Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1155  —  683. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um fríverslun við Samtök ríkja í Suðaustur-Asíu, ASEAN.


Flm.: Össur Skarphéðinsson, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hjörvar,
Valgerður Bjarnadóttir, Kristján L. Möller.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir að Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, hefji viðræður um fríverslun við Samtök ríkja í Suðaustur-Asíu, ASEAN.

Greinargerð.

    Tillagan felur ríkisstjórn Íslands að taka frumkvæði að því að Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, leiti samninga um fríverslun við Samtök ríkja í Suðaustur-Asíu, ASEAN („Association of South-East Asian Nations“), sem ríkjaheildar í stað tvíhliða samninga við hvert einstakt ríki innan hennar. Að sönnu felur það í sér stefnubreytingu en að henni hníga sterk rök. ASEAN hefur sem ríkjabandalag opnað á slíka samninga á síðustu árum, og þegar lokið sex. Á síðastliðnu ári lýsti Evrópusambandið jafnframt endurnýjuðum áhuga á að taka upp viðræður við ASEAN. Hlutverk EFTA er ekki síst að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja í löndum sínum gagnvart keppinautum í Evrópusambandinu og því telja flutningsmenn fyllilega tímabært að EFTA leggi nú drög að viðræðum við ASEAN sem heild.
    Með tillögunni er stefnt að því að víkka gátt Íslands inn á markaði Asíu. Það er rökrétt framhald af fyrri samningum um fríverslun við rísandi markaðssvæði álfunnar. Þróunarbanki Asíu spáir fjórföldun á framleiðslu ASEAN-ríkjanna á næstu 20 árum. Hann telur að ASEAN ásamt Kína og Indlandi verði helstu aflvélar hagvaxtar í heiminum á komandi öld. Ísland lauk á síðasta kjörtímabili sögulegum tvíhliða fríverslunarsamningi við Kína, auk samnings um fríverslun við Hong Kong (Kína). Á vettvangi EFTA fara nú fram viðræður um fríverslun við Indland. Með samningum við ASEAN væri því stigið mikilvægt skref að því að tryggja íslenskum fyrirtækjum frjálsa verslun við öll helstu vaxtarsvæði Asíu. Þarf ekki að orðlengja um hversu miklir hagsmunir fælust í því til framtíðar fyrir íslenskan útflutning.

Um ASEAN.
    ASEAN er pólitískt og efnahagslegt bandalag tíu ríkja. Það var upphaflega stofnað árið 1967 af fimm öflugustu ríkjum svæðisins, Indónesíu, Filippseyjum, Taílandi, Singapúr og Malasíu. Brúnei fékk aðild þegar landið öðlaðist sjálfstæði 1984. Á árunum 1995–97 gengu Víetnam, Laos og Mjanmar til liðs við bandalagið. Viðsjár vegna átaka innan landamæra Kambódíu leiddu til að ríkinu var ekki heimiluð innganga fyrr en árið 1999.
    Samtökin voru stofnuð á grundvelli yfirlýsingar sem kennd er við Bangkok, en í henni kemur fram að tilgangur samtakanna sé að styrkja efnahagslega þróun ríkjanna með því að stuðla að friði, eyða gagnkvæmri tortryggni milli þjóðanna og auðvelda þeim að byggja lífvænleg samfélög. Mörg þessara ríkja höfðu átt í innbyrðis átökum, jafnvel styrjöldum, borgarastríð geisað, efnahagur sumra var í rúst og Mjanmar var fram á síðustu ár undir harðri herforingjastjórn. Ríkin líta á ASEAN sem samstarfsvettvang til að styrkja uppbyggingu eigin samfélaga.
    Sérstök fríverslunarsamtök ASEAN-ríkjanna voru sett á laggir árið 1992 í því augnamiði að draga úr, og eyða að lokum, öllum tollahindrunum í verslun milli ríkjanna. Undantekningar frá fríverslun varða einkum viðkvæma landbúnaðarframleiðslu, svo sem á hrísgrjónum.
    ASEAN hefur um árabil undirbúið frekari samvinnu með stofnun efnahagsbandalags, AEC („Asean Economic Community“). Bandalagið stefnir að sameiginlegum innri markaði með frjálsu flæði vöru, þjónustu, fjármagns og þjálfaðs vinnuafls fyrir árið 2020. Með honum á að efla samkeppnishæfni, auka verslun milli ríkjanna, laða alþjóðlegt fjármagn til Suðaustur-Asíu og efla efnahagslega velsæld íbúanna. Ólíkt Evrópusambandinu er ekki stefnt að samþættingu efnahagskerfa ríkjanna með sameiginlegu regluverki og upptöku sameiginlegrar myntar.
    ASEAN hefur ekki sameiginlega tollastefnu gagnvart þriðju ríkjum en samtökin gera fríverslunarsamninga og hafa lokið sex slíkum, við Ástralíu, Nýja-Sjáland, Kína, Indland, Japan og Suður-Kóreu. Sérhvert aðildarríki þarf að staðfesta samningana svipað og þegar EFTA gerir samninga fyrir aðildarríki sín. EFTA hefur áður gert fríverslunarsamninga við ríkjahópa, síðast við aðildarríki Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa árið 2009.

