Ferill 461. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Prentað upp.

Þingskjal 1158  —  461. mál.
Viðbót.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni
um markaðshlutdeild og samkeppni í dagvöruverslun.


    Ráðherra fer með framkvæmd samkeppnislaga en í umboði hans annast sérstök stofnun, Samkeppniseftirlitið, eftirlit og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Ráðherra hefur ekki bein afskipti af stjórn Samkeppniseftirlitsins en sérstakri stjórn er falið það hlut­verk að lögum. Í d-lið 8. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, kemur fram að hlutverk Sam­keppniseftirlitsins sé að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja.
    Óskað var eftir upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu við vinnslu fyrirspurnarinnar og byggjast eftirfarandi svör á þeim gögnum sem bárust þaðan. Samkeppniseftirlitið var á sama tíma að vinna að skýrslu um dagvörumarkað.

     1.      Hver er talin vera markaðshlutdeild helstu verslanasamstæðna, sjálfstæðra dagvöru­verslana og minni verslana á dagvörumarkaði, sundurliðað eftir verslanasamstæðum og verslanakeðjum, stærri sjálfstæðum verslunum og minni verslunum, annars vegar á landinu öllu og hins vegar í einstökum landshlutum?
    Farið er eftir skilgreiningum Samkeppniseftirlitsins varðandi skilgreiningar á markaðs­svæðum. Þær upplýsingar sem fram koma í þessum tölulið miðast við árið 2014. Þá voru starfandi 180 dagvöruverslanir á Íslandi. Velta verslananna vegna sölu á dagvöru er áætluð um 130 milljarðar kr. á árinu 2014. Hlutdeild Haga var um 48–49% en fyrirtækið rak alls 41 dagvöruverslun. Af einstökum verslanakeðjum var Bónus með hæstu hlutdeildina eða 38–39%. Hlutdeild Kaupáss var um 19–20% en þar af var hlutdeild Krónunnar 15–16%. Samkaup voru með 15–16% hlutdeild en þar af var hlutur Nettó 8–9% af heildarmarkaði. Þá var 10–11/Iceland með 5–6% markaðshlutdeild. Aðrar dagvöruverslanir sem hafa nokkra hlutdeild eru Fjarðarkaup og Víðir en hlutdeild þeirra var 1–3%. Ekki er um aðrar dagvöru­verslanir að ræða sem hafa teljandi markaðshlutdeild.
    Á höfuðborgarsvæðinu voru rúmlega 80 dagvöruverslanir og velta þeirra samanlagt er áætluð um 63 milljarðar kr. Hlutdeild Haga var 53–54% sem er hærra en markaðshlutfall Haga á landsvísu. Það sama á við um Kaupás sem hefur 23–24% markaðshlutdeild en lægra hlutfall á landsvísu. Markaðshlutdeild 10–11/Iceland er 6–7% sem er lægra en það er á lands­vísu.
    Á Akranesi þar sem íbúafjöldi var 7.300 íbúar var Krónan með mestu markaðshlutdeild eða 37–38% en hlutdeild Bónus var 31–32%. Hlutdeild Verslunar Einars Ólafssonar og Sam­kaupa – Strax var áþekk eða um 15–16% hjá hvorri verslun.
    Í Borgarbyggð, sem skilgreind er sem Borgarnes, Bifröst, Hvanneyri og Varmaland, þar sem íbúafjöldi var 3.700, var Bónus með 66–67% markaðshlutdeild. Tvær verslanir í eigu Samkaupa (Nettó í Borgarnesi og Samkaup – Úrval á Bifröst) voru hins vegar með 33–34%.
    Á Snæfellsnesi, sem telst sem Stykkishólmur, Grundarfjörður, Snæfellsbær (Ólafsvík, Rif og Hellissandur) og Búðardalur, þar sem íbúafjöldi var 4.600 íbúar, var Bónus með 41–42% (ein verslun) markaðshlutdeild. Tvær verslanir í eigu Samkaupa voru hins vegar samtals með 34–35% hlutdeild. Aðrar verslanir, Kassinn í Ólafsvík og Virkið á Hellissandi, voru saman­lagt með 24–25%.
    Á Vestfjörðum eru stærstu dagvöruverslanirnar á Ísafirði og Hólmavík. Á Vestfjörðum eru 6.800 íbúar. Ein Bónusverslun á Ísafirði seldi tæplega helming allrar dagvöru í dagvöruversl­un á svæðinu. Tvær verslanir Samkaupa – Úrvals á Ísafirði og í Bolungarvík voru með 29–30% hlutdeild og þrjár verslanir Kaupfélags Streingrímsfjarðar (á Hólmavík, Drangsnesi og í Norðurfirði) voru með 13–14% hlutdeild á þessu svæði.
    Á Norðvesturlandi, sem telst vera Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur og Skagaströnd, bjuggu 7.100 íbúar. Kaupfélag Skagfirðinga var með 47–48% markaðshlutdeild. Um er að ræða þrjár verslanir á Sauðárkróki, Hofsósi og í Varmahlíð. Hlutur Samkaupa var 22–23% og Kaupfélags Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga 13–14%. Hlutur Hlíðarkaups á Sauðár­króki var 17–18%. (Athygli vekur að hvorki Hagar né Kaupás hafa haslað sér völl á Norð­vesturlandi).
    Á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, sem telst auk Akureyrar m.a. vera Dalvík, Ólafsfjörður og Siglufjörður, voru íbúar 24.000 og veltan tæplega 10 milljarðar kr. Hlutdeild Haga var um 59–60%, þar af var hlutdeild tveggja verslana Bónuss á Akureyri 47–48% og hlutdeild Hag­kaupa um 11–12%. Hlutdeild Samkaupa var um 37–38%. Þar af var hlutur Nettó á Akureyri 19–20%. Hlutdeild 10–11 var 1–2% en hlutur annarra minni verslana var innan við 1%.
    Á Norðausturlandi, sem telst m.a. vera Húsavík, Raufarhöfn, Kópasker, Vopnafjörður og Þórshöfn, bjuggu 4.500 íbúar. Fjórar verslanir Samkaupa hafa mikla hlutdeild eða 83–84%. Hvorki Hagar né Kaupás reka verslanir á svæðinu. Nokkrar minni verslanir eru á svæðinu með 16–17% markaðshlutdeild.
    Á Austurlandi bjuggu 10.000 íbúar. Svæðið telst vera þau sveitarfélög sem þar eru en stærst þeirra eru Fjarðabyggð (Neskaupstaður, Mjóifjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fá­skrúðsfjörður og Stöðvarfjörður), Egilsstaðir og Seyðisfjörður. Hlutur einnar Bónusverslunar á Egilsstöðum var 37–38%. Hlutur Krónunnar á Reyðarfirði var 19–20%. Hlutdeild Sam­kaupa var 38–39%.
    Á Suðausturlandi, þ.e. Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustri og Vík í Mýrdal, er aðeins um þrjár verslanir að ræða, Nettóverslun Samkaupa á Höfn og tvær Kjarvalsverslanir Kaup­áss, annars vegar á Kirkjubæjarklaustri og hins vegar í Vík.
    Til Suðurlands teljast sveitarfélög á Suðurlandi, stærst eru Árborg (Selfoss, Stokkseyri og Eyrarbakki). Einnig eru þar Flúðir, Laugarvatn, Hella, Hvolsvöllur, Hveragerði og Þorláks­höfn. Á þessu svæði bjuggu 19.000 íbúar. Tvær verslanir Bónus voru með tæplega helmings­hlutdeild. Hlutdeild Krónunnar var um 27–28%. Hlutdeild þriggja Kjarvalsbúða á Hellu, Hvolsvelli og Þorlákshöfn var um 11–12%.
    Vestmannaeyjar teljast sem landfræðilegur markaður og þar búa 4.300 íbúar. Kaupás var með 77–78% markaðshlutdeild og Vöruval með 22–23%.
    Á Suðurnesi, sem telst vera Reykjanesbær, Sandgerði, Garður, Vogar og Grindavík, bjuggu 21.000 íbúar. Bónus var með 40–41% hlutdeild, þrjár 10–11 verslanir voru með 10–11%, Kaskó með 4–5% og tvær verslanir Nettó voru með 34–35% (Kaskó og Nettó heyra undir Samkaup, því er Samkaup með u.þ.b. 40% hlutdeild).

