Ferill 791. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1407  —  791. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og ­sveitarfélaga
um eflingu tónlistarnáms (gildistími bráðabirgðaákvæða o.fl.).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



I. KAFLI
Breyting á lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985,
með síðari breytingum.

1. gr.

    1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Í samræmi við fjárlög fyrir árið 2015 og með vísan til samkomulags milli ríkis og ­sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms frá 13. maí 2011, með síðari breytingum, greiðir ríkissjóður 520 millj. kr. í Jöfnunarsjóð ­sveitarfélaga á árinu 2015 til að standa straum af kennslukostnaði að viðbættu álagi fyrir stjórnunarkostnað vegna söngnáms á miðstigi og söng- og hljóðfæranáms á fram­haldsstigi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um námsgögn, nr. 71/2007, með síðari breytingum.
2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Á árinu 2015 greiðist framlag skv. 1. mgr. 6. gr., 54 millj. kr., af Jöfnunarsjóði ­sveitarfélaga, f.h. ­sveitarfélaga. Framlagið skal innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til ­sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2015.

III. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.
3. gr.

    4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. skal framlag samkvæmt þeirri málsgrein, á árinu 2015, 44,6 millj. kr., greitt af Jöfnunarsjóði ­sveitarfélaga, f.h. ­sveitarfélaga. Framlagið skal innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til ­sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2015.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna ­sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.
4. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XV í lögunum orðast svo:
    Á árinu 2015 greiðir Jöfnunarsjóður ­sveitarfélaga kostnað ­sveitarfélaga vegna eftirtalinna verkefna:
     a.      Sumardvalarheimilis í Reykjadal, 29,2 millj. kr.
     b.      Tölvumiðstöðvar fatlaðra, 8,9 millj. kr.
     c.      Vistheimilisins Bjargs, 63,3 millj. kr.
     d.      Lausnar á bráðavanda tónlistarskóla sem kenna nemendum á 4. stigi, 30 millj. kr.
    Kostn­aður vegna verkefna skv. 1. mgr. skal innheimtur af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til ­sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2015.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Frumvarp þetta er lagt fram af allsherjar- og menntamálanefnd, að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra ­sveitarfélaga, og að undangengnu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið vegna Jöfnunarsjóðs ­sveitarfélaga, Samband íslenskra ­sveitarfélag, Reykjavíkurborg og Samtök tónlistarskóla í Reykjavík. Það er samdóma álit allra þeirra sem nefndin hefur kallað á sinn fund vegna málsins að brýnt sé að frumvarp þetta verði að lögum frá Alþingi.
    Frumvarpið felur, með einni undantekningu, í sér framlengingu á lögum um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og ­sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms, nr. 180/2011, sem síðast voru framlengd árið 2014 með samþykkt laga nr. 56/2014. Áðurnefnd lög fólu í sér útfærslu á samkomulagi ríkis og ­sveitarfélaga um atriði sem snúa að fjármögnun tónlistarnáms á miðstigi í söng og fram­haldsstigi í söng og hljóðfæranámi. Samkvæmt því greiðir ríkið árlega fjárhæð til að standa straum af kennslukostnaði tónlistarskóla en á móti taka ­sveitarfélögin að sér að fjármagna tiltekin lögbundin og ólögbundin verkefni sem flest voru áður sérstakir fjárlagaliðir. Var af þeirri ástæðu að finna í lögunum ákvæði um tímabundnar breytingar á verkaskiptingu ríkis og ­sveitarfélaga, sbr. samkomulag milli ríkis og ­sveitarfélaga frá 5. október 2011 og viðaukasamkomulag frá 5. mars 2014 við samkomulag milli ríkis og ­sveitarfélaga. Með viðaukanum frá 2014 var gildistími upphaflegra samninga milli ríkis og ­sveitarfélaga framlengdur til 31. desember 2014, með óverulegum breytingum. Ekki hefur enn náðst samkomulag um nýjan viðauka en á grundvelli heimildar í fjárlögum fyrir árið 2015 hefur ríkissjóður greitt mánaðarlegt framlag til Jöfnunarsjóðs ­sveitarfélaga til að standa straum af kennslukostnaði sem samkomulagið tekur til. Fjárheimildin var upphaflega 480 millj. kr. en er nú 520 millj. kr. Þar sem lagaheimild til þess að draga hlutdeild ­sveitarfélaga af framlögum þeirra úr Jöfnunarsjóði ­sveitarfélaga rann út um sl. áramót hefur skort á fjármögnun þeirra verkefna sem ­sveitarfélögin tóku að sér að fjármagna tímabundið.
    Með frumvarpinu er gildistími tímabundinna bráðabirgðaákvæða í ýmsum lögum, sem lögfest voru með lögum nr. 180/2011 og 56/2014, framlengdur til 31. desember 2015. Samkvæmt frumvarpinu verða þau verkefni sem ­sveitarfélögin fjármagna áfram jafnvirði 230 millj. kr. sem er óbreytt miðað við það samkomulag sem gert var milli ríkis og ­sveitarfélaga árið 2011 og viðaukasamkomulag frá árinu 2014. Sú breyting er þó gerð að 30 millj. kr. framlag ríkisins til Varasjóðs húsnæðismála er fellt niður. Samsvarandi fjárhæð er þess í stað varið til þess að stuðla að lausn á bráðavanda tónlistarskóla sem kenna nemendum sem stunda nám á 4. stigi sem er að jafnaði undanfari náms á háskólastigi. Unnið er að því að ná samkomulagi milli ­sveitarfélaga, tónlistarskóla í Reykjavík og ríkisins um heildstæða lausn á fjárhagsvanda einkarekinna tónlistarskóla í Reykjavík.
    Allsherjar- og menntamálanefnd telur óhjákvæmilegt að leggja fram frumvarp til þess að tryggja framkvæmd þeirra verkefna sem ­sveitarfélögin tóku tímabundna ábyrgð á þótt ekki hafi enn náðst niðurstaða í viðræðum ríkis og ­sveitarfélaga um endurnýjun samkomulags milli þessara aðila. Ekki er heimild í fjárlögum fyrir árið 2015 til að standa straum af kostnaði við þessi verkefni en öll eru verkefnin brýn og því verulegir hagsmunir í hættu ef fjármögnun þeirra er ekki tryggð.
    Nefndin leggur áherslu á að hér er um að ræða tímabundið inngrip löggjafans í alvarlega stöðu, sem hefur ekki aðeins valdið mikilli óvissu í tónlistarskólum og ógnað rekstraröryggi þeirra heldur hafa ýmis önnur lögbundin og ólögbundin verkefni einnig verið í uppnámi. Má þar m.a. nefna verkefni tengd málefnum fatlaðra auk Námsgagnasjóðs og Endurmenntunarsjóðs grunnskóla. Að áliti nefndarinnar er óhjákvæmilegt að ­sveitarfélögin fjármagni þessi verkefni, á sama hátt og þau hafa gert undanfarin ár, sem mótframlag við þær 520 millj. kr. sem ríkissjóður greiðir á þessu ári til tónlistarmenntunar samkvæmt heimild í fjárlögum.
    Að tillögu Sambands íslenskra ­sveitarfélaga, og að höfðu samráði við velferðarráðuneytið og Varasjóð húsnæðismála, leggur allsherjar- og menntamálanefnd til þá breytingu á upptalningu verkefna samkvæmt lögum nr. 56/2014 að 30 millj. kr. verði varið til þess að leysa bráðavanda tónlistarskóla, í ljósi mjög alvarlegrar stöðu nokkurra tónlistarskóla. Um er að ræða jafnháa fjárhæð og ­sveitarfélögin hafa á undanförnum árum innt af hendi til Varasjóðs húsnæðismála f.h. ríkisins skv. 4. gr. laga nr. 56/2014. Samband íslenskra ­sveitarfélaga hefur lýst þeirri afstöðu að við núverandi aðstæður sé það brýnna verkefni að leysa vanda tónlistarskóla en að viðhalda greiðslum til Varasjóðs húsnæðismála.
    Þessi tilfærsla fjármuna milli verkefna er liður í að leysa bráðavanda tónlistarskólanna. Undanfarið hafa staðið yfir viðræður milli Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra ­sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Samtaka tónlistarskóla í Reykjavík (STÍR) um að Reykjavíkurborg og ríkissjóður komi með viðbótarframlög inn í rekstur tónlistarskólanna. Hafa fulltrúar skólanna átt samstarf við Reykjavíkurborg um greiningu á fjárhagsstöðu þeirra ásamt tillögum um aðgerðir til úrbóta, sbr. greinargerð starfshóps frá árinu 2014. Nefndin leggur á það áherslu að viðræðum um málið verði lokið eins ­fljótt og auðið er.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Greinin felur ekki í sér neina breytingu á fyrirkomulagi verkaskiptingar á milli ríkis og ­sveitarfélaga á sviði tónlistarfræðslu. Greinin þarfnast ekki að öðru leyti skýringar.

