Ferill 646. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1112  —  646. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um umhverfisvitundarátakið Hreint land – fagurt land.


Frá umhverfis- og samgöngunefnd.



    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að undirbúa og hefja umhverfisvitundarátakið Hreint land – fagurt land þar sem leitast verði við að efla umhverfisvitund ferðamanna og bæta umgengni um náttúru landsins. Við undirbúning átaksins leiti ráðherra samráðs við ferðamálayfirvöld og náttúruverndar- og útivistarsamtök. Átakið hefjist sem fyrst og standi út árið 2017.

Greinargerð.

    Íslensk náttúra er einstök og stolt landsmanna. Umgengni um náttúruna skiptir miklu máli og með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að undirbúa og hefja umhverfisvitundarátak með kjörorðinu Hreint land – fagurt land. Við undirbúning verkefnisins er rétt að ráðherra leiti samráðs við ferðamálayfirvöld og hagsmunaaðila, t.d. Ferðamálastofu og Samtök ferðaþjónustunnar, sem og náttúruverndarsamtök líkt og Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands og útivistarsamtök líkt og Útivist og Ferðafélag Íslands. Tilgangur átaksins er að bæta umhverfisvitund almennings og ferðamanna, innlendra sem erlendra, og bæta þannig umgengni um náttúru landsins. Lagt er til að átakið með stuðningi ríkisins eins og lagt er til hér standi árin 2015, 2016 og 2017 en að þeim tíma liðnum er rétt að árangur átaksins verði metinn og skoðað hvort frjáls félagasamtök muni halda átakinu áfram.
    Undanfarna áratugi hafa frjáls félagasamtök með stuðningi ríkisstofnana staðið fyrir herferðum fyrir bættri umgengni í náttúru landsins. Sumarið 1969 tóku nokkur félagasamtök sig saman um herferð með það að markmiði að bæta sambúð Íslendinga við landið. Þetta voru Hið íslenska náttúrufræðifélag, Ferðafélag Íslands, Æskulýðssamband Íslands og Félag íslenskra bifreiðaeigenda auk Náttúruverndarráðs Íslands og Ferðamálaráðs. Töldu menn mjög skorta á það sem nefna mætti umgengnismenningu hér á landi. Rusl og annar óþrifnaður við mannvirki í bæjum og til sveita, meðfram þjóðvegum og á áningarstöðum ferðamanna ásamt náttúruspjöllum voru dapur vitnisburður um umhverfisvitund landsmanna. Herferðin sem farið var í hlaut nafnið Hreint land – fagurt land. Forsvarsmenn herferðarinnar lögðu áherslu á nokkur atriði, m.a. að sveitarfélögin mundu herða á hreinsunar- og fegrunarstarfi og yrðu einstaklingum fyrirmynd um góða umgengni á eigin svæði, ökumenn og farþegar bifreiða voru hvattir til að henda ekki rusli úr bílum á víðavangi, ökumenn bifreiða og annarra vélknúinna ökutækja voru hvattir til að valda ekki spjöllum utan vega eins og mörg slæm dæmi eru um á síðustu árum, ferðafólk var hvatt til að ganga frá áningarstöðum í náttúrunni eins og það gæti hugsað sér að koma að þeim aftur, skipulögð voru hreinsunarátök og uppgræðsluherferð með þátttöku félagsmanna fyrrgreindra félaga og kaupmenn um land allt voru hvattir til að sjá fyrir nægum sorptunnum fyrir rusl við verslanir sínar og styðja þannig við þrifalegt umhverfi. Landvernd, sem var stofnuð 1969, gerði kjörorðið Hreint land – fagurt land að sínu og gaf út margvísleg veggspjöld, bílamerki og annað sem hvatti til góðrar umgengni um landið. Þá birtu fjölmiðlar einnig hvatningarskilaboð til landsmanna félaginu að kostnaðarlausu. Þessi herferð Landverndar hélt áfram allan áttunda áratuginn með góðum árangri og þá hefur Landvernd haldið uppi kjörorðinu alla tíð síðan og átakið verið endurvakið stuttlega með reglulegu millibili.