     2.      Hvernig hefur markaðshlutdeild framangreindra aðila þróast, annars vegar frá útkomu skýrslu Samkeppniseftirlitsins „Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði“, sem kom út í janúar 2012 (rit 1/2012), og hins vegar í grófum dráttum frá 1990?
    Á tíunda áratugnum var þróunin sú að aukin samþjöppun varð í dagvöruverslun og sú þróun hefur í grófum dráttum haldið áfram til dagsins í dag. Bónus opnaði sína fyrstu verslun 1989 og 10–11 var stofnuð 1991. Verslunum þessara fyrirtækja fjölgaði ört á höfuðborgar­svæðinu fyrstu árin. Árið 1992 sameinuðust Hagkaup og Bónus.
    Á árunum 1995–1998 var hlutdeild Bónuss og Hagkaupa 33–36%, Nóatún var með 8–11%, 10–11 var með 5–8%, 11–11 var með 2–3%, Kaupgarður var með 1–2%, Fjarðarkaup 2–4% og hlutdeild Þinnar verslunar var 4–5%.
    Hlutdeild Haga (áður Baugs) hélt síðan áfram að aukast og jókst stöðugt frá árinu 2000, þegar hún var 39%, þangað til 2009, þegar hún var 55%. Jafngildir það 2% aukningu á hverju ári á þessu tímabili. Hlutdeild fyrirtækisins lækkaði hins vegar 2010 í fyrsta sinn í áratug og varð þá 53%. Á sama tímabili lækkaði hlutdeild annarra dagvöruverslana úr 22% í 10%. Hlut­deild annarra dagvöruverslana hefur hins vegar aukist á liðnum árum sem má rekja til þess að 10–11 var seld úr samstæðu Haga í júní 2011 (sjá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 6/2010). Þess má geta að 10–11 hefur styrkt stöðu sína með yfirtöku á dagvöruverslunum, fyrst tveimur 11–11 verslunum og síðar Iceland.
    Af þessu má sjá að þróunin til ársins 2009 var aukin samþjöppun í verslun með dagvöru. Þessari þróun var snúið við tímabundið árið 2009, og þróunin síðan er talsverður viðsnúning­ur frá því sem var frá 1999–2011. Þessi þróun er vísbending um aukna samkeppni og fjöl­breytni sem er almenningi til hagsbóta. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru þó talsverðar hindranir á markaðnum sem gera nýjum aðilum erfitt fyrir að stækka og auka hlutdeild enn frekar, t.d. í samkeppni við lágvöruverslanir Bónuss og Krónunnar. Verslanir eins og Iceland, Víðir, Kostur og Fjarðarkaup og jafnvel fleiri verslanir hafa í kynningum og auglýsingum lagt áherslu á lágt verð á einstaka vörum. Þessar verslanir verða þó tæplega flokkaðar sem lág­vöruverslanir sem eru með breitt úrval dagvöru á lágu verði, eins og t.d. Bónus og Krónan.
    Þá virðast litlar breytingar hafa orðið frá 2011 að því varðar hlutdeild dagvöruverslana á landsvísu og staðan því svipuð í dag og hún var 2011–2012.