Um 2. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá lögum nr. 180/2011 og 56/2014. Gert er ráð fyrir að framlög ­sveitarfélaga til Námsgagnasjóðs verði áfram innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs ­sveitarfélaga til ­sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2015. Umsýsla verkefnisins verður jafnframt áfram hjá Sambandi íslenskra ­sveitarfélaga.

Um 3. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt. Gert er ráð fyrir að framlög ­sveitarfélaga til Endurmenntunarsjóðs grunnskóla verði áfram innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs ­sveitarfélaga til ­sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2015.

Um 4. gr.


    Verkefni skv. a–c-lið varða þjónustu við fatlað fólk en af ýmsum ástæðum voru þessi verkefni undanskilin við gerð heildarsamkomulags um yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til ­sveitarfélaga sem tók gildi 1. janúar 2011. Vinna stendur yfir við faglegt og fjárhagslegt endurmat á samkomulaginu og er til skoðunar í þeirri vinnu hver verði framtíð þessara verkefna. Gengið er út frá því að fjárhæðir til framangreindra verkefna verði áfram í samræmi við fylgiskjal með umræddu samkomulagi frá 5. október 2011 og viðauka við það frá árinu 2014 og að Jöfnunarsjóður innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til ­sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. janúar 2015.
    Eins og fram kemur í greinargerðinni hér að framan er sú breyting lögð til á upptalningu verkefna frá því sem ákveðið var í lögum nr. 56/2014, í samræmi við tillögu Sambands íslenskra ­sveitarfélaga, að 30 millj. kr. verði varið til þess að leysa bráðavanda tónlistarskóla, í ljósi mjög alvarlegrar stöðu nokkurra tónlistarskóla. Fyrir liggur að hlutaðeigandi ráðuneyti gera ekki athugasemd við þá tillögu.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.