Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 915  —  533. mál.




Fyrirspurn



til forseta Alþingis um þagnarskyldu starfsmanna Alþingis
um orð og athafnir þingmanna.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Er það svo að þagnarskylda og trúnaður starfsmanna Alþingis nái ekki til alls þess sem alþingismenn segja eða gera á sínum vinnustað og starfsmenn geta orðið vitni að, þ.m.t. í Skálanum og öðrum húsakynnum Alþingis, að því gefnu að ekki sé um neitt glæpsamlegt að ræða?
     2.      Hvenær brjóta starfsmenn Alþingis lög, reglur, vinnuskyldur eða starfssamning þegar þeir svara fyrirspurnum lögreglu um orð og athafnir þingmanna? En hvað með ef þeir neita að svara?


Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.

    Í minnisblaði frá lagaskrifstofu Alþingis til forsætisnefndar, Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011, dagsett 12. janúar 2015, kemur fram að starfsmenn Alþingis upplýstu lögreglu um orð og athafnir alþingismanna sem voru í húsakynnum Alþingis en „ekki verði séð að þagnarskylduákvæði starfsmannalaga taki til þess“ og að ekki sé „tilefni til frekari athugana af hálfu skrifstofu þingsins“. Því er mikilvægt að fá skýr svör frá forseta Alþingis um hve langt þagnarskylda og trúnaður starfsmanna Alþingis við þingmenn nær til að eyða óvissu um réttindi og skyldur.