Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1215  —  426. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008,
með síðari breytingum (breytt valdmörk ráðuneyta, útvistun grunnskólahalds).


Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.



    Frumvarpið felur í sér tillögur um breytingar á ákvæðum gildandi laga að því er varðar kæruleiðir og rekstur einkaaðila á grunnskólum, breytta hugtakanotkun og breytingu á orðalagi er varðar samvinnu ­sveitarfélaga um grunnskólahald til samræmis við ­sveitarstjórnarlög frá árinu 2011.
    Í fyrsta lagi er fjallað um valdmörk ráðuneyta ­sveitarstjórnarmála og menntamála, þar sem lagt er til að allar stjórnvaldsákvarðanir, teknar á grundvelli grunnskólalaga, verði kæranlegar til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Minni hlutinn leggst ekki gegn þessari breytingu og telur hana skýra og bæta stjórnsýsluna hvað þetta varðar.
    Í öðru lagi er fjallað um samninga ­sveitarfélaga við einkaaðila um rekstur grunnskóla. Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 43. gr. grunnskólalaga sem fjallar um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en ­sveitarfélögum. Minni hlutinn bendir á að ekki kemur fram í gildandi grunnskólalögum heimild með skýrum hætti til handa ­sveitarfélögum til að fela einkaaðilum rekstur grunnskóla í ­sveitarfélagi í heild sinni. Almenna reglan er sú að ­sveitarfélög reki grunnskóla og almenn sátt er í samfélaginu um að það sé meginreglan. Minni hlutinn tekur undir þá skoðun BSRB að verði frumvarpið að lögum sé verið að heimila ­sveitarfélögum að útvista allan rekstur grunnskóla til einkaaðila. Þetta er þó ekki yfirlýstur tilgangur frumvarpsins og hefur ekki verið rætt sem grundvallarbreyting. Ástæða er til að velta því upp hvort með frumvarpinu sé stigið fyrsta skrefið í almennri einkavæðingu, þ.e. að ­sveitarfélögum skuli heimilað að útvista allan rekstur grunnskóla til einkaaðila, og hvort slíkt skref sé í almannaþágu. Sú umræða hefur ekki átt sér stað.
    Með 2. gr. frumvarpsins er komið til móts við þau tilvik þar sem nemendur hafa ekki val um skóla, svo sem þar sem ein­göngu einn skóli er rekinn í ­sveitarfélaginu eða þar sem allir skólar innan marka ­sveitarfélagsins eru reknir af sama einkaaðila. Jafnframt er vísað til tilvika þar sem hluti skóla er rekinn af einkaaðila. Minni hlutinn telur umhugsunarvert hvort heimila eigi útvistun á svo mikilvægu verkefni ­sveitarfélaga að hluta eða öllu leyti til einkafyrirtækis og telur nauðsynlegt að velta upp nokkrum atriðum í því samhengi. Hvernig eru slíkar ákvarðanir teknar? Ræður einfaldur meiri hluti ­sveitarstjórnarmanna eða á að krefjast samstöðu um málið í viðkomandi ­sveitarfélagi? Hvert er hlutverk skólanefndar eða skólaráðs í slíkri ákvörðun? Mun skipta máli að einkareknir skólar hafa oft sérstaka kennslufræði eða skólastefnu og að íbúar muni ekki eiga neitt val um hvar börn þeirra stundi skóla? Gæti komið upp sú staða að hætta væri á einokunaraðstöðu einkafyrirtækja sem rækju skóla, sem takmörkuðu möguleika ­sveitarfélaga til þess að hverfa til baka ef óánægja væri með rekstur viðkomandi aðila? Minni hlutinn telur brýnt að þessum spurningum verði svarað áður en frumvarpið verður að lögum og jafnframt varðandi réttarstöðu einstakra barna og foreldra og möguleika þeirra sem og ­sveitarfélagsins til að kæra ákvarðanir eða rekstur til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ljóst er að samkvæmt lögum getur ráðuneytið ekki breytt, fellt úr gildi eða tekið nýjar ákvarðanir fyrir einkarekinn grunnskóla heldur aðeins gefið út álit með tilmælum. Ákvarðanir ­sveitarfélagsins eru hins vegar kæranlegar. Minni hlutinn telur óljóst hvað þetta þýðir fyrir réttarstöðu skólabarna og foreldra þeirra varðandi rekstur skólans.
    Í b-lið 2. gr. frumvarpsins segir að kennsla skuli vera nemendum að kostnaðarlausu og gjaldtaka af nemendum og foreldrum vegna skólastarfs eigi að lúta sömu reglum og ef ­sveitarfélag ræki skólann sjálft. Minni hlutinn telur þetta ákvæði mikilvægt enda felur það í sér að sjálfstætt starfandi skólum er óheimilt að innheimta kostnað af nemendum. Allur námskostn­aður verður að vera á ábyrgð og greiddur af viðkomandi ­sveitarfélagi. Það er þá ákvörðun ­sveitarfélagsins hvort það vilji t.d. greiða fyrir skólabúninga nemenda, sérstök námsgögn, sérstaka aðstöðu eða búnað ef einkafyrirtækið gerir kröfu um slíkt. Nemendur verði ekki rukkaðir fyrir slíkan kostnað samkvæmt skilningi minni hlutans á því frumvarpi sem hér er til afgreiðslu.
    Minni hlutinn telur að samþykkt frumvarpsins geti haft í för með sér áhrif á starfskjör og réttindi starfsmanna skóla, þ.e. ef skipt er um rekstraraðila og starfsmaður ­sveitarfélags og ríkis til margra ára færist yfir til einkaaðila með tilheyrandi breytingum á réttindum og ráðningarkjörum. Frumvarpið fjallar ekki um þetta og vísar til kjarasamninga, en rétt er að árétta að þar sem einkaaðili yfirtekur allan skólarekstur á staðnum eiga starfsmenn ekkert val annað en þiggja starf hjá nýjum aðila eða flytja af svæðinu. Minni hlutinn telur að skoða þurfi þennan þátt miklu betur og skýra reglur ef heimila á útvistun á rekstri eina grunnskólans eða allra grunnskóla í tilteknu ­sveitarfélagi.

Alþingi, 12. mars 2015.

Guðbjartur Hannesson,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Páll Valur Björnsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson.