Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1183  —  541. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Erni Ágústssyni um samstillt
átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar.


     1.      Hvenær er von á skýrslu starfshóps um samstillt átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar?
    Á grundvelli viljayfirlýsingar milli ráðuneytisins og sveitarfélaganna fjögurra í Austur- Húnavatnssýslu, frá október 2014, er nú unnið að greinargerð um atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu. Byggist sú greinargerð á þingsályktun Alþingis frá 15. janúar 2014 um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar.
    Greinargerðin er unnin af verkefnisstjórn, skipaðri af ráðherra, með fulltrúum viðkomandi sveitarfélaga og ráðuneytisins. Greinargerðin er unnin í samvinnu við Byggðastofnun og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og byggist m.a. á samráðsfundi sem haldinn hefur verið með heimamönnum.
    Markmið greinargerðarinnar er að gefa yfirlit um stöðu atvinnumála og mannlífs í Austur- Húnavatnssýslu, tengsl þess við raforkuframleiðslu í héraðinu og draga ályktanir sem nýst geta til að efla atvinnu og styrkja byggðina. Greinargerðin gegnir einnig því hlutverki að hafa tiltækar grunnupplýsingar sem nýst geta við gerð kynningarefnis fyrir fjárfesta og aðra þá sem hafa hug á að koma að atvinnurekstri í héraðinu.
    Í greinargerðinni verða tillögur um atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu. Tillögur verða um almenna atvinnustarfsemi og einnig um atvinnustarfsemi sem þarf talsverða raforku (5–30 MW). Samkvæmt verkáætlun sem fylgdi framangreindri viljayfirlýsingu er gert ráð fyrir að greinargerðin verði tilbúin 15. apríl 2015.

     2.      Hefur farið fram vinna innan ráðuneytisins um sérstaka markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts? Ef svo er, þá hvaða vinna?
    Framangreind greinargerð sem unnið er að hefur m.a. þann tilgang að greina gögn sem unnt er að nýta til kynningar á Austur-Húnavatnssýslu sem vænlegs iðnaðarsvæðis. Þar sem sú undirbúningsvinna er enn í fullum gangi er ekki komið að því að ráðast í sérstaka markaðssetningu. Samkvæmt viljayfirlýsingunni frá því í október 2014 er reiknað með að kynning á niðurstöðum og tillögum verði í maí 2015. Gerð kynningarefnis fyrir fjárfesta verði í maí– júlí 2015 og kynning fyrir fjárfestum í ágúst og september 2015.

     3.      Er gert ráð fyrir að allt að 50 MW orka úr Blönduvirkjun verði nýtt til iðnaðaruppbyggingar nyrðra?
    Ekki liggur fyrir hvort eða hvaða eftirspurn er eftir raforku til iðnaðaruppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu. Almennt er það verklag viðhaft að meta og svara eftirspurn eins og hún er lögð fram og rökstudd af væntanlegum fjárfestum. Þegar fram koma raunhæfar hugmyndir um áhugaverðar nýfjárfestingar fyrir svæðið hefst venjubundið ferli með aðkomu hlutaðeigandi aðila.