Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 996  —  574. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995,
með síðari breytingum (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. skal Jöfnunarsjóður á árunum 2015, 2016 og 2017 greiða sveitarfélögum sérstakt framlag sem tekið skal af tekjum sjóðsins skv. a-lið 1. mgr. 8. gr. a áður en tekjunum er ráðstafað samkvæmt ákvæði 9. gr. Árlegt heildarframlag sjóðsins samkvæmt þessu skal á hverju þessara ára samsvara 2,12% af tekjum ríkissjóðs það ár af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010, með síðari breytingum.
    Til viðbótar við sérstakt framlag ársins 2015 skv. 1. mgr. skal bætast framlag Jöfnunarsjóðs sem samsvarar 1,06% af tekjum ríkissjóðs á árinu 2014 af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010, með síðari breytingum. Framlag samkvæmt þessari málsgrein skal greitt út til sveitarfélaga í einu lagi eigi síðar en 1. apríl 2015.
    Sérstök framlög skv. 1. mgr. skulu ár hvert skiptast milli sveitarfélaga í samræmi við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari næstliðins árs. Sérstakt viðbótarframlag skv. 2. mgr. skal skiptast milli sveitarfélaga í samræmi við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari ársins 2013.
    Ráðherra setur reglugerð um fyrirkomulag greiðslna Jöfnunarsjóðs á sérstökum framlögum samkvæmt þessu ákvæði og uppgjör hvers árs að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Hinn 16. maí 2014 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Samkvæmt lögunum er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að nýta viðbótariðgjald vegna launagreiðslna á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 til greiðslu inn á höfuðstól húsnæðislána eða til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laganna mun þetta hafa áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga.
    Samkvæmt a-lið 8. gr. a laga nr. 4/1995 er hluti tekna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga framlag úr ríkissjóði sem nemur 2,12% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Fjármála- og efnahagsráðuneytið áætlar að tekjur Jöfnunarsjóðs samkvæmt þessum lið muni aukast um 2,3 milljarða kr. frá miðju ári 2014 til og með ársins 2017 vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki (svonefnds bankaskatts). Þessi tekjuaukning Jöfnunarsjóðs vegur því að hluta á móti áhrifum laga nr. 40/2014. Yrði þessari tekjuaukningu Jöfnunarsjóðs dreift til sveitarfélaganna sem jöfnunarframlagi á grundvelli 12. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga mundi hún hins vegar ekki skiptast í réttu hlutfalli við áhrifin á einstök sveitarfélög. Þannig fengju Reykjavíkurborg og fleiri fjölmenn sveitarfélög nánast ekkert í sinn hlut en sem dæmi má nefna að hlutdeild borgarinnar í útsvarstekjum á landsvísu er um það bil 38%.
    Frumvarpið felur í sér að framangreindum tekjuauka Jöfnunarsjóðs vegna álagningar sérstaks gjalds á bankastarfsemi frá miðju ári 2014 til ársins 2017 verður deilt út til sveitarfélaga á árunum 2015–2017 í hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari næstliðins árs. Sambærilegt ákvæði var í frumvarpi innanríkisráðherra um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, sem varð að lögum í desember sl., en var þá fellt brott að tillögu umhverfis- og samgöngunefndar. Taldi nefndin að ákvæðið þarfnaðist nánari skoðunar í ljósi athugasemda sem henni höfðu borist og þess skamma fyrirvara sem hún hafði til meðferðar málsins. Ráðuneytið hefur nú endurskoðað ákvæðið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og er það endurflutt með þeirri breytingu helstri að nú er við skiptingu framlagsins horft til hlutdeildar sveitarfélaga í álögðu heildarútsvari í stað hlutdeildar þeirra í heildarútsvarsstofni. Hefur þannig ákvörðun sveitarstjórnar um álagningarhlutfall útsvars áhrif á hlutdeild viðkomandi sveitarfélags í framlaginu.
    Þar sem úthlutun sérstaks framlags Jöfnunarsjóðs vegna tímabilsins frá miðju ári 2014 til áramótanna 2014–2015 fer nú ekki fram fyrr en á árinu 2015 er í 2. mgr. 1. gr. kveðið sérstaklega á um hvernig staðið skuli að úthlutun þess.
    Frumvarpið er samið í innanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá hefur farið fram sérstakt mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga í samræmi við ákvæði 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði).

    Í frumvarpi þessu er lagt til bráðabirgðaákvæði um greiðslu sérstaks framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til mildunar á tekjutapi sveitarfélaga vegna ákvæða laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Gert er ráð fyrir að sú lagasetning muni fela í sér tímabundna lækkun á útsvarstekjum sveitarfélaga vegna meiri sparnaðar í formi séreignar og skattfrelsis iðgjalda. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að frá árinu 2009 hafa útsvarstekjur sveitarfélaga vegna sérstakrar úttektar séreignarsparnaðar aukist um samtals 13 mia. kr. miðað við meðalútsvar. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er hluti tekna Jöfnunarsjóðs framlag úr ríkissjóði sem nemur 2,12% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að tekjur Jöfnunarsjóðs muni aukast um samtals 2,3 mia. kr. á tímabilinu 2014–2017 vegna álagningar sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki (svonefnds bankaskatts). Þar kemur jafnframt fram að samkvæmt gildandi lögum sé þessari tekjuaukningu ekki skipt í réttu hlutfalli við fyrrgreint útsvarstekjutap einstakra sveitarfélaga. Til að mæta þessu er í frumvarpinu sem fyrr segir kveðið á um sérstakt framlag sem verði deilt út á grundvelli hlutdeildar sveitarfélaganna í álögðu heildarútsvari næstliðins árs. Þetta ákvæði frumvarpsins mun því ekki hafa áhrif á útgjöld eða tekjur sveitarfélaga í heild heldur hefur það eingöngu áhrif á skiptingu þeirra auknu tekna sem renna í Jöfnunarsjóð vegna bankaskattsins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa fjárhagsleg áhrif fyrir ríkissjóð.