Mikilvægt vaxtarsvæði.
    Spár benda til að á næstu áratugum verði mannfjölgun í heiminum hvað örust í löndum ASEAN. Þrjú þeirra, Indónesía, Víetnam og Filippseyjar, eru meðal tíu stærstu þjóða Asíu. Samanlögð landsframleiðsla ríkjanna jafngildir því að ASEAN væri áttunda mesta efnahagsveldi heims. Allar eru þjóðirnar mjög ungar, búa yfir margvíslegum auðlindum og eru í örri sókn til aukinna mennta. Fyrir bankakreppuna árið 2007 var hagvöxtur í sex öflugustu ríkjum ASEAN að meðaltali 7,3%. Hann dvínaði verulega yfir kreppuna en er nú aftur kominn í 6%. Í mörgum þessara landa er vinnuafl mjög ódýrt, jafnvel miðað við lönd eins og Kína. Fyrir vikið er ýmiss konar framleiðsla að flytjast frá Kína til ASEAN-ríkjanna. Spenna við Kínahaf veldur því enn fremur að öflugt efnahagsveldi eins og Japan er að færa fjárfestingar frá Kína til ASEAN-svæðisins.
    Uppbygging innviða, sem víða er mjög áfátt, mun ýta undir aukna atvinnuþátttöku og hagvöxt og þar með aukinn kaupmátt í framtíðinni. Breytingar á stjórnarfari ýmissa landa ASEAN, svo sem Kambódíu og Laos, en þó ekki síst Mjanmar, hafa leitt til hraðrar opnunar gagnvart alþjóðlegum fjárfestingum. Öll eru ríkin á lýðræðisbraut, mishratt og með uppstyttum, og enn skortir víða að reglum réttarríkis sé fylgt.
    Þróunarbanki Asíu telur eins og framar greinir að ASEAN-ríkin verði á þessari öld, ásamt Kína og Indlandi, helstu kraftmaskínur hagvaxtar í heiminum og á næstu 20 árum telur hann að örbirgð (e. extreme poverty) verði fast að útrýmt og velsæld íbúa ríkjanna muni í efnahagslegu tilliti breytast, svo vísað sé til orða bankans, með „dramatískum hætti“. Kaupmáttur mun því aukast hröðum skrefum.

Íslenskir hagsmunir.
    Viðskipti milli Íslands og ASEAN-ríkjanna fara vaxandi en eru að sönnu ekki mikil í dag. Svæðið gæti í framtíðinni þróast í ágætan markað fyrir ýmsar íslenskar vörur ef akurinn er rétt plægður, og snemma. Sjávarfang er hefðbundin neysluvara og öflugt markaðsstarf og þróun heppilegra flutningaleiða gæti stutt við útflutning á sjávarafurðum héðan. Góð tækifæri ættu jafnframt að vera til að markaðssetja íslenskt lambakjöt náist samningar um fríverslun. Reynslan sýnir að lambakjöt frá Íslandi er samkeppnishæft í Asíu um verð, og matarhefðir og fyrirsjáanleg hækkun kaupmáttar ættu að tryggja því góðar viðtökur í löndum ASEAN. Fríverslun við rísandi veldi Asíu, Kína, Indlands og nú ASEAN gæti því verið einstakt tækifæri fyrir íslenska sauðfjárrækt – svo fremi sem menn hafi dug og getu til að nýta það.
    Mörg ríkjanna stunda sjávarútveg og því eru möguleikar á að vinna öflugan markað fyrir sérhæfða íslenska tækni á því sviði. Innan samtakanna er einnig að finna ríki með ónýtt afl á sviði jarðhita, svo sem Filippseyjar og Indónesíu sem líklega býr yfir mesta jarðhitaforða veraldar. Háhita í nokkrum mæli er einnig að finna í Víetnam og Mjanmar, og í flestum löndunum má finna lághitasvæði. Í öllum löndunum sem búa yfir háhita eru íslensk fyrirtæki á vettvangi í mismiklum mæli.
    Í öllum samningum Íslands um fríverslun er jafnan lögð höfuðáhersla á fullt tollfrelsi sjávarafurða, auk tollfrelsis varnings og þjónustu. Við samningsgerðina er brýnt að af hálfu EFTA verði lögð rík áhersla á grundvallargildi um réttindi fólks, umhverfis og náttúru.

Nálgun EFTA.
    EFTA hefur til þessa unnið að því að gera tvíhliða samninga við einstök ríki ASEAN. Ástæðan var ójöfn þróun á svæðinu, skortur á lýðræði í mörgum ríkjanna, spilling, neikvæð efnahagsþróun, og ríki einsog Mjanmar og Kambódía voru nánast lokuð fram á síðustu ár. Eini samningurinn sem nú er lokið var gerður við Singapúr árið 2002. Samkvæmt vefsíðu EFTA er þörf á að uppfæra hann. Viðræður á mjög mismunandi stigum eru auk þess í gangi við fjögur ríki, Indónesíu, Malasíu, Víetnam, auk Taílands þar sem viðræður voru stöðvaðar vegna pólitísks ástands í landinu.
    Á fáum árum hefur heimshlutinn hins vegar tekið stakkaskiptum. Jákvæð breyting hefur orðið á lýðræðisþróun og viðskiptafrelsi og hagvöxtur hefur aukist hratt. ASEAN hefur enn fremur hafið gerð fríverslunarsamninga fyrir bandalagið í heild. Fyrirséð er að EFTA-ríkin munu fyrr en seinna leita eftir fríverslun við öll ríki ASEAN. EFTA þarf að laga nálgun sína að þessum breyttu aðstæðum. Í því ljósi telja flutningsmenn bæði skynsamlegt og tímabært að gera einn heildarsamning við ASEAN fremur en ljúka níu tvíhliða samningum til viðbótar.