Ferill 745. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1426  —  745. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Páli Val Björnssyni
um fatlaða nemendur í fram­haldsskólum.


     1.      Liggja fyrir tölulegar upplýsingar um það hve margir nemendur, sem skilgreindir eru með skerðingar í grunnskóla, ljúka fram­haldsskólanámi samanborið við aðra nemendur?
    Upplýsingar um nemendur sem skilgreindir eru með skerðingar í grunnskóla eru ekki færðar skipulega til fram­haldsskóla, enda kveða lög á um að slíkar upplýsingar megi ekki senda úr grunnskólum nema með samþykki hlutaðeigandi og forráðamanna, sbr. reglugerð um upplýsingaskyldu fram­haldsskóla um skólahald, aðra kerfisbundna skráningu og meðferð persónuupplýsinga um nemendur, nr. 235/2012, og reglugerð um nemendur með sérþarfir í fram­haldsskólum, nr. 230/2012, sem settar eru með stoð í lögum um fram­haldsskóla, nr. 92/2008. Það er því á ábyrgð forráðamanna að koma slíkum upplýsingum til skila. Fram­haldsskólar skrá ekki skipulega upplýsingar um nemendur með sérþarfir. Nemendur á starfs­brautum fyrir fatlaða nemendur í fram­haldsskólum eru sérstaklega skráðir á þær ­brautir og upplýsingar eru aðgengilegar hjá hverjum skóla fyrir sig. Þeim upplýsingum er ekki safnað á miðlægan hátt á vegum ráðuneytisins.

     2.      Hvernig hefur því fjármagni sem úthlutað er til fram­haldsskóla verið skipt milli fatlaðra nemenda á starfs­brautum og fatlaðra nemenda sem sækja nám á öðrum ­brautum en starfs­brautum, t.d. bóknáms­brautum?
    Fjármagni vegna þjónustu við fatlaða nemendur í fram­haldsskólum er úthlutað á grundvelli upplýsinga sem fram­haldsskólar senda ráðuneytinu tvisvar á ári samkvæmt beiðni. Fram­haldsskólar fá því úthlutað fjármagni fyrir alla fatlaða nemendur á starfs­brautum og öðrum ­brautum fram­haldsskóla á sama grundvelli.

     3.      Á grundvelli hvaða þátta er sérstöku fjármagni vegna fatlaðra nemenda úthlutað fram­haldsskólum?
    Ráðuneytið lætur fram­haldsskólum í té viðmiðunarflokka fyrir sérkennslu og þjónustu vegna athafna daglegs lífs. Fram­haldsskólar meta þjónustuþörf nemenda út frá þeim viðmiðum og senda ráðuneytinu tvisvar á ári.

     4.      Hvað hefur verið gert til þess að stuðla að samfellu í þjónustu við fatlaða fram­haldsskólanemendur sem þurfa mikla persónulega aðstoð á skólatíma?
    Fram­haldsskólar veita þjónustu við fatlaða nemendur m.a. á grundvelli reglugerðar um nemendur með sérþarfir í fram­haldsskólum, nr. 230/2012. Stuðst er við upplýsingar um fyrri þjónustu í grunnskólum og fer fram reglulegt endurmat á þörf fyrir stuðning svo oft sem þurfa þykir í samráði við forráðamenn. Gerð er einstaklingsáætlun fyrir nemendur á starfs­brautum og eftir atvikum fyrir nemendur á öðrum náms­brautum. Stoðkerfi skóla ber ábyrgð á að stuðningur sé veittur og skólar gera grein fyrir stuðningi við nemendur í skólanámskrám sínum.

     5.      Hefur hafist formlegt samtal um samvinnu ríkis og ­sveitarfélaga þegar kemur að kostnaðarþátttöku ríkisins í NPA-samningum fram­haldsskólanema á skólatíma?
    Ekki hefur farið fram formlegt samtal milli ráðuneytisins og ­sveitarfélaga um kostnaðarþátttöku ráðuneytisins í NPA-samningum fyrir fram­haldsskólanemendur.