     3.      Hvernig hefur verið fylgst með þróun afslátta af verði frá birgjum til stóru verslanasam­stæðnanna annars vegar og minni verslana hins vegar frá því að áðurnefnd skýrsla Samkeppniseftirlitsins kom út?
    Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2012, Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði, hvatti Samkeppniseftirlitið birgja til að taka verðstefnu sína til athugunar, m.a. með hliðsjón af efni skýrslunnar. Í henni kom fram mikill mismunur á verði birgja til annars vegar stóru verslanasamstæðnanna og hins vegar minni dagvöruverslana. Söluverð til minni verslana var mun hærra eða um 15% hærra að meðaltali en til Haga. Við mat á þessu þarf að skoða að hvaða leyti magnhagræði hafa áhrif á verðið. Hugsanlega þarf að meta hvort kaupandastyrkur hafi leitt til meiri afsláttar en magnhagræðið eitt og sér leiðir af sér.
    Könnun Samkeppniseftirlitsins er enn þá í gangi og nú hefur það m.a. óskað eftir upplýs­ingum frá birgjum, dagvöruverslunum og hagsmunasamtökunum fyrirtækja varðandi við­skiptakjör. Svör sem bárust frá fyrirtækjum fólu ekki í sér ítarlegar upplýsingar eða skýringar sem réttlættu betri viðskiptakjör. Því hefur Samkeppniseftirlitið ákveðið að hefja sérstaka rannsókn á viðskiptakjörum nokkurra birgja. Sú rannsókn er enn í gangi og þegar henni lýkur getur komið til að Samkeppniseftirlitið beitti þeim úrræðum sem stofnunin hefur yfir að ráða.
    Þá hefur Samkeppniseftirlitið sent skýrslu nr. 1/2012 til umsagnar haghafa á dagvörumark­aði og óskað eftir upplýsingum eins og greint er frá hér að framan.
    Samkeppniseftirlitinu hafa borist ábendingar um að minni verslanir hafi sótt á birgja og fengið bætt viðskiptakjör eftir útkomu skýrslunnar og ábendingar um að stærri verslanir hefðu fengið betri kjör hjá birgjum þar sem lítill munur var á viðskiptakjörum. Í heild metur Samkeppniseftirlitið það svo að skýrslan hafi haft jákvæð áhrif að því er varðar óeðlilegan verðmismun frá birgjum til stærri aðila. Rannsókn vegna þessa er þó enn í gangi og til frekari upplýsinga má horfa til skýrslna Samkeppniseftirlits nr. 1/2012 og nr. 1/2015.

     4.      Hvernig metur ráðherra almennt samkeppnisaðstæður á dagvörumarkaði?

    Eins og fram kemur í skýrslu Samkeppniseftirlitsins eru ákveðnar vísbendingar um að samkeppni á dagvörumarkaði hafi verið að aukast. Hins vegar sýnir skýrslan einnig að enn er samþjöppun þó mikil og mikilvægt að auka samkeppni á þessum markaði.
    Vísbendingar eru um mögulega aukna samkeppni á þessum markaði með væntanlegri komu bandarísku verslanakeðjunnar Costco hingað til lands. Fróðlegt verður að fylgjast með þeirri þróun á næstu missirum.
    Ráðuneytið telur mikilvægt að Samkeppniseftirlitið ljúki könnun sinni á viðskiptakjörum dagvöruverslana við birgja og haldi áfram að meta aðstæður á dagvörumarkaði. Að sama skapi er mikilvægt að atvinnulífið og stjórnvöld fari vel yfir ábendingar Samkeppniseftirlits­ins og bregðist við þeim.