Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1151  —  680. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fjarnám á háskólastigi.


Flm.: Líneik Anna Sævarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um eflingu fjarnáms á háskólastigi sem miði að því að auka gæði, fjölga námsleiðum, styrkja rétt nemenda og skilgreina samfélagshlutverk háskóla á þessu sviði.
    Starfshópurinn skili niðurstöðu til ráðherra fyrir árslok 2015. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum hópsins.


Greinargerð.

    Nú eru um og yfir 20 ár síðan fjarnám varð reglulegur hluti af námsframboði íslenskra háskóla. Mikil þróun varð á þessu sviði í kringum aldamótin en á síðustu árum hefur lítil aukning orðið í framboði á námsleiðum þrátt fyrir öra þróun í kennslufræði og tækni.
    Fjarnám er mikilvægur liður í að tryggja einstaklingum jöfn tækifæri til náms, atvinnulífinu aðgang að menntuðum starfsmönnum og samfélögum jafna aðstöðu til þróunar. Fjarnám gerir einstaklingum kleift að stunda háskólanám sem annars gætu það ekki vegna búsetu, starfs eða annarra aðstæðna. Í fjarnámi felast tækifæri fyrir háskólana þar sem þeir geta átt aðgang að nemendum og kennurum utan háskólanna. Fjölbreytt fjarnám eykur einnig möguleika fyrir samfélög til að byggja upp þekkingu og þjónustu sem skortir, sem aftur getur aukið lífsgæði og fjölbreytileika atvinnulífsins. Á sama hátt geta skólar sem bjóða upp á fjarnám gripið tækifæri og brugðist við sérstakri þörf á vinnumarkaði eða tilteknu landsvæði.
    Á síðustu árum hafa rutt sér til rúms náms og kennsluaðferðir sem nýtast vel bæði í hefðbundnu háskólanámi og fjarnámi, svo sem spegluð kennsla (e. flipped classrom) og netfyrirlestrar sambærilegir við „TED“ (Technology, Entertainment, Design), en þessar aðferðir eru í hraðri útbreiðslu. Þá standa til boða gæðafyrirlestrar á netinu frá mörgum af fremstu háskólum í heiminum.

Ávinningur fyrir samfélagið.
    Öflugra fjarnám mun auðvelda íslenskum háskólum að koma til móts við kröfur atvinnulífsins og íbúa landsbyggðanna. Á það jafnt við um grunnmenntun og framhaldsmenntun á háskólastigi.
    Þá getur aukið framboð fjarnáms gegnt veigamikla hlutverki í byggðaþróun, með almennri hækkun á menntunarstigi og möguleikum til að bregðast við skorti á menntun á ákveðnum sviðum á tilteknum landsvæðum.
    Aukið framboð fjarnáms getur bætt samkeppnisstöðu landsins með auknum möguleikum til þess að nýta tækifæri sem er að finna á landsbyggðinni og tækifærum til að miðla sérhæfðri þekkingu Íslendinga til alþjóðasamfélagsins, svo sem á sviði sjávarútvegs, siglinga og nýtingar jarðhita.

Ávinningur fyrir háskólana.
    Bilið á milli fjarnáms og staðbundins náms er sífellt að styttast og má því leiða að því líkur að framboð á góðu fjarnámi sé liður í að bjóða upp á gæðanám. Slíkt nám byggist á bestu mögulegu tækni og þjálfar nemendur í vinnuaðferðum framtíðarinnar. Því má telja eðlilegt að fjarnám sé hluti af kjarnastarfsemi háskóla. Með þeim hætti má nýta þekkingu hvar sem hún er í heiminum og ná til námsmanna víða um heim.

Verkefnið.
    Taka þarf afstöðu til hvort öllum íslenskum háskólum verði skylt að bjóða upp á fjarnám, skólunum verði gert að starfa saman eða fjarnám verði sérstaklega falið einum skóla umfram aðra. Benda má á að ekki væri óeðlilegt að skólarnir hefðu mismunandi hlutverk á þessu sviði í samræmi við áherslur og sérhæfingu þeirra á milli.
    Einnig þarf að taka afstöðu til þess hvort að æskilegt sé að samræma námsframboð þannig að nemendur geti t.d. tekið greinar frá mismunandi skólum og sett saman í námsbraut. Mikilvægt er að móta samstarfsvettvang háskóla og símenntunarmiðstöðva. Ítrekað hafa komið upp hugmyndir um stofnun netháskóla sem yrði regnhlíf fyrir allt fjarnám á háskólastigi í landinu og samstarfsvettvangur. Sú hugmynd er enn verðug skoðunar, ekki síst í ljósi framfara sem gera fjarnám sífellt aðgengilegra.
    Mikilvægt er að ljóst sé hvort einstakir áfangar eða námsbrautir eru í boði í fjarnámi og einstaklingar þurfi ekki að semja um slíkt við einstakar deildir eða kennara einstakra áfanga. Stefna stjórnvalda og einstakra háskóla þarf að kveða á um hvaða nám er í boði sem fjarnám og tryggt þarf að vera að nemendur geti lokið námsgráðum í fjarnámi.
    Í vinnunni er mikilvægt að skoða þróun í kennslufræði og tækni sem nýtist í fjarnámi. Breytingar síðustu ára hafa leitt til þess að í sumum greinum er óþarft að gera greinarmun á vinnuaðferðum í fjarnámi og staðnámi. Þannig mætti skoða á hvaða fræðasviðum væri mögulegt að bjóða nám með hámarkssveigjanleika sem uppfyllir allar gæðakröfur.
    Munur á kostnaði við fjarnám og staðnám ætti sífellt að fara minnkandi en þó er í vinnu af þessu tagi nauðsynlegt að leggja mat á kostnað við fjarnám.
    Jafnframt er mikilvægt að horfa til reynslu og aðferða annarra þjóða við uppbyggingu fjarnáms og má þar m.a. benda á Kanada og Noreg.

Hverjir þurfa að koma að vinnunni.
    Mikilvægt er að auk fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins komi að vinnu starfshópsins fulltrúar allra háskólanna, sérfræðingar í kennslufræðum og fulltrúar símenntunarmiðstöðva sem búa yfir mikilli reynslu af þjónustu við háskólanema í fjarnámi.