Ferill 543. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 928  —  543. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um heimild skattrannsóknarstjóra til kaupa á erlendum gögnum um skattundanskot.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að tryggja að skattrannsóknarstjóri leggi mat á þau erlendu gögn um skattundanskot íslenskra borgara sem embættinu hafa verið boðin til kaups og annast kaup á þeim telji skattrannsóknarstjóri það rétt. Jafnframt lýsir Alþingi vilja sínum til að tryggja fjárheimildir til slíkra kaupa enda liggi fyrir greinargerð um kostnað og mögulegan ávinning af upplýsingunum.

Greinargerð.

    Á undanförnum árum hefur athygli almennings og stjórnvalda víða um lönd beinst að svonefndum skattaskjólum og því fé sem þar er falið og geymt í því skyni að koma því undan skattgreiðslum í þeim ríkjum þar sem umrædd auðlegð var mynduð. Þetta hefur það í för með sér að viðkomandi ríki verða af miklum skatttekjum en þeir sem auðinn eiga bæta sinn hlut á kostnað annarra með því að koma sér undan því að leggja sinn réttmæta skerf til sameiginlegra verkefna þess samfélags sem gerir þeim fært að mynda auð sinn.
    Með víðtækri og sívaxandi alþjóðavæðingu undanfarinna ára og áratuga hefur það færst mjög í vöxt að auðmenn feli fé sitt í skattaskjólum og njóti við það liðveislu fjármálafyrirtækja og ýmissa sérfræðinga. Jafnframt hefur það gerst að skattyfirvöld ýmissa ríkja og frjáls félagasamtök á borð við Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (International Consortium of Investigative Journalists) auk fjölmiðlafólks, samfélagsrýna, stjórnmálamanna og ýmissa aðila annarra hafa blásið til baráttu gegn stuldi á skattgreiðslum og varðveislu illa fengins fjár í skattaskjólum.
    Vorið 2014 bárust gögn til embættis skattrannsóknarstjóra erlendis frá sem bentu til þess að íslenskir borgarar væru meðal þeirra sem falið hafa fé í skattaskjólum. Um var að ræða hluta gagnasafns sem sagt var langtum stærra og þótti benda til þess að einhver hundruð Íslendinga ættu þarna hlut að máli. Sambærileg gögn um skattundanskot borgara annarra ríkja hafa komið fram með viðlíka hætti og í sumum tilfellum hafa skattyfirvöld tekið ákvörðun um að kaupa þau með það fyrir augum að upplýsa um skattsvik og annað misferli, svo sem þýsk skattyfirvöld árið 2008.
    Skattrannsóknarstjóri lét uppi það álit að umrædd gögn virtust til þess fallin að upplýsa um skattsvik en taldi embættið skorta lagaheimild og fjárheimild til að ganga til viðræðna við seljanda og vísaði því til fjármála- og efnahagsráðherra að taka slíka ákvörðun. Fjármála- og efnahagsráðuneytið greindi frá því í fréttatilkynningu 3. desember 2014 að ráðuneytið teldi skattrannsóknarstjóra hafa „sjálfstæða skyldu til að leggja mat á virði eða mikilvægi gagnanna fyrir þau verkefni sem embættið sinnir“, lagðist ekki beinlínis gegn kaupunum en setti þau skilyrði fyrir tryggingu fjárheimilda að ekki yrði samið við aðra aðila en þá sem til þess væru bærir og að samið yrði þannig við seljanda upplýsinganna að greiðsla fyrir þær réðist af hlutfalli innheimtra skattkrafna sem af þeim leiddi.
    Skattrannsóknarstjóri greindi fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá því 29. desember 2014 og aftur með bréfi 27. janúar 2015 að ekki væri unnt að uppfylla annað hinna tveggja skilyrða ráðuneytisins og nauðsynlegt væri að ráðuneytið skýrði skilning sinn á hinu áður en lengra yrði haldið. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur brugðist við þessu með því að vísa allri ábyrgð á hendur skattrannsóknarstjóra, talað um seinagang í málinu og talið upplýsingagjöf til ráðuneytisins ranga. *
    Viðbrögð og ummæli ráðherra vekja furðu. Í ljósi þess vandræðagangs sem upp er kominn er fyrirliggjandi þingmáli ætlað að stuðla að því að afstaða og vilji Alþingis í þessu brýna máli komi fram og skattrannsóknarstjóra verði heimilað að gera það sem gera þarf til að annast kaup á umræddum upplýsingum ef ástæða þykir til að láta verða af þeim
Neðanmálsgrein: 1
*     „Gögn þvælst hjá embættinu alltof lengi.“ RÚV, vefur: www.ruv.is/frett/gogn-thvaelst-hja-embaettinu-alltof-lengi (skoðað 10. febrúar 2015).