Ferill 432. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1222  —  432. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni
um framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands.


     1.      Hver eru áform ráðherra varðandi framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands?
    Augljóslega þarf að standa vörð um menntun og vísindalegt starf á sviði landbúnaðar, skógfræði, landgræðslu, um­hverfisskipulags, hestafræða, almennrar náttúrufræði og skipulagsfræða sem allt eru viðfangsefni Landbúnaðarháskóla Íslands. Settur hefur verið saman starfshópur til að skoða fjárhagslegan og faglegan ávinning af sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólans á Bifröst. Mælst er til þess í skipunarbréfi starfshópsins að hann ljúki störfum fyrir 1. júní 2015.

     2.      Hefur ráðherra kynnt tillögur um faglega og fjárhagslega framtíð skólans og ef svo er, hvaða gögn eru til grundvallar tillögunum og hverjum hafa þær verið kynntar?

    Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnti á árinu 2014 tillögur um faglega og fjárhagslega framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands sem miðuðu að stóreflingu starfsemi háskólans á öllum sviðum, þ.m.t. á starfsmenntanámi skólans. Til grundvallar þeirri tillögugerð lágu margvíslegar úttektir, skýrslugerðir, áskoranir og ábendingar frá liðnum árum, þ.m.t. skilagrein nefndar ráðherra um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands frá 2009, úttektarskýrslur og ábendingar Ríkisendurskoðunar, úttektarskýrsla gæðaráðs íslenskra háskóla, ítrekaðar ábendingar frá fjárlaganefnd Alþingis um málefni skólans, tillögugerð hagræðingarnefndar ríkisstjórnarinnar, stefnumótun og áherslur Vísinda- og tækniráðs o.fl. Nú er beðið eftir niðurstöðu starfshóps, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Hefur ráðherra hætt við fyrri áform um sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands? Ef svo er ekki, liggur fyrir fullmótuð áætlun um sameininguna og skiptingu verkefna milli háskólanna? Liggur fyrir greining á áhrifum sameiningar á námsframboð og ­rannsóknir? Liggur fyrir kostnaðarmat vegna sameiningar skólanna og ef svo er, hver er áætlaður kostn­aður og liggur fyrir fjármagn til að greiða fyrir slíka sameiningu?
    Á árinu 2014 var það niðurstaða mennta- og menningarmálaráðuneytisins, rektora og háskólaráða beggja háskólanna auk mikils meiri hluta akademískra starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands að skynsamlegt og æskilegt væri að sameina skólana tvo í nýjan Háskóla Íslands. Fyrir því stóðu veigamikil fagleg og fjárhagsleg rök. Þeim áformum fylgdi veruleg uppbygging og efling starfsemi bæði á Hvanneyri og Reykjum. Á sínum tíma lá fyrir ítarleg áætlun um sameiningu skólanna og skiptingu verkefna á milli skólanna, greining á líklegum áhrifum til skamms og lengri tíma litið og um auknar ­rannsóknir og rannsóknasamstarf. Í áætluninni var m.a. lagt til að sett yrði á laggirnar á Hvanneyri Miðstöð nýsköpunar í landbúnaði og matvælaframleiðslu, jarðræktartilraunir yrðu færðar frá Korpu á Hvanneyri, sem þá yrði miðstöð jarðræktarrannsókna á Íslandi, starfsemi Votlendissetur og Orkuseturs landbúnaðarins á Hvanneyri yrði stórefld og farið yrði í átak til eflingar starfsmenntanáms bæði á Hvanneyri og á Reykjum. Kostnaðarmat lá fyrir og samkomulag var komið um fjármögnun. Þessi áform náðu ekki fram að ganga.

     4.      Hvað verður um skuldir Landbúnaðarháskóla Íslands ef hann sameinast Háskóla Íslands? Ef ekki verður af sameiningu skólanna, mun ráðherra þá fylgja eftir þeirri stefnu sem birtist í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðum samdrætti í rekstri skólans með tilheyrandi uppsögnum og minnkandi námsframboði? Mun ráðherra krefja Landbúnaðarháskóla Íslands um uppgreiðslu á skuldum skólans og þá á hve löngum tíma?
    Það var ein af meginforsendum sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands að skuld Landbúnaðarskóla Íslands við ríkissjóð félli niður. Nú er beðið eftir niðurstöðu starfshóps, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, en í óbreyttri stöðu liggur ekki annað fyrir en að fylgt verði þeirri stefnu sem birtist í fjárlögum fyrir árið 2015. Skólinn mun þá verða krafinn um að hefja uppgreiðslu á skuldum skólans við ríkissjóð, þ.e. fylgt verður eftir áætlun þar um frá árinu 2014.

     5.      Er unnið að varanlegri lausn á fjárhagsvanda skólans? Ef svo er, hverjir koma að þeirri vinnu?
    Fjárhagslegar forsendur og rekstur Landbúnaðarháskóla Íslands er viðvarandi viðfangsefni ráðuneytisins og að því máli koma yfirstjórn skólans, fjármála- og efnahagsráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nú er beðið tillögugerðar starfshóps um fjárhagslegan og faglegan ávinning af sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólans á Bifröst. Þar er að vænta tillagna um með hvaða hætti fjárhagsvandi skólanna verði leystur og er þá bæði vísað til skuldar skólanna við ríkissjóð, stöðu lánafyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs til nemendagarða skólanna og rekstrarhæfi þeirra.