Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1284  —  526. mál.




Svar


iðnaðar- og við­skipta­ráðherra við fyrirspurn frá Haraldi Einarssyni
um raforkuframleiðslu og -notkun.


     1.      Hvernig er raforkuframleiðslu háttað á Íslandi, þ.e. hvar á landinu verður orkan til skipt eftir kjördæmum og með hvaða hætti miðað við jarðvarma- og vatnsfallsvirkjanir yfir 10 MW og vindorkuvirkjanir yfir 1 MW?
    Ráðuneytið leitaði umsagnar Orkustofnunar vegna fyrirspurnarinnar og byggist svarið á upplýsingum þaðan.
    Eftirfarandi mynd sýnir hlutfallslega skiptingu raforkuframleiðslu eftir orkugjafa fyrir árið 2014.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Árið 2014 var framleiðsla á rafmagni úr vatnsorku 12.872 GWst, úr jarðvarma 5.238 GWst, úr vindorku 8 GWst og úr jarðefnaeldsneyti 2 GWst. Heildarframleiðslan var 18.120 GWst.
    Á myndinni hér á eftir er sýnt hvar rafmagnið sem matað er inn á flutningskerfi Landsnets verður til fyrir árið 2013. Ekki er búist við mikilli breytingu á milli ára. Norðan við Búrfell eru staðsettar tvær vindrafstöðvar sem eru hvor um sig 900 kW og í Þykkvabæ, í Rangárþingi ytra, eru tvær 600 kW vindrafstöðvar.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér sést hvaðan rafmagnið sem matað er inn á flutningskerfi Landsnets kemur. Heildarraforkuframleiðsla ársins 2013 var 18.116 TWst. (Heimild: Landsnet).

     2.      Hvernig skiptist raforkunotkun eftir kjördæmum?
    Tafla 1 sýnir hvernig raforkunotkun skiptist eftir kjördæmum árið 2013. Ekki er unnt að skipta notkuninni upp í Reykjavík.

Tafla 1. Orkunotkun eftir kjördæmum og hlutfall
hvers kjördæmis af heildarnotkuninni.

Kjördæmi Orkunotkun, MWst Hlutfall , %
Reykjavíkurkjördæmi norður og suður 792.604 5
Suð­vesturkjördæmi 3.693.043 21
Norð­vesturkjördæmi 5.967.190 34
Norð­austurkjördæmi 6.146.713 35
Suðurkjördæmi 952.489 5
Samtals 17.552.039 100

     3.      Hverjir eru 15 stærstu raforkunotendur landsins og hvar eru þeir staðsettir?
    Dreifiveitur og flutningsfyrirtæki senda árlega gögn um notkunarflokka til Orkustofnunar. Þegar gögnin eru tekin saman er hægt að skoða heildarnotkun hvers notkunarflokks fyrir sig. Í skýrslum notkunarflokka eru ekki gefnar upplýsingar um notkun einstakra fyrirtækja.
    Í nýjustu raforkuspá orkuspárnefndar frá 2014 er að finna ítarlegri umfjöllun um notkunarflokka og undirflokka þeirra ( os.is/gogn/Skyrslur/OS-2014/OS-2014-01.pdf). Tafla 2 sýnir skiptingu raforkunotkunar eftir notkunarflokkum fyrir árið 2013.



Tafla 2. Skipting raforkunotkunar eftir notkunarflokkum fyrir árið 2013.

Notkunarflokkur Orkunotkun, MWst Hlutfall , %
Fiskveiðar 44.773 0,3
Heimili 837.293 4,8
Iðnaður 14.677.602 83,6
Landbúnaður 221.155 1,3
Veitur 725.516 4,1
Þjónusta 1.040.491 5,9
Samtals 17.546.830 100

    Í töflu 2 sést raforkunotkun eftir notkunarflokkum árið 2013. Iðnaður notar langmest af framleiddri raforku og er áliðnaður stærsti undirflokkurinn með 12.399.562 MWst. Heildarnotkun stóriðju á árinu 2013 var 13.979.522 MWst.
    Eftirfarandi aðilar eru skilgreindir sem stórnotendur í skilningi raforkulaga, þ.e. notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári, og eru þeir því stærstu einstöku raforkunotendur landsins:
    –        ALCOA á Íslandi, Reyðarfirði.
    –        Rio Tinto Alcan, Hafnarfirði.
    –        Norðurál, Grundartanga.
    –        Elkem, Grundartanga.
    –        Becromal, Akureyri.
    –        Verne Global, Reykjanesbæ .
    Að öðru leyti liggja ekki fyrir upplýsingar um aðra stærstu einstöku raforkunotendur landsins eða hvar þeir eru staðsettir.