaði breski lögreglumaðurinn á Íslandi sumarið 2005 með heimild lögreglunnar eða annarra stjórnvalda?
     6.      Var upplýsingaöflun lögreglumannsins sumarið 2005 lögmæt?


    Leitað var eftir umsögn ríkislögreglustjóra vegna fyrirspurnarinnar og var svar ríkislögreglustjóra svohljóðandi:
    „Í byrjun árs 2011 barst embættinu fyrirspurn frá Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra, um þetta efni og var ráðherra afhent samantekt um starfsaðferðir lögreglu, samstarf við erlendar löggæslustofnanir og meðferð trúnaðarupplýsinga sem tekin var saman af því tilefni. Innanríkisráðherra gerði samantektina opinbera 17. maí s.á. með fréttatilkynningu og yfirlýsingu ráðherra. Vegna erindis yðar dags. 1. þ.m. skal vísað til ofangreindrar samantektar og fréttatilkynningar.“
    Samantekt ríkislögreglustjóra um starfsaðferðir lögreglu, samstarf við erlendar löggæslustofnanir og meðferð trúnaðarupplýsinga er fylgiskjal með svari þessu. Þá fylgir einnig fréttatilkynning innanríkisráðuneytisins vegna birtingar samantektarinnar frá árinu 2011 og yfirlýsing þáverandi innanríkisráðherra. Framangreind samantekt ríkislögreglustjóra og yfirlýsing ráðherra vegna sama máls hafa legið opinberlega fyrir í tæp fjögur ár. Þannig lýtur fyrirspurnin að efni sem þegar er búið að kanna og svara og embætti ríkislögreglustjóra hefur ekki tök á að afla frekari upplýsinga en gert var árið 2011. Í svari við fyrirspurninni er því almennt vísað til þess sem fram kemur í framangreindri samantekt ríkislögreglustjóra til innanríkisráðherra á árinu 2011. Það skal áréttað að samantekt ríkislögreglustjóra snýr einungis að lögreglunni en ekki öðrum stjórnvöldum. Þá skal það tekið fram að í innanríkisráðuneytinu hafa ekki fundist nein gögn um að ráðuneytið hafi á umræddu tímabili verið upplýst um „að hingað kynni að koma eða hefði komið flugumaður, breskur lögreglumaður, að nafni Mark Kennedy, einnig þekktur sem Mark Stone eða Flash, sem væri eða hefði verið ætlað að afla upplýsinga um aðgerðir aðgerðasinna og/eða umhverfissamtaka“ eða að þessi tiltekni einstaklingur dveldi eða hefði dvalið hér á landi.
    Í umræddri samantekt embættis ríkislögreglustjóra er m.a. fjallað um mál Marks Kennedys sem fullyrt hefur verið að dvalist hafi hér á landi árið 2005 sem „flugumaður“ breskra lögregluyfirvalda (e. undercover Police Officer). Það skal tekið fram að samkvæmt upplýsingum embættisins var samantekt ríkislögreglustjóra frá 2011 unnin þannig að hún tók til lögreglunnar í heild. Eingöngu er eitt lögreglukerfi starfrækt í landinu og aflað var upplýsinga frá öðrum lögregluembættum.
    Vegna 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar er vakin athygli á því sem segir í samantekt ríkislögreglustjóra að í fréttum breska dagblaðsins Guardian hafi í janúarmánuði 2011 verið fullyrt að sá einstaklingur sem fyrirspurnin beinist að hefði dvalist hér á landi árið 2005 og tekið þátt í aðgerðum og undirbúningi vegna þeirra á vegum Saving Iceland. Við yfirferð gagna hjá embætti ríkislögreglustjóra hafi hins vegar ekki komið fram upplýsingar sem gera kleift að skera úr um hvort þessi einstaklingur hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar árið 2005.
    Hvað varðar 3. og 4. tölul. fyrirspurnarinnar þá kemur eftirfarandi fram í samantekt ríkislögreglustjóra:
    „Trúnaðarupplýsingar um fyrirhuguð mótmæli bárust lögreglu. Var þar bæði um að ræða upplýsingar frá innlendum og erlendum upplýsingagjöfum. Tekið skal fram að þær upplýsingar voru einungis nýttar til að skipuleggja viðbrögð lögreglu en engin not voru höfð af þeim í þágu rannsókna og málareksturs sem fylgdu í kjölfarið.“
    Í samantekt ríkislögreglustjóra er gerð grein fyrir efni fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 3/ 1999 m.a. um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa við rannsókn sakamála og hvaða greinarmunur er gerður á upplýsingagjafa og flugumanni.
    Hvað varðar 5. og 6. tölul. fyrirspurnarinnar er vísað til þess sem áður hefur komið fram að við yfirferð gagna hjá ríkislögreglustjóra og lögregluembættum hafa ekki komið fram upplýsingar sem gera kleift að skera úr um hvort sá einstaklingur sem fyrirspurnin beinist að hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar árið 2005. Þar af leiðandi eru engar forsendur til þess að leggja mat á það hvort umræddur lögreglumaður hafi starfað hér sem slíkur við upplýsingaöflun.
    Í skýrslu ríkislögreglustjóra kemur fram að reglur um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála hafi ekki verið settar á grundvelli heimildar í 89. gr. laga um meðferð sakamála. Þær reglur voru settar af innanríkisráðherra með reglugerð nr. 516/2011 í framhaldi af tillögu ríkislögreglustjóra þess efnis. Áður voru í gildi reglur og fyrirmæli ríkissaksóknara nr. 3/1999 settar í gildistíð eldri laga um meðferð opinberra mála og er efni þeirra reglna reifað ítarlega í samantekt ríkislögreglustjóra.


