Ferill 517. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 991  —  517. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur
um Könberg-skýrsluna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hyggst ráðherra vinna með niðurstöður Könberg-skýrslunnar um framtíðarsýn og brýnustu verkefni norræns samstarfs á sviði heilbrigðismála?

    Stærsta samstarfsverkefni norrænu ráðherranna á sviði félags- og heilbrigðismála á árinu 2014 var að taka afstöðu til tillagna Bo Könberg, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Svía, um markvisst norrænt samstarf á sviði heilbrigðismála. Þar sem Ísland leiddi norræna samvinnu það ár bar heilbrigðisráðherra Íslands meginábyrgð á að hrinda tillögunum í framkvæmd.
    Skýrsla Bo Könberg, sem norrænu heilbrigðisráðherrarnir fólu honum árið 2013 að taka saman um framtíðarsýn og brýnustu verkefni norræns samstarfs á sviði heilbrigðismála, inniheldur 14 tillögur sem eiga að vera framkvæmanlegar á næstu 5 til 10 árum. Ráðherra tók við skýrslunni fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar um mitt ár 2014.
    Tillögurnar fjalla um átak gegn auknu sýklalyfjaónæmi, mjög sérhæfðar læknismeðferðir þvert á landamæri Norðurlanda, sjaldgæfa sjúkdóma, rannsóknir byggðar á gögnum úr sjúkraskrám og gagnagrunnum, lýðheilsu og heilsujöfnuð, möguleika sjúklinga á að fá heilbrigðisþjónustu í öðru landi, um rafrænar heilbrigðislausnir og nýtingu tækni til að bæta heilbrigðisþjónustu og vellíðan sjúklinga, geðlækningar, heilbrigðisviðbúnað, lyfjamál, öflugra lýðheilsusamstarf Norðurlanda, embættismannaskipti og samstarf sérfræðinga hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
    Á síðasta ári gegndi ráðherra ásamt félagsmálaráðherra formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um félags- og heilbrigðismál og var því í forsvari fyrir að leiða umræður og ákvarðanatöku um tillögur Bo Könberg. Aðeins nokkrum dögum eftir að Bo Könberg afhenti ráðherra skýrsluna voru heilbrigðisráðherrar allra Norðurlanda beðnir um að taka afstöðu til þess hvaða tillögur þeim þætti brýnast að hefja samstarf um þegar í stað. Niðurstaðan var sú að hrinda strax í framkvæmd þremur tillögum, þ.e. um myndun norræns samstarfsnets um sjaldgæfar sjúkdómsgreiningar, um aukið norrænt samstarf á sviði geðlækninga og um tilraunaverkefni um ný norræn embættismannaskipti. Þessi verkefni eru öll komin af stað og á ráðherra fulltrúa í hópum sem eru að vinna nánar að því hvernig styrkja má samstarf á þessum sviðum.
    Tillögur Bo Könberg um áherslur í samstarfi á sviði heilbrigðismála eru ekki allar nýjar af nálinni. Sem dæmi má nefna að í samstarfsverkefninu Sjálfbær norræn velferð, sem er mjög viðamikið, er unnið að ýmsum þáttum sem tengjast beint fjórum tillögum Bo Könberg, þ.e. tillögum um aukið samstarf um mjög sérhæfðar meðferðir á Norðurlöndum, um norræna netmiðstöð fyrir rannsóknir sem byggjast á gagnagrunnum, um norrænan vettvang um lýðheilsu til að draga úr heilsuójöfnuði og um öflugra samstarf um velferðartækni. Í því ljósi ákváðu ráðherrarnir á fundi sínum síðastliðið haust að bíða þar til því verkefni lyki í árslok 2015 og taka þá afstöðu til þess hvernig unnið verði áfram með fyrrgreindar tillögur. Á þeim ráðherrafundi var einnig ákveðið, ekki síst vegna ebólufaraldursins, að styrkja enn frekar samstarf varðandi heilbrigðisviðbúnað en það samstarf hefur verið öflugt allt frá árinu 2001. Varðandi tillögu um aukið samstarf varðandi ónæmi gegn sýklalyfjum var ákveðið á fundi norrænu ráðherranna að ræða við starfssystkin þeirra á sviði utanríkismála og þróunarsamvinnu.
