Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 819  —  437. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um sölu á eignarhlut Landsbanka Íslands í Borgun hf.


     1.      Hvaða skýringar hefur ráðherra fengið á því að 31,2% eignarhlutur Landsbanka Íslands í greiðslukortafyrirtækinu Borgun hf. var settur í lokað söluferli? Telur ráðherra söluferlið samræmast eigendastefnu ríkisins gagnvart Landsbankanum?
    Samkvæmt 4. gr. laga nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins, annast Bankasýslan samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á eignarhluti í og tengjast eigandahlutverki þess. Samskiptin fara fram í gegnum bankaráð og stjórnir fjármálafyrirtækja. Eigandastefna ríkisins um fjármálafyrirtæki frá 2009 byggist á því að Bankasýsla ríkisins sjái um samskipti ríkisins sem eiganda við fjármálafyrirtæki sem ríkið á hluti í og tengjast eigandahlutverki þess. Bankastjórnir, stjórnir og stjórnendur fjármálafyrirtækja eiga ekki bein samskipti við ráðuneytið eða ráðherra. Ráðherra hefur því ekki fengið aðrar skýringar en þær sem greint hefur verið frá á opinberum vettvangi vegna máls þessa.
    Í eigandastefnu eru ekki bein ákvæði um hvernig fjármálafyrirtæki skuli standa að sölu eigna. Í henni kemur hins vegar skýrt fram að eitt af höfuðmarkmiðum hennar sé að byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði. Þar kemur einnig fram að rekstur og stjórnun fjármálafyrirtækja þurfi að vera hafin yfir vafa og leiðbeiningar og reglur sem unnið er eftir að vera skýrar og aðgengilegar. Jafnframt er í eigandastefnunni mælt fyrir um að fjármálafyrirtæki skuli koma sér upp innri verkferlum um lykilþætti í starfsemi sinni, svo sem endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja. Auk framangreinds er ljóst að ríkið gerir sem eigandi kröfur um að fjármálafyrirtæki virði sjónarmið um jafnræði og að ákvarðanir verði að byggjast á skýrum málefnalegum forsendum. Út frá þessum sjónarmiðum ætti það að vera meginregla að sala á mikilvægum eignum fari fram í opnu söluferli. Í ákveðnum tilvikum geta verið uppi málefnalegar ástæður fyrir því að ekki sé farið að þessari meginreglu.
    Í c-lið 4. gr. laga um Bankasýslu ríkisins segir að það sé hlutverk Bankasýslu ríkisins að hafa eftirlit með framkvæmd eigandastefnu ríkisins eins og hún er á hverjum tíma. Leiki einhver vafi á því að umrædd sala hafi verið á málefnalegum forsendum er það hlutverk Bankasýslunnar að meta hvort salan samræmist þeim meginsjónarmiðum sem eigandastefnan mælir fyrir um. Þegar af þeirri ástæðu hefur ekki farið fram nein sjálfstæð athugun eða skoðun á umræddri sölu af hálfu ráðuneytisins eða mat verið lagt á hana og hvort málefnalegar ástæður hafi legið að baki ákvörðuninni.

     2.      Hefur ráðherra látið fara fram óháða athugun á því hvort þeir 2,2 milljarðar kr. sem Eignarhaldsfélag Borgunar greiddi fyrir hlutinn séu hæsta verð sem hægt hefði verið að fá fyrir hlutinn? Ef ekki, hyggst ráðherra þá láta fara fram slíka athugun?
    Athugun á því hvort hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn hefur ekki farið fram. Ef framkvæma á slíka athugun er það verkefni Bankasýslu ríkisins.

     3.      Eru uppi áform um að selja einnig 38% eignarhlut Landsbankans í greiðslukortafyrirtækinu Valitor? Ef svo er, er gert ráð fyrir að sá eignarhlutur verði einnig settur í lokað söluferli?

    Eftir að fyrirspurnin var lögð fram hefur Landsbankinn upplýst að hlutur hans í Valitor hafi verið seldur og var salan án auglýsingar. Sömu sjónarmið og reifuð voru í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar eiga við um þessa sölu.