Ferill 641. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1205  —  641. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um störf nefndar sem á að yfirfara ákvæði laga um framleiðslu,
verðlagningu og sölu á búvörum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvenær er ráðgert að nefnd sem á að yfirfara ákvæði 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, komi saman og hvenær er henni ætlað að skila niðurstöðum sínum?

    Með bréfi til þingflokkanna, dags. 31. október 2014, var tilkynnt að til stæði að setja á laggirnar nefnd með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi til að yfirfara ákvæði 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Nefndinni var ætlað að gefa álit á framkvæmd laganna og reynslunni af þeim og skilgreina helstu ágreiningsefni sem í þeim kunna að finnast. Til hliðsjónar átti að hafa væntanlega skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar sem m.a. væri fjallað um reynsluna af „mjólkursamningi“ frá árinu 2004. Var óskað eftir tilnefningu þingflokkanna í nefndina og mælst til þess að hún bærist hið allra fyrsta og eigi síðar en 7. nóvember sl. Því var þó ekki lokið fyrr en 21. janúar sl. þar sem tilnefning hafði dregist.
    Frá því að bréfið var ritað hafa einkum tvær forsendur breyst. Í fyrsta lagi liggur skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands ekki enn fyrir. Í öðru lagi féll úrskurður 16. desember 2014 nr. 5/2014 í áfrýjunarnefnd samkeppnismála í máli Mjólkursamsölunnar ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu. Málið snerist m.a. um þýðingu ákvæða í 71. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, um undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga. Niðurstaða málsins varð sú að hinn kærði úrskurður var felldur úr gildi. Lagt var fyrir Samkeppniseftirlitið að rannsaka málið nánar og taka ákvörðun í því á ný að þeirri rannsókn lokinni.
    Í ljósi þessa var ákveðið að fresta því að ganga frá umræddri nefndarskipan.