Ferill 718. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1274  —  718. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni
um kostnaðaráætlun með nefndarálitum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hefur forseti Alþingis eða skrifstofustjóri Alþingis í hans umboði kallað eftir því að fá auknar fjárveitingar til reksturs Alþingis svo að Alþingi geti sinnt því lögbundna hlutverki að láta útbúa kostnaðaráætlun og endurskoðað kostnaðarmat með þingmálum óháð áliti framkvæmdarvaldsins? Ef svo er, hvenær var það gert? Ef málaleitan Alþingis var hafnað, hver voru rökin fyrir því að synja Alþingi um slíka fjárveitingu?
     2.      Ef ekki hefur verið leitað eftir fjárveitingum til framangreindra verkefna, hver eru þá rökin fyrir því?
     3.      Hvað telur forseti að mörg mál hafi í tíð hans sem forseta verið afgreidd frá nefndum án þess að nefndaráliti fylgi kostnaðaráætlun eða endurskoðað kostnaðarmat eins og 2. mgr. 30. gr. laga um þingsköp Alþingis kveður á um?


    Með lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, var í 2. mgr. 30. gr. kveðið á um eftirfarandi: „Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð.“ Nýjum málslið var bætt við 2. mgr. greinarinnar með lögum nr. 84/2011 sem hljóðar svo: „Enn fremur skal nefnd láta endurskoða kostnaðarmat stjórnarfrumvarps, sbr. 37. gr., ef hún gerir verulegar breytingartillögur við frumvarpið.“
    Frá upphafi var ljóst að til þess að vinna mætti eftir ákvæði þessu þyrfti að styrkja mjög nefndadeild (síðar nefndasvið) og byggja þar upp sérhæfingu á sviði slíkra kostnaðaráætlana. Þær fjárheimildir, sem Alþingi hefur haft í fjárlögum frá árinu 1991 til að sinna nefndaþjónustu, hafa hins vegar ekki nægt nema til að sinna helstu grunnþjónustu fyrir nefndirnar. Það hefur verið mat Alþingis við gerð fjárlagatillagna sinna á umliðnum árum að ekki væri hljómgrunnur fyrir því að veita skrifstofu Alþingis það aukna fjármagn sem nauðsynlegt væri til að koma á fót innan þess þeirri sérhæfðu þjónustu sem vinna við kostnaðaráætlanir á frumvörpum og þingsályktunartillögum kallaði á. Það hefur því ekki tekist að framkvæma 2. mgr. 30. gr. þingskapa með þeim hætti sem til stóð og ákvæðið í reynd verið óvirkt.
    Vegna þeirra aðstæðna, sem hér hafa verið raktar, hefur skrifstofa Alþingis leitað eftir því við fjármála- og efnahagsráðuneytið að það annaðist kostnaðaráætlanir skv. 2. mgr. 30. gr. þingskapa en ekki hefur tekist að koma slíku verklagi á.
    Varðandi þær tölulegu upplýsingar sem spurt er um í 3. lið fyrirspurnarinnar þá hafa 26 þingmanna- og nefndafrumvörp orðið að lögum frá upphafi þessa kjörtímabils og 30 þingsályktanir, fluttar af þingmönnum og nefnd, verið samþykktar. Forseta er ekki kunnugt um að nefnd hafi talið þörf á að kalla eftir endurskoðuðu kostnaðarmati á stjórnarfrumvörpum á grundvelli síðari málsliðar 2. mgr. 30. gr. Undanskilin þar er þó fjárlaganefnd, en við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið er venja að nefndin afli upplýsinga frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um þann kostnað sem leiðir af veigamiklum breytingum á frumvarpinu.