Ferill 393. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 818  —  393. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni
um rýmkun heimilda lífeyrissjóða til fjárfestinga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er afstaða ráðherra til hugmynda um að rýmka heimildir lífeyrissjóða þannig að þeir geti átt meira en 15% hlut í fjárfestingarfélagi, ef um er að ræða þjónustufyrirtæki sem sinnir fjárfestingum á starfssvæði viðkomandi lífeyrissjóðs, í því skyni að auka fjárfestingar á landsbyggðinni? Hefur ráðuneytið greint kosti og galla þess að rýmka heimildirnar?

    Það er afstaða ráðherra að við fjárfestingar í eignum skuli ávallt hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem kveðið er á um að stjórn lífeyrissjóðs skuli móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Annar tilgangur, svo sem sá að auka fjárfestingar á tilteknu svæði, geti ekki verið tilgangur rýmkunar fjárfestingarheimilda.
    Í þessu sambandi skal þess getið að nefnd var falið að endurskoða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna og er tillagna að vænta á næstu vikum. Ráðuneytinu er kunnugt um að almennt hámark eignar lífeyrissjóðs í einstöku fyrirtæki hefur komið til umræðu í nefndinni með rýmkun í huga.
    Ráðuneytið hefur ekki greint kosti og galla þess að rýmka heimildirnar á þann veg sem nefndur er í fyrirspurninni.