Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 773  —  394. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um stöðu friðlýsingar á svæðum og virkjunarkostum í verndarflokki.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er staðan á friðlýsingu svæða og virkjunarkosta í verndarflokki í samþykktri áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða? Óskað er eftir sundurgreindu yfirliti yfir stöðu friðlýsingar út frá hverjum möguleika fyrir sig. Einnig er óskað eftir tímaáætlun um friðlýsingu hvers svæðis fyrir sig.

    Í tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun), sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2013, eru tilgreind þau svæði sem flokkuð voru í verndarflokk í 2. áfanga áætlunarinnar. Samkvæmt lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, skulu stjórnvöld hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða í samræmi við lög um náttúruvernd, nr. 44/1999, og eftir atvikum lög um menningarminjar, nr. 80/2012. Í samræmi við ákvæði þetta hefur Umhverfisstofnun það hlutverk að vinna að friðlýsingu, sbr. 58. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, en þar segir m.a. að stofnunin annist undirbúning friðlýsingar, geri drög að friðlýsingarskilmálum og leggi fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.
    Umhverfisstofnun hefur hafið undirbúning að friðlýsingu landsvæða í samræmi við lög um náttúruvernd eins og lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun kveða á um. Þessi undirbúningsvinna er hins vegar mislangt á veg komin á vegum stofnunarinnar auk þess sem ákveðið hefur verið að kanna möguleika þess að hluti svæðanna geti fallið að Vatnajökulsþjóðgarði.
    Ekki liggur fyrir tímaáætlun fyrir hvert svæði fyrir sig. Rétt er að benda á að vinnan er umfangsmeiri við þetta verkefni en talið var í fyrstu þar sem ekki lágu fyrir við afgreiðslu þingsályktunarinnar í janúar 2013 nákvæmar landfræðilegar afmarkanir á þeim landsvæðum sem friðlýsa þarf til að ná fram verndarmarkmiðum.
    Eftirfarandi er yfirlit yfir stöðu vinnu við friðlýsingu svæða í verndarflokki rammaáætlunar. Ráðuneytið bendir jafnframt á að því barst fyrirspurn sama efnis á 143. löggjafarþingi (85. mál). Í svari við þeirri fyrirspurn koma fram ítarlegri upplýsingar um undirbúning þessa á hverjum stað og eru þær ekki endurteknar hér heldur vísast til þess svars varðandi þær upplýsingar.

Orkukostir í verndarflokki.
Norðausturland: Jökulsá á Fjöllum, 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun.
    Unnið er að því að móta hugmyndir um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs á þessu svæði þannig að þessi svæði gæti orðið hluti hans.

Suðurland: Djúpá, Fljótshverfi, 14 Djúpárvirkjun.
    Í skoðun er hvort og þá hvernig svæðið geti fallið að Vatnajökulsþjóðgarði.


Suðurland: Hólmsá, 20 Hólmsárvirkjun við Einhyrning.

    Umhverfisstofnun hefur átt samskipti við sveitarstjórn með að vinna að friðlýsingu svæðisins, semja friðlýsingarskilmála og ákveða mörk fyrirhugaðs verndarsvæðis. Enn liggur ekki fyrir afmörkun svæðisins.

Suðurland: Markarfljót, 22 Markarfljótsvirkjun A og 23 Markarfljótsvirkjun B.
    Umhverfisstofnun hefur átt samskipti við sveitarstjórn Rangárþings eystra og Rangárþings ytra sem fara með lögsögu á svæðinu. Enn liggur ekki fyrir hvernig friðlýsing verður útfærð.

Suðurland: Tungnaá, 24 Tungnaárlón og 25 Bjallavirkjun.
    Skoðað hefur verið hvort henti að þessi svæði geti fallið að Vatnajökulsþjóðgarði en ekki verið tekin um það ákvörðun. Jafnframt hafa átt sér stað samskipti við sveitarstjórnir og hagsmunaaðila vegna undirbúnings friðlýsingar en ekki liggur fyrir nein niðurstaða enn þá.

Suðurland: Þjórsá, 27 Norðlingaölduveita, 566–567,5 m yfir sjávarmáli.
    Umhverfisstofnun og níu sveitarfélög sem eiga lögsögu að svæðinu hafa unnið að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Friðlýsingartillagan felur í sér mikla stækkun á núverandi friðlandi sem tekur yfir landsvæði sunnan og austan Hofsjökuls, allan Hofsjökul og svæðið mun falla að friðlandinu Guðlaugstungum norðan megin. Innan friðlandsins verða m.a. Eyvafen og lítt röskuð víðerni vestan Þjórsár sem hafa hátt verndargildi, m.a. á alþjóðlega vísu, enda skilgreind Ramsar-svæði. Nákvæm afmörkun þess landsvæðis sem á að friðlýsa liggur ekki fyrir.

Suðurland: Jökulfall í Árnessýslu, 32 Gýgjarfossvirkjun. Hvítá í Árnessýslu, 33 Bláfellsvirkjun.
    Umhverfisstofnun hefur átt í samskiptum við sveitarfélögin Bláskógabyggð og Hrunamannahrepp varðandi undirbúning friðlýsingar á þessum orkukostum. Enn liggur ekki fyrir hvernig friðlýsing verður útfærð.

Reykjanesskagi: Brennisteinsfjallasvæðið, 68 Brennisteinsfjöll.
    Svæðið er innan tveggja svæða sem nú þegar hafa verið friðlýst, annars vegar Reykjanesfólkvangs og hins vegar friðlandsins í Herdísarvík. Í ljósi þess að virkjunarkosturinn er staðsettur innan marka tveggja friðlýstra svæða var ákveðið að vinna að friðlýsingunni innan hvors svæðis fyrir sig, þ.e. annars vegar innan Reykjanesfólkvangs og hins vegar innan friðlandsins í Herdísarvík. Umhverfisstofnun hefur unnið að breytingum á friðlýsingarskilmálum.

Reykjanesskagi: Hengilssvæðið, 74 Bitra og 77 Grændalur.
    Umhverfisstofnun hefur átt í samskiptum við landeigendur, sveitarfélög og hagsmunaaðila á svæðinu varðandi undirbúning að friðlýsingu. Enn liggur ekki fyrir hvernig hægt verður að ná fram markmiðum um vernd svæðisins.

Suðurland: Geysissvæðið, 78 Geysir.
    Ríkið á í samskiptum við aðra landeigendur á Geysissvæðinu um skipulag og framtíðarfyrirkomulag á svæðinu og koma að því bæði fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Suðurland: Kerlingarfjallasvæðið, 79 Hverabotn, 80 Neðri-Hveradalir, 81 Kisubotnar og 82 Þverfell.
    Umhverfisstofnun hefur átt í samskiptum við sveitarfélög sem eiga lögsögu á Kerlingarfjallasvæðinu, þ.e. Hrunamannahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Einnig hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið átt í samskiptum við hóp hagsmunaaðila á svæðinu, Vini Kerlingarfjalla, varðandi framtíðarfyrirkomulag á svæðinu. Stefnt er að því að tengja þessi svæði öll saman innan einnar friðlýsingar.

Norðausturland: Gjástykkissvæðið, 100 Gjástykki.
    Gjástykki er innan þriggja sveitarfélaga. Umhverfisstofnun hefur hafið undirbúning að friðlýsingu Gjástykkis með viðræðum við landeigendur og sveitarstjórnir. Strax í upphafi kom fram mikil andstaða og stofnuninni bárust formlegar bókanir frá sveitarstjórnum og Landeigendafélagi Reykjahlíðar um slit viðræðna. Málið er því í ákveðinni biðstöðu.