Ferill 746. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1411  —  746. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur
um bifreiðakaup fyrir ráðherra.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu miklum fjármunum hefur verið varið til kaupa á nýjum ráðherrabílum það sem af er þessu kjörtímabili? Svar óskast sundurliðað eftir árum, embættum, ökutækjateg­undum og fjárhæðum.

    Í 8. gr. reglugerðar nr. 816/2013, um bifreiðamál ríkisins, segir að leggja skuli ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna og til aksturs frá heimili að vinnustað. Bifreiðin skuli vera sérútbúin með öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði og vera í eigu og rekstri ríkisins. Slíkri bifreið skuli að jafnaði ekið af sérstökum bifreiðarstjóra sem sinni jafnframt hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra.
    Bifreiðakaup Stjórnarráðsins, að frádregnu söluandvirði eldri bifreiða, eru fjármögnuð af safnlið sem vistaður er í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Ríkiskaup, fyrir hönd viðkomandi ráðuneyta, annaðist kaup á tveimur bifreiðum árið 2014 og á einni bifreið árið 2015. Kaupvirði þeirra samtals er 35.517.560 kr. Í útboði var tekið tillit til öryggissjónarmiða sem sett eru af ríkislögreglustjóra og um­hverfissjónarmiða sem fram koma í stefnu um vistvæn innkaup og verkefninu Græn skref í ríkisrekstri.

Kaup ráðherrabifreiða.

Ráðuneyti Tegund bifreiðar Kaupverð, kr. Kaupár
Vegna utanríkisráðherra Land Rover Discovery 13.229.810 2014
Vegna fjármála- og efnahagsráðherra Mercedes Benz E250 9.587.850 2014
Vegna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Land Cruiser 150 VX 12.699.900 2015

    Ríkiskaup annaðist sölu eldri bifreiða, sbr. 8. gr. reglugerðar 816/2013, og rann söluandvirði til fjármögnunar þeirra nýju. Söluverð eldri bifreiðar vegna utanríkisráðherra var 3.020.203 kr., vegna fjármála- og efnahagsráðherra 1.511.000 kr. og 3.400.000 kr. vegna bifreiðar sem seld var við sameiningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.
    Bifreiðar Stjórnarráðsins eru komnar til ára sinna, enda hefur endurnýjun þeirra verið frestað allt frá 2008 og að sumu leyti dregist lengur en æskilegt væri. Elstu bifreiðarnar eru frá árinu 2004, en notkun þeirra er talsverð árið um kring og akstur getur numið allt að 60.000 km á ári. Erfitt getur reynst að tryggja rekstraröryggi slíkra bifreiða um langt árabil. Þá hefur viðhalds- og rekstrarkostn­aður aukist töluvert á undanförnum árum, en gert er ráð fyrir að hann lækki samhliða endurnýjun. Þá uppfylla eldri bifreiðar ekki um­hverfiskröfur sem þær nýju gera.