Fylgiskjal.

Innanríkisráðuneytið:

Skýrsla ríkislögreglustjóra um Mark Kennedy.
(17. maí 2011.)


    Í upphafi þessa árs voru í fjölmiðlum fréttir um að hér á landi hafi starfað á vegum bresku lögreglunnar flugumaður að nafni Mark Kennedy, sem gekk undir nafninu Mark Stone. Kennedy tók þátt í mótmælum grasrótarsamtaka í 22 Evrópulöndum, þar með talið við Kárahnjúka árið 2005, í þeim tilgangi að afla upplýsinga fyrir lögregluna.
    Af þessu tilefni spurðist ráðuneytið fyrir um það hjá embætti ríkislögreglustjóra hvaða upplýsingar embætti ríkislögreglustjóra hefði um málið.
    Embætti ríkislögreglustjóra afhenti ráðuneytinu samantekt þar sem m.a. er fjallað um mál Marks Kennedy. Vikið er sérstaklega að starfsaðferðum og viðbrögðum lögreglu vegna aðgerða samtakanna Saving Iceland. Í samantektinni er einnig fjallað um starfsaðferðir lögreglu, alþjóðlega lögreglusamvinnu, meðferð trúnaðarupplýsinga og samskipti við upplýsingaaðila þegar kemur að stærri lögregluaðgerðum.
    Skýrslan er nú birt hér í fullri lengd, auk yfirlýsingar innanríkisráðherra um málið sem fer hér á eftir.

Yfirlýsing frá innanríkisráðherra:
    Fyrir nokkru óskaði ég eftir því að fá upplýsingar um það hvort flugumaður á vegum bresku lögreglunnar, sem var hér á landi til að njósna um andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar árið 2005, hafi verið hér að tilhlutan eða með vitneskju íslensku lögreglunnar.
    Í skýrslu ríkislögreglustjóra til innanríkisráðherra af þessu tilefni er fjallað um þessar tilteknu mótmælaaðgerðir og aðkomu lögreglu að þeim en einnig um starfsaðferðir lögreglu, samstarf við erlendar löggæslustofnanir og meðferð trúnaðarupplýsinga.
    Í skýrslunni kemur fram að samstarf hefur verið á milli íslensku lögreglunnar og erlendra lögregluliða um miðlun upplýsinga varðandi aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka. Þannig hafi verið fengnir hingað til lands lögreglumenn til að upplýsa íslensku lögregluna um þekktar baráttuaðferðir og upplýsingum miðlað landa í millum um einstaklinga sem handteknir voru vegna mótmælanna.
    Athugun embættis ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós að engin gögn eða upplýsingar fyrirfinnist sem bendi til að vitneskja hafi verið um að Mark Kennedy hafi verið hér á landi sem flugumaður á vegum bresku lögreglunnar, þótt embættið leggi jafnframt áherslu á að samstarf við erlend lögreglulið byggist iðulega á miðlun upplýsinga sem viðtakandi er ekki upplýstur um hvaðan komi. Þess vegna sé vafasamt að fullyrða hvaðan upplýsingar séu runnar og kunni það að eiga við um mótmælin við Kárahnjúka.
    Orðrétt segir: „Við yfirferð gagna hjá embætti ríkislögrelgustjóra hafa ekki komið fram upplýsingar sem gera kleift að skera úr um hvort þessi flugumaður bresku lögreglunnar hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar árið 2005.“
    Fram hafa komið í fréttum alvarlegar ásakanir um vinnubrögð evrópskra lögregluyfirvalda sem eru forkastanleg, ef þær eru sannar, nefnilega að kallaðir séu til flugumenn sem láti ekki sitja við það eitt að njósna um fólk heldur æsi til uppþota og jafnvel ofbeldis til að sverta góðan málstað. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að breski lögreglumaðurinn Mark Kennedy hafi stofnað til kynferðislegs sambands við konur úr röðum mótmælenda, en slíkt er skýlaust brot á lögum og lögreglusamþykktum alls staðar í siðuðum þjóðfélögum.
    Upplýst hefur verið að konur sem orðið hafa fyrir barðinu á Mark Kernnedy, í Þýskalandi og hugsanlega annars staðar, hyggist leggja fram kæru á hendur honum. Fari svo þykir mér sýnt að öllum þeim upplýsingum, sem fram kunna að koma um óeðlileg afskipti þessa einstaklings af mótmælendum hér á landi, verði komið á framfæri við hlutaðeigandi yfirvöld.
    Við hljótum að gera þá afdráttarlausu kröfu til lögreglu sem við eigum í samstarfi við að hún hafi að leiðarljósi siðferðisgildi sem leyfa ekki svona framferði, auk þess sem mér finnst íhlutun yfirvalda með þessum hætti í mótmæli af pólitískum toga beinlínis vera tilræði við lýðræðið.

Samantekt um starfsaðferðir lögreglu, samstarf við erlendar
löggæslustofnanir og meðferð trúnaðarupplýsinga.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.