Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 723  —  360. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um umhverfismat vegna áforma um lagningu háspennulínu um Sprengisand.


     1.      Hver tók ákvörðun um að hefja mat á umhverfisáhrifum 220 kV háspennulínu milli Suður- og Norðurlands er liggi um Sprengisand?
    Í 8. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, kemur fram að eitt fyrirtæki skuli annast flutning raforku og kerfisstjórnun samkvæmt ákvæðum raforkulaga. Í 1. mgr. 9. gr. sömu laga kemur fram að flutningsfyrirtækið hafi eitt heimild til að reisa raflínur og annan búnað til flutnings raforku. Með lögum nr. 75/2004, um stofnun Landsnets hf., var félaginu falið hlutverk flutningsfyrirtækis samkvæmt ákvæðum III. kafla raforkulaga. Að því er varðar 1. tölul. fyrirspurnarinnar um áform um lagningu háspennulínu um Sprengisand er Landsnet hf. því framkvæmdaraðili í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.
    Með vísan til framangreinds óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Landsneti hf. vegna umræddrar fyrirspurnar. Neðangreind svör byggjast á þeim upplýsingum Landsnets sem bárust ráðuneytinu 1. desember 2014.
    Landsnet hefur kynnt drög að tillögu að matsáætlun fyrir umhverfismat Sprengisandslínu. Sú skylda hvílir á framkvæmdaraðila að gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi og kostur er, sbr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Með því að kynna drög að tillögu að matsáætlun er hafinn undirbúningur þess að hefja matsferilinn í samræmi við ákvæði laga.
    Samkvæmt 16. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, er framkvæmdaraðili ábyrgur fyrir mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Ákvörðun um að kynna drög að tillögu að matsáætlun fyrir 220 kV háspennulínu milli Suður- og Norðurlands um Sprengisand var tekin af Landsneti hf. sem er skilgreindur framkvæmdaraðili í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

     2.      Hver stendur straum af kostnaði við umhverfismatið og hversu mikill er áætlað að kostnaðurinn verði?
    Samkvæmt 16. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, er framkvæmdaraðili ábyrgur fyrir mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum og ber kostnað af slíku mati fyrirhugaðrar framkvæmdar sem og af auglýsingum og kynningu á henni. Sem framkvæmdaraðili stendur Landsnet straum af kostnaði við umhverfismatið.
    Kostnaður við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda ræðst mjög af eðli einstakra framkvæmda, umfangi athugasemda, krafna um rannsóknir og hversu langan tíma mat á umhverfisáhrifum tekur. Mat á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu er á frumstigi og á þessu stigi ómögulegt að áætla nákvæmlega kostnað við matið. Það er mat Landsnets að samkvæmt fenginni reynslu megi gera ráð fyrir að kostnaður við það geti verið á bilinu 100–150 millj. kr.

     3.      Hvað veldur því að af þremur leiðum, sem taldar eru koma til greina við uppbyggingu kerfis til flutnings raforku milli landshluta í drögum Landsnets að kerfisáætlun fyrir árin 2014–2023, eru einungis metin umhverfisáhrif Sprengisandslínu?
    Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum hvílir sú lagaskylda á framkvæmdaraðila að gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Í kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2014–2023 sem og umhverfisskýrslu, sem samþykktar hafa verið af stjórn Landsnets, eru lagðir fram þrír valkostir sem ætlað er að uppfylla flutningsþörf á komandi áratugum út frá niðurstöðum kerfisrannsókna. Valkostirnir samanstanda af framkvæmdum sem að nokkru leyti eru sameiginlegar. Þannig er Sprengisandslína hluti af tveimur þessara valkosta, sem og Blöndulína 3, en Kröflulína 3 er hluti af öllum valkostunum þremur. Þegar liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar í mati á umhverfisáhrifum Blöndulínu 3, auk þess sem hafinn hefur verið matsferill vegna Kröflulínu 3.

     4.      Hver tók ákvörðun um að taka Sprengisandslínu fram yfir hina valkostina, hvenær var það gert og á hvaða forsendum?

    Sprengisandslína er ekki sjálfstæður valkostur, heldur hluti af tveimur þeirra þriggja valkosta sem fjallað er um í kerfisáætlun Landsnets. Sprengisandslína hefur því ekki verið tekin fram yfir hina valkostina, heldur er verið að meta umhverfisáhrif hennar með sama hætti og annarra framkvæmda sem mynda þá valkosti sem lagðir eru fram í kerfisáætlun. Sumar þessara framkvæmda, svo sem Blöndulína 3 og Kröflulína 3, eru lengra komnar í mati á umhverfisáhrifum.