Ferill 718. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1202  —  718. mál.




Fyrirspurn



til forseta Alþingis um kostnaðaráætlun með nefndarálitum.

Frá Jóni Þór Ólafssyni.


     1.      Hefur forseti Alþingis eða skrifstofustjóri Alþingis í hans umboði kallað eftir því að fá auknar fjárveitingar til reksturs Alþingis svo að Alþingi geti sinnt því lögbundna hlutverki að láta útbúa kostnaðaráætlun og endurskoðað kostnaðarmat með þingmálum óháð áliti framkvæmdarvaldsins? Ef svo er, hvenær var það gert? Ef málaleitan Alþingis var hafnað, hver voru rökin fyrir því að synja Alþingi um slíka fjárveitingu?
     2.      Ef ekki hefur verið leitað eftir fjárveitingum til framangreindra verkefna, hver eru þá rökin fyrir því?
     3.      Hvað telur forseti að mörg mál hafi í tíð hans sem forseta verið afgreidd frá nefndum án þess að nefndaráliti fylgi kostnaðaráætlun eða endurskoðað kostnaðarmat eins og 2. mgr. 30. gr. laga um þingsköp Alþingis kveður á um?


Skriflegt svar óskast.

Greinargerð.

    Þessi fyrirspurn er borin upp í ljósi eftirfarandi orða sem forseti Alþingis beindi til fyrirspyrjanda á 64. fundi yfirstandandi þings: „Þegar stjórnarfrumvörp eru lögð fram fylgir þeim alltaf kostnaðarmat frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Alþingi hefur ekki haft aðstöðu til að búa til sitt sjálfstæða mat á fjárhagsáhrifum frumvarpa eftir meðhöndlun í nefndum. Eins og háttvirtum þingmanni er hins vegar kunnugt er það jafnan þannig að þegar um er að ræða breytingartillögur sem gerðar eru á vegum nefnda er leitað eftir því að jafnaði í nefndunum að fá upplýsingar um kostnaðarleg áhrif viðkomandi breytinga. Lengra hefur þingið ekki haft aðstöðu til að ganga í þessum efnum.“