    Tillaga um aukið samstarf um aðgerðir til að bæta lýðheilsu er til skoðunar. Í skýrslu Bo Könberg er mest áhersla lögð á verkefni tengd áfengi og tóbaki. Norðurlöndin eru þegar með öflugt samstarf á þeim sviðum og ýmsum öðrum sem tengjast lýðheilsu. Við undirbúning að lokun Norræna lýðheilsuháskólans (NHV) hafa ýmsar hugmyndir að auknu samstarfi á þessum vettvangi verið ræddar og er nú unnið að því að taka afstöðu til þeirra.
    Í tillögunni um hreyfanleika sjúklinga innan Norðurlanda er lagt til að á ráðherrafundi á þessu ári verði lagt mat á áhrif framkvæmdar Norðurlanda á tilskipun Evrópusambandsins um hreyfanleika sjúklinga á stöðu sjúklinganna sjálfra og jafnframt hvort ráðlegt sé að auka enn frekar rétt norrænna borgara til læknismeðferðar á Norðurlöndum. Þessi tillaga verður því að öllum líkindum til umræðu á fundi norrænu félags- og heilbrigðisráðherranna á þessu ári.
    Í tillögunni um aukið samstarf um rafrænar heilbrigðislausnir er áhersla lögð á að halda áfram samstarfi um rafræna lyfseðla og eru norrænu ráðherrarnir sammála því. Varðandi þann hluta tillögunnar að stofna norrænt bókasafn um heilbrigðismál á vefnum og þróa norræna leitarvél undir heitinu „Sjúklingurinn minn“ hefur ekki verið tekin afstaða.
    Varðandi tillögu um aukið norrænt samstarf um lyfjamál til að auka hagkvæmni og öryggi hefur ráðherra í kjölfar fundar og bréfaskipta við heilbrigðisráðherra Noregs sett af stað samstarf milli landanna um hvort möguleikar séu á sameiginlegum innkaupum lyfja og um notkun kostnaðarsamra og vandmeðfarinna lyfja.
    Tillagan um norrænt samstarf sérfræðinga sem starfa við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ekki verið útfærð nánar.
    Ráðherra mun í gegnum samstarf norrænu heilbrigðisráðherranna og í gegnum samstarfsvettvanginn í norrænu ráðherranefndinni um félags- og heilbrigðismál svo og í norrænu embættismannanefndinni um félags- og heilbrigðismál þar sem ráðherra á fulltrúa fylgja náið eftir hvernig markvisst norrænt samstarf á sviði heilbrigðismála þróast á næstu árum.
    Ráðherra er sannfærður um mikilvægi þess að þróa og efla norrænt samstarf um heilbrigðismál og telur margar tillögur Bo Könberg afar áhugaverðar. Norðurlandabúar standa frammi fyrir ýmsum svipuðum áskorunum í heilbrigðismálum varðandi heilsufar almennings en einnig framþróun heilbrigðiskerfa landanna. Norðurlandasamstarf um heilbrigðismál er þegar mikið og gott en það má efla og þróa til að auka skilvirkni og gæði. Það er til mikils að vinna með nánara samstarfi. Margt er líkt með menningu þjóðanna, löndin eru tiltölulega fámenn, sjúkdómsmynstur svipuð og jafnframt klínísk vinnubrögð. Í skýrslu Bo Könberg eru tillögur sem miða að auknum gæðum og betri nýtingu sameiginlegra úrræða og þróunarmöguleika. Á þeim grundvelli er hægt að ganga lengra í samstarfi um ýmis heilbrigðismál með það fyrir augum að bæta heilbrigðisþjónustu allra Norðurlandabúa.