Ferill 640. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1244  —  640. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur um blóðprufur
vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

    Í tilefni af fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir umsögn lögreglustjórans á höfuð­borgar­svæðinu. Í umsögn lögreglustjóra, dags. 16. apríl 2015, sem unnin var í samráði við ríkislögreglustjóra, er gerður sá fyrirvari að sýni geta verið tekin úr fleiri en einum einstaklingi í hverju máli ef óljóst er hver var ökumaður og stundum eru tekin fleiri en eitt sýni úr sama einstaklingi. Þá er sá fyrirvari gerður að misjafn kostn­aður getur verið við hvert sýni eftir því að hvaða efnum er verið að leita. Þá segir í umsögn embættisins að ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað í hverju tilviki og því hafi sú leið verið farin að áætla tíðni kostnaðarliða og margfalda svo með fjölda sýna. Það megi því gera ráð fyrir 5–10% skekkju varðandi kostnað með notkun þeirrar aðferðar. Til svars við fyrirspurninni vísast að öðru leyti til umsagnar lögreglustjórans á höfuð­borgar­svæðinu hér á eftir.

     1.      Hversu margar blóðprufur voru teknar árin 2013 og 2014 vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna?
    Sóttar voru upplýsingar um öll blóðsýni sem tekin voru árin 2013 og 2014 vegna brota er varða grun um ölvun við akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Auk þess sem notast var við upplýsingar um fjölda mála.
    Árið 2013 voru tekin 1.074 blóðsýni vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og 1.410 vegna gruns um ölvun við akstur. Árið 2014 voru tekin 1.233 blóðsýni vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en 1.394 vegna gruns um ölvun við akstur.

Tafla 1. Fjöldi blóðsýna vegna gruns um ölvun við akstur
eða akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna 2013 og 2014.

Fjöldi blóðsýna 2013 2014 Alls
Áfengi 1.410 1.394 2.804
Ávana- og fíkniefni 1.074 1.233 2.307
Alls 2.484 2.627 5.111

     2.      Í hve mörgum tilvikum var grunur sannaður með blóðprufu?
    Í brotum vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna var neysla staðfest með blóðprufu í 84% mála árið 2013 og í 88% mála árið 2014. Í brotum vegna gruns um ölvun við akstur var neysla staðfest með blóðsýni í 99% tilvika, þar af yfir sektarmörkum (0,5‰) í um 90% tilvika.

     3.      Hver var heildarkostn­aður við blóðprufurnar á þessum árum?
    Áætlaður kostn­aður við blóðsýnatöku vegna ölvunar við akstur var 24.422.840 kr. árin 2013 og 2014 og 181.822.975 kr. vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Áætlaður kostn­aður vegna töku blóðsýna fyrir þessi ár er 65.201.027 kr.

Tafla 2. Áætlaður kostn­aður við sýnatöku blóðsýna vegna gruns um ölvun
við akstur eða akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
og greiningu sýna á árunum 2013 og 2014.

Kostn­aður
Áfengi 24.422.840
Ávana- og fíkniefni 181.822.975
Sýnataka 65.201.027
Alls 271.446.842