    Að mati nefndarinnar er ríkt tilefni til að horfa til baka til árangurs framangreinds átaks síðustu áratugi og horfa til þess að hefja svipað átak sem taki til umgengni um náttúruna í víðum skilningi. Náðst hefur góður árangur í bættri umgengni varðandi rusl og sóðaskap víðast hvar og hefur orðið vitundarvakning meðal þjóðarinnar um þau mál. Landið er hins vegar núna á ákveðnum tímamótum þar sem orðið hefur mikil sprenging í fjölda erlendra ferðamanna hér á landi sem og mikil aukning í innlendri ferðamennsku landsmanna sem fara nú meira en nokkru sinni fyrr í gönguferðir, hjólaferðir og jeppaferðir um náttúru landsins. Núna er því tími til að huga gaumgæfilega að því hvernig ferðamenn umgangast landið og hvernig hægt er að bæta umgengnina til verndar náttúru landsins.
    Mikilvægt er að allir aðilar sem koma að nýtingu náttúrunnar, náttúruverndarmálum eða hafa með einum eða öðrum hætti mikil áhrif á gæði umhverfis síns taki höndum saman um að ganga vel um landið og halda því hreinu. Íslensk náttúra er sameign allrar þjóðarinnar og samfélagsvitund hennar er í stórum dráttum samofin náttúrunni. Til að vernda náttúruna nú er ekki nægilegt að gæta þess eingöngu að rusli og drasli sé ekki fleygt á víðavangi. Öll umgengni um náttúruna skiptir í þessu sambandi miklu máli. Umhverfisvitund almennings og erlendra ferðamanna þarf að ná til allrar umgengni um náttúruna, allt frá akstri vélknúinna ökutækja til reiðhjóla, gangandi og ríðandi. Hver og einn þarf að bera virðingu fyrir náttúrunni og forðast að spilla henni með öllu mögulegu móti.
    Það átak sem lagt er til að ráðist verði í með þessari þingsályktunartillögu þarf að ná til heimamanna jafnt sem erlendra ferðamanna. Á síðustu missirum hafa komið upp mörg dæmi þess að erlendir ferðamenn hafi ekki áttað sig á því hversu viðkvæm íslensk náttúra er og að þeir hafi ekki verið nægilega vel upplýstir um þær reglur sem gilda um umgengni í íslenskri náttúru. Þannig hafa verið mörg dæmi um utanvegaakstur erlendra ferðamanna sem og að keyrðir hafi verið slóðar sem búið hefur verið að loka. Leita þarf leiða til að efla fræðslu til erlendra ferðamanna um mikilvægi þess að ganga vel um náttúruna og einnig hvernig þeir eigi að bera sig að í íslenskri náttúru. Í því skyni þarf að útbúa fræðsluefni á mörgum tungumálum og dreifa til ferðamanna og nota má samfélagsmiðla og netið til að koma skilaboðum á framfæri. Einnig þarf að koma skilaboðunum á framfæri við erlenda ferðamenn á þeim stöðum þar sem þeir koma inn í landið sem eru aðallega Keflavíkurflugvöllur, Seyðisfjörður fyrir þá sem koma með Norrænu og allar aðrar hafnir landsins sem taka við skemmtiferðaskipum. Á þessum stöðum þarf að dreifa upplýsingum og ítarefni um íslenska náttúru, hvað má gera í náttúrunni og hvað ekki, veita upplýsingar um sérstaka viðkvæma náttúru og um það hvar ferðamenn geti aflað sér greinargóðra upplýsinga um náttúru þeirra svæða sem þeir hyggjast ferðast til hér á landi. Ljóst er að það er viðvarandi verkefni að efla umhverfisvitund almennings og ferðamanna svo umgengni um náttúru landsins megi verða betri og í því skyni má horfa til þess að innleiða hugarfar sem snýr að sjálfbærni og ábyrgð á náttúru og menningarminjum landsins svo að núverandi og komandi kynslóðir geti notið góðs af.